| Heimir Eyvindarson

Liverpool áfram í Evrópudeildinni

Liverpool komst í kvöld áfram í Evrópudeildinni eftir 1-2 sigur á Trabzonspor í Tyrklandi. Sjálfsmark Tyrkjanna og mark frá Dirk Kuyt tryggðu góðan sigur.

Eins og menn vita mætti Roy Hodgson ekki með sitt sterkasta lið til Tyrklands í kvöld, enda hefur hann gefið það út að Úrvalsdeildin heima fyrir sé mikilvægari en Evrópudeildin.

Framan af leik sýndu leikmenn Liverpool svipað andleysi og í leiknum gegn Manchester City á mánudaginn og strax á 4. mínútu leiksins var útlitið orðið heldur dökkt þegar Tyrkirnir komust yfir með marki frá Teofilo Gutierrez.

Heimavöllur Tyrkjanna er gríðarsterkur og hafi hávaðinn frá pöllunum verið mikill í upphafi leiks varð hann ekki minni við markið. Á vellinum mátti m.a. sjá borða með áletruninni You´re alone here og það var nokkuð til marks um fjandsamlegt andrúmsloftið á vellinum.

Okkar menn voru enn sem fyrr andlausir og virkuðu áhugalitlir. Tyrkirnir héldu áfram að sækja og voru næstum því búnir að gera út um leikinn skömmu síðar þegar Ibrahima Yattara skallaði naumlega fram hjá marki Liverpool úr upplögðu færi.

Lítið var að gerast í leik okkar manna og Liverpool gekk fremur illa að skapa sér færi gegn baráttuglöðum Tyrkjunum. Dirk Kuyt og Lucas Leiva áttu marktilraunir í fyrri hálfleiknum, án þess að skapa mikinn usla. Liverpool hélt því til búningsherbergjanna í Tyrklandi með mark á bakinu.

Í síðari hálfleik komst Liverpool mun betur inn í leikinn. Á 52. mínútu átti Joe Cole frábæra sendingu á David Ngog sem skallaði boltann fram hjá af fimm metra færi. Skömmu síðar var Frakkinn aftur á ferðinni með skot fram hjá frá vítateigshorninu.

Dirk Kuyt var aðgangsharður upp við mark Trabzonspor í tvígang um miðjan hálfleikinn en ekkert virtist bíta á sterka vörn heimamanna.

Á 77. mínútu brá Hodgson á það ráð að þyngja sóknarleikinn þegar hann setti hinn unga Daniel Pacheco inn á fyrir Fabio Aurelio. Pacheco virkaði frískur, en Liverpool skapaði sér þó engin færi næstu mínúturnar og allt virtist stefna í framlengingu. Eitthvað sem ekki hefði verið óskastaða fyrir okkar menn.

En á 84. mínútu uppskáru okkar menn laun erfiðisins sem þeir lögðu á sig, í það minnsta í síðari hálfleik. Glen Johnson átti þá góða rispu og sendi boltann fyrir mark Trabzonspor. Remzi Giray Kacar var svo vingjarnlegur að stýra boltanum í eigið mark og skyndilega var Liverpool komið í afar vænlega stöðu með dýrmætt útivallarmark í pokahorninu. Nú þyrftu Tyrkirnir að skora þrjú mörk til að komast áfram.

Heimamenn sóttu án afláts síðustu mínútur leiksins og reyndu allt hvað þeir gátu til að komast yfir á ný, en fjórum mínútum síðar veitti Dirk Kuyt þeim náðarhöggið þegar hann skoraði ágætt mark eftir góða skyndisókn. Ryan Babel fékk boltann úti á vinstri kanti. Hann lék inn í vítateiginn áður en hann sendi til baka út á Daniel Pacheco. Hann náði föstu skoti að marki sem markmaðurinn varði. Hann hélt þó ekki boltanum, Dirk hirti frákastið og skoraði af stuttu færi. Fyrsti sigur Liverpool í Tryklandi var þar með kominn í höfn. 

Liverpool: Reina, Johnson, Kyrgiakos, Carragher, Aurelio (Pacheco 77. mín.), Kelly, Cole, Lucas, Poulsen (Skrtel 91. mín.), Kuyt, Ngog (Babel 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Spearing, Shelvey, Eccleston.

Mörk Liverpool: Remzi Giray Kacar (sjálfsmark) 84. mín. og Dirk Kuyt 88. mín.

Trabzonspor: Kivrak, Cale (Jaja 86. mín.), Gulselam (Atas 65. mín.), Korkmaz, Kacar, Inan, Yilmaz, Balci, Gutierrez, Colman, Yattara (Alanzinho 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Zengin, Baytar, Badur, Oztorun.

Gul spjöld: Gulselam, Korkmaz, Yilmaz.

Áhorfendur: 21.065.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn var eins og aðrir leikmenn Liverpool fremur andlaus í fyrri hálfleik, en reis upp í seinni hálfleik og barðist eins og ljón. Skoraði síðan gott mark í lokin sem tryggði endanlega áframhaldandi veru okkar manna í Evrópudeildinni.

Roy Hodgson: Mér fannst við standa okkur vel frá upphafi til enda. Við vorum óheppnir að lenda undir snemma í leiknum eftir að boltinn breytti um stefnu. En við sýndum styrk í að halda áfram baráttunni og spila knattspyrnu á réttan hátt. Ég er mjög ánægður með að við skyldum ná að vinna því þetta lið er þekkt fyrir að vera sterkt á heimavelli sínum hér í Trabzon.

                                                                                   Fróðleikur.

- Liverpool er komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir fjóra leiki í forkeppni.

- Dirk Kuyt skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni.
 
- Sigur Liverpool í Trabzon var fyrsti sigur liðsins í Evrópuleik í Tyrklandi!

- Áður hafði liðið gert eitt jafntefli og tapað í þrígang í heimsóknum sínum til Tyrklands.

- Liverpool og Trabzonspor mættust í Evrópukeppni meistaraliða á leiktíðinni 1976/77. Liverpool lá þá 1:0 í útileiknum en vann 3:0 á Anfield. Senol Gunes stóð í marki Trabzonspor í þessum lekjum. Hann er nú framkvæmdastjóri liðsins. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan