| Heimir Eyvindarson

Erfiður sigur á Leeds í kvöld

David Ngog tryggði Liverpool sigur á Leeds í 3. umferð deildabikarsins á Elland Road í kvöld.

Liverpool tefldi fram mjög breyttu liði frá síðustu leikjum, en Jamie Carragher og Javier Mascherano voru þeir einu af þeim sem spiluðu gegn West Ham um helgina sem hófu leikinn. Benitez hafði þó allan vara á og hafði Fernando Torres, Steven Gerrard og Glen Johnson til taks á bekknum.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að hið fornfræga stórveldi Leeds United yrði erfitt viðureignar og allt útlit fyrir að Benítez gæti ekki hvílt sína bestu menn lengi. Leedsarar sýndu okkar mönnum enga virðingu og hvað eftir annað í fyrri hálfleik slapp Liverpool með skrekkinn.

Á 11. mínútu fékk fyrirliði Leeds, Jonathan Howson, t.d. dauðafæri en tókst á undraverðan hátt að skalla boltann upp í stúku!

Skömmu síðar skoraði Leeds síðan mark sem dæmt var af vegna rangstöðu, en þá rak hinn rangstæði Luciano Becchio löppina í boltann þar sem hann var á leið í markið eftir skot frá Jermaine Beckford og línuvörðurinn gat varla annað en flaggað. Að mati Liverpool manna a.m.k., en sjálfsagt verður þetta atvik rætt á kaffistofum víða um heim á morgun.

Becchio þessi, sem skoraði 19 mörk á síðustu leiktíð, var staðráðinn í því að bæta fyrir þetta klúður sitt og fór stundum illa með varnarmenn Liverpool liðsins, en sem betur fer fyrir okkar menn var hann ekki á skotskónum í kvöld.

Liverpool átti oft í vök að verjast í fyrri hálfleik og ef allrar sanngirni er gætt þá má segja að liðið hafi verið stálheppið að fara ekki inn í leikhléið með 1-2 mörk á bakinu.

Í síðari hálfleik hélt Leeds liðið uppteknum hætti og var framan af hálfleiknum heldur líklegra til að skora, en okkar menn komust smátt og smátt betur inn í leikinn. Síðari hálfleikur var þó heldur rólegri en sá fyrri, allt þar til að 65. mínútu þegar David Ngog skoraði laglegt mark fyrir Liverpool eftir að hafa fengið boltann eftir misheppnað skot Javier Mascherano.

Eftir það má segja að allur vindur hafi verið úr Leeds liðinu, en liðið átti þó nokkrar rispur undir lok leiksins, en án árangurs sem betur fer.

Leeds United: Higgs, Hughes (Kilkenny 78. mín.), Kisnorbo, Michalik, Crowe, Johnson, Doyle (Showunmi 88. mín.), Howson, Snodgrass, Beckford og Becchio (Grella 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Ankergen, Naylor, Prutton og Robinson.

Liverpool: Cavalieri, Dossena, Carragher, Kyrgiakos, Degen (Johnson 70. mín.), Aurelio, Spearing, Mascherano, Riera, Babel (Skrtel 90. mín.) og Ngog (Gerrard 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina, Torres, Plessis og Voronin.
 
Mark Liverpool: David Ngog (65. mín.).

Áhorfendur á Elland Road: 38.168.

Maður leiksins: David Ngog. Frakkinn ungi var ef til vill ekki áberandi en hann stóð sig vel gegn hörðum varnarmönnum heimamanna. Svo skoraði hann sigurmarkið á mjög laglegan hátt! 

Rafael Benítez: Ég er mjög ánægður með liðið mitt og liðshópinn. Við sýndum að það er góð breidd í hópnum og það er mikilvægt að vita að við höfum leikmenn sem geta komið inn í liðið og staðið sig. Þetta var góður leikur og bæði lið fengu sín færi til að skora. 

                                                                            Fróðleikur...

- Liverpool hefur oftast allra liða unnið Deildarbikarinn eða sjö sinnum.

- Leeds United hefur einu sinni unnið þennan bikar.

- Liverpool og Leeds United gengu á hólm í fyrsta sinn frá því á keppnistímabilinu 2003/04.

- Leeds hefur fallið niður um tvær deildir frá því og leikur nú í þriðju efstu deild í Deildarkeppninni.

- Fyrir þennan leik hafði Leeds leikið 15 leiki í röð á heimavelli án taps.

- David Ngog skoraði annað mark sitt á keppnistímabilinu. Þetta var fimmta mark hans fyrir Liverpool.

- Þetta var fyrsta tap Leeds á keppnistímabilinu. Fyrir þennan leik hafði liðið leikið tíu leiki og unnið níu. 

- Þetta var í annað sinn sem liðin mætast í þessari keppni og hefur Liverpool haft betur í bæði skiptin.

- Fabio Aurelio lék sinn 90. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan