| Heimir Eyvindarson

Kenny má kaupa fleiri leikmenn

Kenny Dalglish má kaupa fleiri leikmenn til að styrkja liðið enn frekar. Hann segist ekki vera undir pressu frá eigendunum að losa sig við menn í staðinn.

Liverpool liðið er með stóran leikmannahóp eftir kaup sumarsins. Liðið keypti leikmenn fyrir 50 milljónir punda í sumar og ef milljónirnar sem félagið reiddi fram í janúar fyrir Carroll og Suarez eru teknar með í reikninginn hefur félagið keypt leikmenn fyrir meira en 100 milljónir frá því að John Henry og félagar í Fenway Sports Group tóku við því. Eina markverða salan sem hefur komið á móti þessum miklu útgjöldum er salan á Fernando Torres til Chelsea í janúar.

Þrátt fyrir þessi miklu útgjöld segir Kenny Dalglish að hann hafi fullt umboð eigendanna til þess að kaupa fleiri leikmenn og honum beri engin sérstök skylda til að losa sig við menn í staðinn. Hann segir að John W. Henry hafi hvatt sig til að styrkja hópinn enn frekar.

,,Við erum ekki undir neinni sérstakri pressu að losa okkur við leikmenn. Þvert á móti er meiri pressa á okkur að ná í fleiri góða menn!", segir Dalglish í viðtali við Liverpool Daily Post.

,,Eigendurnir hafa verið algjörlega stórkostlegir. Þeir standa fullkomlega við bakið á okkur og hafa mikinn metnað fyrir félaginu."

Samt sem áður er það ekkert launungarmál að Liverpool vonast til þess að losa sig við nokkra leikmenn áður en félagaskiptaglugginn lokar um næstu mánaðamót. Þann 1. september þarf félagið að skila inn leikmannalista til Úrvalsdeildarinnar. Á þeim lista mega einungis vera 25 leikmenn sem fæddir eru fyrir 1. jánbúar 1990. Félagið á sem stendur 27 leikmenn á því aldursbili. Í viðbót við þessa 25 leikmenn má félagið nota eins marga leikmenn og það vill sem fæddir eru eftir 1. jánúar 1990. Á undirbúningstímabilinu notaði Dalglish alls 36 leikmenn.

,,Við verðum að gefa þeim sem eru á launaskrá hjá okkur tækifæri til þess að sýna okkur af hverju þeir ættu að vera hér áfram. Við höfum gefið öllum færi á að koma sér í gott form og sýna hvað þeir geta. Ég get ekki séð annað en að þetta sé rétta leiðin. Það verðskulda allir tækifæri."

Jordan Henderson, Stewart Downing, Charlie Adam og Jose Enrique, sem allir voru keyptir í sumar, hófu allir leikinn gegn Sunderland á laugardaginn. Þar að auki voru Andy Carroll og Luis Suarez í liðinu þannig að óhætt er að segja að Liverpool liðið hafi breyst talsvert á þeim rúmlega 7 mánuðum sem Dalglish hefur verið við stjórnina.

,,Það tekur tíma fyrir nýja menn að samspilast, við vissum það áður en við völdum liðið. Að auki vorum við með tvo menn í liðinu sem voru að koma úr Copa America, en ég var ánægður með að við komumst í gegnum leikinn. Það var margt jákvætt í okkar leik."

,,Ég veit ekki hvað það tekur langan tíma að stilla liðið algerlega saman. Það gæti gerst í næstu viku, eða seinna. Það eru engin sérstök tímamörk á því. Liðið fær þann tíma sem það þarf. En þetta mun allt taka tíma."

,,Það sem gerir þetta auðveldara hjá okkur er að þetta eru allt góðir spilarar. Þeir þurfa bara að slípast saman og skilja hvað Liverpool snýst um."TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan