| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Undanfarnar vikur hafa stuðningsmenn Liverpool haldið trúfastir í vonina um að ná Englandsmeistaratitlinum. Nú þarf á hinn bóginn að leggjast á bæn og biðja um kraftaverk. Liverpool á tvo deildarleiki eftir og er í öðru sæti deildarinnar sex stigum á eftir Manchester United sem á jafn marga leiki eftir.

Kraftaverkið felst í eftirfarandi atburðarás. Arsenal verður að vinna Manchester United á laugardaginn. Liverpool þarf að vinna West Bromwich Albion á sunnudaginn. Í síðustu umferð deildarinnar þarf Liverpool að leggja Tottenham Hotspur að velli um leið og Hull City verður að vinna Manchester United. Gangi þessi einfalda atburðarás eftir verður Liverpool Englandsmeistari í nítjánda sinn!  Flóknara er það nú ekki! Leggjumst á bæn!

Fróðleiksmolar...

- Liverpool er í öðru sæti deildarinnar á eftir Manchester United.

- Liverpool hefur nú leikið níu deildarleiki í röð án þess að tapa.

- Liðið hefur unnið átta af þeim. 

- Liverpool hefur skorað flest mörk í efstu deild eða 72 talsins. Ekki sem verst hjá liði sem sumir telja varnarsinnað!

- Liverpool hefur skorað 21 mark í síðustu sex leikjum.

- Liverpool hefur skorað flest mörk allra liða á síðustu 10 mínútum leikja eða 19 talsins.

- Liverpool hefur skorað 101 mark í öllum keppnum á leiktíðinni. 

- Þeir Jose Reina, Jamie Carragher og Dirk Kuyt hafa leikið alla deildarleiki Liverpool á leiktíðinni. Þeir eru einu leikmenn Liverpool sem hafa gert það.

- Steven Gerrard er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni með 23 mark.

- Fimmtán af þeim mörkum hafa komið í deildinni.

- Enginn leikmaður Liverpool hefur fengið rautt spjald í deildinni á leiktíðinni.

- Ekkert lið hefur sýnt aðra eins prúðmennsku á þessu keppnistímabili.

- Liverpool hefur varla gengið betur gegn nokkru liði síðustu árin en W.B.A. Liverpool hefur unnið síðustu ellefu viðureignir liðanna!
 
- Liverpool hefur skorað 22 mörk í síðustu sjö leikjum gegn W.B.A. Í þeim leikjum hefur W.B.A. ekki skorað eitt einasta mark.

- Einn fyrrum leikmaður Liverpool er í liðshópi W.B.A. Þetta er landsliðsmarkmaðurinn Scott Carson. Hann lék níu leiki með Liverpool.  

Spá Mark Lawrenson

West Bromwich Albion v Liverpool

Þegar þessi leikur fer fram á sunnudaginn er hugsanlegt að Liverpool geti ekki lengur unnið deildina. En liðið hans Rafael Benítez er mjög einbeitt og það mun reyna að ná öllum þeim stigum sem eru í boði í siðustu tveimur leikjunum.

West Brom hefur unnið tvo síðustu heimaleiki sína og skorað sex mörk en ég held að Liverpool verði of sterkt fyrir liðið í þessum leik.

Úrskurður: West Bromwich Albion v Liverpool 0:2.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan