| Heimir Eyvindarson

Sammy Lee segir að Liverpool eigi meira inni

Eftir að Sammy Lee hafði horft á Liverpool liðið rústa Newcastle á St James´ Park í gær sá hann ástæðu til að vara keppinauta liðsins við. ,,Við getum gert enn betur".

Rauði herinn endaði árið með stæl og tryggði stöðu sína á toppi deildarinnar með 5-1 stórsigri á Newcastle. Tvö glæsimörk fyrirliðans Steven Gerrard, skalli frá Sami Hyypia, skondið pot frá Ryan Babel og örugg vítaspyrna Xabi Alonso tryggðu glæsilegasta útisigur Liverpool liðsins í áraraðir.

Seinna um daginn tókst Chelsea síðan einungis að krækja í eitt stig í viðureign sinni við granna sína í Fulham og þar með var ljóst að Liverpool endaði árið með þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar. Og aðstoðarframkvæmdastjórinn Sammy Lee, sem staðið hefur í ströngu síðari hluta desember mánaðar vegna veikinda Rafael Benítez, er sannfærður um að liðið eigi meira inni.

,,Við erum ánægðir með þennan góða sigur. Það er aldrei auðvelt að sækja stig á þennan völl, hvað þá að sigra svona örugglega, en hvort við sendum einhver skilaboð til keppinauta okkar með þessari frammistöðu er í rauninni bara þeirra að meta. Við einbeitum okkur bara að því sem við erum að gera. Við erum að gera góða hluti, en vitum jafnframt að við getum gert enn betur."

,,Við höfum trú á því sem við erum að gera og höfum eflt með okkur sjálfstraust og stolt, án þess að við ætlum okkur að vera hrokafullir. Við erum einfaldlega reiðubúnir til þess að ná árangri og við förum í hvern leik staðráðnir í að ná þeim úrslitum sem okkur finnst við eiga skilið að ná."

Rafael Benítez horfði á leikinn uppi í stúku, þar sem hann er enn að jafna sig eftir nýrnasteinaaðgerðina sem hann gekkst undir á dögunum, og gladdist auðvitað yfir frammistöðu sinna manna. Annað ánægjuefni stjórans var innkoma Martin Skrtel seint í síðari hálfleik, en hann hefur verið frá vegna meiðsla í tæpa þrjá mánuði.

Sammy Lee bætir við: ,,Já, já Rafa er ánægður, en þekkjandi hann þá er hann örugglega að horfa á DVD af leiknum núna og greina hvað hefði mátt betur fara! Við munum fara rækilega yfir það allt saman. Við erum allir mjög samstíga í því að gera ennþá betur og ég verð að hrósa strákunum fyrir það hversu einbeittir þeir eru í að bæta sinn leik."

,,Það er ekki okkar að meta hvort þetta var besti leikur okkar á tímabilinu, eins og sumir vilja meina. Það er hinsvegar okkar mál að halda áfram að bæta okkar leik og ná enn betri árangri. Við vitum hvað við þurfum að gera og vitum að við getum enn bætt okkar leik. Við hefðum t.d. átt að skora fleiri mörk í gær, það er kannski bara græðgi í mér, en þannig sjáum við það. Það er staðreynd að Shay Given átti stórleik í marki Newcastle, þrátt fyrir að fá á sig 5 mörk!"

,,Fólk talar um fullkominn leik af okkar hálfu, en við getum ekki leyft okkur að tala á þeim nótum. Okkar skylda er að greina hvað við hefðum getað gert enn betur."

Robbie Keane varð enn og aftur að gera sér að góðu að sitja á bekknum allan leikinn, þrátt fyrir að hafa skorað tvö mörk gegn Bolton á 2. í jólum. Lee segir að þannig séu hlutirnir bara.

,,Fótbolti er liðsíþrótt og við höfum oft verið gagnrýndir fyrir að velja liðið svona eða hinsegin, en Rafa hefur einfaldlega þennan háttinn á. Hann velur það lið sem hann telur henta best hverju sinni."

,,Þetta verður langt og strangt tímabil og við munum þurfa á öllum okkar leikmönnum að halda og þeir þurfa að sýna sínar bestu hliðar í hverjum einasta leik, þannig er prógrammið einfaldlega hjá okkur. Stundum ertu í liðinu, stundum ertu á bekknum - en þú verður alltaf að vera á tánum!", segir gamli harðjaxlinn!

Það vakti nokkra athygli að glæsitilþrifum Steven Gerrard, þegar hann skoraði fjórða mark Liverpool liðsins á 66. mínútu leiksins, var fagnað af fylgismönnum Newcastle í stúkunni.

Sammy Lee segir það til marks um ágæti stuðningsmanna Newcastle.

,,Þetta sýnir einlæga ástríðu þeirra og hversu mikla virðingu þeir bera fyrir leiknum. Ég held því fram að þeir séu næstbestu stuðningsmenn í landinu, á eftir okkar, og ég ber mikla virðingu fyrir þeim."

,,Steven Gerrard átti frábæran leik í gær, en hann er gott dæmi um það að það er alltaf hægt að gera betur. Hann trúir því og stefnir alltaf að því, enda verður hann betri og betri með hverjum leik. Það er það sem gerir hann að heimsklassaleikmanni."

Lee sá einnig ástæðu til að hrósa Lucas fyrir góða frammistöðu á miðjunni í gær.

,,Við höfum aldrei verið í vafa með hæfileika hans og getu og þessvegna kom frammistaða hans okkur ekki á óvart, en hún var engu síður mjög ánægjuleg."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan