| Sf. Gutt

Michael Owen vildi komast heim!

Samkvæmt frétt í ensku dagblaði þá vildi Michael Owen komast aftur heim til Liverpool. Það mun hafa verið unnið í því fram á síðustu stundu, af aðstoðarmönnum hans, að koma endurkomu á Anfield í kring. 

Samkvæmt fyrrnefndri frétt þá var Michael Owen tilbúinn að taka á sig mikla launalækkun til að liðka fyrir því að hann kæmist aftur til Liverpool. Fullyrt er í greininni að Michael hafi haft mikinn áhuga á því að ganga aftur til liðs við Liverpool. Aðstoðarmenn hans eiga að hafa reynt að vekja áhuga forráðarmanna Liverpool á að fá Heilagan Mikjál til Liverpool og það eftir að Manchester United fór að fara á fjörurnar við hann.  

Samkvæmt fréttinni þá var ekki áhugi hjá Rafael Benítez á því að fá Michael Owen aftur heim til Liverpool. Aðallega munu tvær ástæður hafa verið fyrir því að Rafa vildi ekki fá Michael. Í fyrsta lagi þá mun Rafa ekki hafa litist á hversu mikið Michael hafi verið frá vegna meiðsla síðustu árin. Í annan stað þá mun það hafa setið í Rafael að Michael vildi frekar ganga til liðs við Newcastle United síðsumars 2005 þegar hann átti þess kost að koma aftur heim til Liverpool. Þá gat hann komið aftur til Liverpool en hann afneitaði félaginu fannst mörgum. Reyndar fannst ýmsum hann bregðast Liverpool sumarið áður þegar hann fór til Real Madrid. Þá var Rafael Benítez nýorðinn framkvæmdastjóri Liverpool. 

Hvað sem var þá er staðreyndin sú, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að Michael Owen samdi við Manchester United. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan