| Birgir Jónsson

Getum ekki sóað fleiri tækifærum

Daniel Agger telur að Liverpool þurfi nauðsynlega að enduruppgötva marksækni sína til að halda áfram baráttunni á toppi deildarinnar.

Eftir bestu byrjun sína í meira en áratug, er Rauði herinn jafn Chelsea að stigum á toppi úrvalsdeildarinnar.

En þeir hafa þó á síðustu vikum lent í því að mörkin hafa reynst erfiðari í fæðingu en áður og töpuðu sínum fyrsta leik á leiktíðinni gegn Tottenham á White Hart Lane, eftir að hafa sóað mýmörgum marktækifærum.

Nú leitar Agger að jákvæðum viðbrögðum liðsins við þeirri staðreynd að þeir hafi aðeins náð að skora fimm mörk í síðustu fimm leikjum sínum.

"Ég held að ég geti ekki útskýrt tapið gegn Tottenham, en úrslitin voru vissulega ekki nógu góð", sagði hinn danski varnarmaður.

"Deildin er svo þétt og það eru svo margir leikir spilaðir á stuttum tíma að þú getur ekki verið að eyða tíma í að hugsa um mistökin sem þú hefur gert. Þú verður að halda áfram."

"En við verðum að hafa í huga að þú vinnur ekki leiki nema skora nógu mörg mörk"

"Við verðum að læra af öllu og ef við fáum urmul færa þá verðum við að nýta eins mörg þeirra og við getum", hélt Agger áfram.

"Gegn Tottenham var þetta ekki spurning um eitt eða tvö færi, þetta voru sjö eða átta, og þau féllu fyrir mismunandi leikmenn. Þetta var bara einn af þessum dögum."

Á þriðjudaginn var Agger sjálfur ábyrgur fyrir að misnota fjögur góð færi sem féllu fyrir hann í jafnteflinu gegn Atletico Madrid í Meistaradeildinni.

Hinn 23ja ára Dani er þekktur fyrir að vera harður við sjálfan sig og heldur því fram að vera nálægt því að skora sé ekki nóg.

"Að skapa þessi færi er augljóslega góðs viti, en á góðum degi hefði ég getað skorað þrjú, jafnvel fjögur mörk", sagði hann.

"Næstum því er ekki nógu gott."

Fernando Torres snýr sennilega aftur eftir meiðsli í kvöld gegn West Brom og er það líklegt til að auka sóknarkraft Rauðliða.

Spænski sóknarmaðurinn hefur verið frá í rúman mánuð eftir að hafa meiðst á aftanverðu læri í landsleikjahrotu.

Torres hefur nú náð sér nógu vel af meiðslunum til að vera valinn í hópinn fyrir heimsókn West Brom manna sem hafa verið í basli hingað til á leiktíðinni.

Benitez segir: "Ég tel að Torres verði orðinn heill. Hann er að æfa með liðinu. Við verðum að tala við hann aftur en ég held að hann verði orðinn góður."

"Það verður mjög gott fyrir liðið að fá hann aftur. Samkeppni er mjög mikilvæg, sérstaklega fyrir sóknarmennina."

"Við erum að spila mjög vel en við erum ekki að nýta færin"

"Vonandi er þetta rétti tíminn til að hann snúi aftur. Ef hann getur skorað mörg mörk, þá vona ég að hinir framherjarnir geri það sama."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan