Skytturnar skotnar í kaf!
Bikarmeistararnir kvittuðu fyrir eitthvað af óförum sínum gegn Skyttunum á þessari leiktíð með 4:1 stórsigri á Anfield Road í dag. Liverpool lék einn besta leik sinn á leiktíðinni og Arsenal átti ekki möguleika. Peter Crouch fór á kostum og skoraði þrennu. Sigurinn var sætur en hann var ekki síður mikilvægur því hann kom Liverpool upp fyrir Arsenal í þriðja sæti deildarinnar. Fyrir utan sigurinn þá var leikurinn merkilegur fyrir þær sakir að hann var sá fyrsti eftir að Geoerge Gillett og Tom Hicks eignuðust Liverpool Football Club formlega. Ekki amaleg byrjun á valdatíma þeirra í sólskininu á Anfield Road.
Rafael Benítez var greinilega búinn að úthugsa uppstillingu sína með hliðsjón af því hvaða menn hans höfðu leikið mest í landsleikjahrinunni. Af þeim sem voru í byrjunarliðinu höfðu aðeins Steven Gerrard, Jamie Carragher, Daniel Agger og Xabi Alonso spilað landsleiki í vikunni. Peter Crouch kom svo inn í byrjunarliðið eftir nefaðgerðina. Það var greinilegt að leikmönnum Liverpool var í fersku minni að þeir höfðu þrívegis tapað illa fyrir Arsenal á þessari leiktíð. Þeir hófu leikinn af miklum krafti og það bar árangur á 4. mínútu. Liðið sótti þá upp hægri kantinn. Jermaine Pennant og Alvaro Arbeloa spiluðu þá saman þríhyrning með hælspyrnum. Alvaro fékk boltann úr því samspili og sendi hann fast inn á vítateiginn. Á markteignum renndi Peter Crouch sér fram og sendi boltann í markið með öruggu skoti. Arsenal náði þokkalegum leikkafla í kjölfarið og eftir stundarfjórðung skallaði Emmanuel Adebayor rétt yfir eftir hornspyrnu. Fimm mínútum síðar varði Jens Lehmann vel þegar Peter klippti boltann yfir sig að markinu. Peter var aftur ágengur eftir um tuttugu og fimm mínútur þegar hann braust inn á teiginn hægra megin og skaut þaðan góðu skoti sem fór rétt framhjá. Arsenal fékk svo upplagt færi til að jafna eftir rúman hálftíma leik. Julio Baptista fékk þá boltann í góðu færi en fyrir miðju marki en skot hans frá vítateig fór langt framhjá. Arsenal var refsað á 35. mínútu. Xani Alonso tók þá snöggt aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Arsenal. Hann sendi út á vinstri kantinn á Fabio Aurelio. Brasilíumaðurinn gaf nákvæma sendingu fyrir markið beint á höfuðið á Peter Crouch sem skoraði með fallegum skalla algerlega óverjandi fyrir Jens í markinu. Liverpool hafði öll völd fram að hálfleik.
Steven Gerrard fékk gott færi snemma í síðari hálfleik en Jens náði að verja skot hans. Strax í næstu sókn átti Emmanuel Adebayor gott skot sem fór í stöngina á marki Liverpool. Rétt á eftir fór Steven af velli vegna meiðsla og kom Dirk Kuyt inn í hans stað. Á 58. mínútu var Peter Crouch næstum kominn einn í gegn inni á vítateig en varnarmaður Arsenal náði að bjarga á síðustu stundu. Tveimur mínútum seinna gerði Liverpool svo til út um leikinn. Liverpool fékk þá aukaspyrnu úti á hægri kanti. Fabio sendi fyrir markið á Daniel Agger sem stakk sér fram fyrir vörn Arsenal og sneiddi boltann með höfðinu í hornið fjær. Glæsilega gert hjá Dananum. Rétt á eftir var Arsenal nærri því að skora. Enn var Emmanuel ágengur. Hann skallaði að marki en Jose Reina varði hreint frábærlega. Hann teygði sig í boltann og sló hann í stöngina. Arsenal náði loks að skora á 73. mínútu. Liðið fékk hornspyrnu frá hægri. Boltinn barst fyrir markteiginn framhjá hverjum manninum á fætur öðrum til William Gallas sem kom boltanum yfir marklínuna af stuttu færi. Vörn Liverpool svaf þarna á verðinum í eina skiptið í leiknum. Markið kom Liverpool þó ekki úr jafnvægi og níu mínútum fyrir leikslok gulltryggði liðið sigurinn. Peter Crouch fékk boltann inn á vítateiginn frá Jermaine Pennant. Hann lagði þar boltann laglega fyrir sig, lék snilldarlega á Kolo Toure og þrumaði boltanum svo í markið. Þrenna hjá Peter Crouch og Liverpool komið í 4:1! Sigurinn hefði meira að segja getað verið enn stærri en Fabio skaut rétt framhjá undir lok leiksins. Sigurinn var sannarlega sætur eftir ófarir Liverpool gegn Arsenal fyrr á þessari leiktíð. Þessi sigur bætti töluvert fyrir þær og stuðningsmenn Liverpool fóru kátir heim á leið í góða veðrinu.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Aurelio, Pennant, Alonso, Mascherano (Riise 82. mín.), Gonzalez (Zenden 69. mín.), Gerrard (Kuyt 56. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Dudek og Fowler.
Gult spjald: Xabi Alonso.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (4., 35. og 81. mín.) og Daniel Agger (60. mín.).
Arsenal: Lehmann, Eboue (Hoyte 82. mín.), Toure, Gallas, Clichy, Hleb, Fabregas, Diaby (Rosicky 65. mín.), Denilson, Baptista (Ljungberg 65. mín.) og Adebayor. Ónotaðir varamenn: Almunia og Senderos.
Mark Arsenal: William Gallas (73. mín.).
Gul spjöld: Abou Diaby, Jens Lehmann og Cecs Fabregas.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.958.
Maður leiksins: Peter Crouch. Risinn var óstöðvandi og varnarmenn Arsenal réðu ekkert við hann. Peter skoraði sína fyrstu þrennu á ferlinum fyrir félagslið. Það gerði hann á glæsilegan hátt. Hann hefði meira að segja getað skorað fleiri mörk. Peter er nú búinn að skora sextán mörk á leiktíðinni.
Rafael Benítez var auðvitað ánægður með sína menn eftir þennan magnaða sigur á Arsenal. "Liðið lék mjög vel og okkur langaði til að gleðja stuðningsmenn okkar í dag. Það er mjög gott að skora fjögur mörk gegn einu af topp liðunum og við erum í harðri baráttu um þriðja sætið. Ég held að við höfum leikið betur en þetta á leiktíðinni en ég er mjög ánægður með liðið í dag."
-
| Sf. Gutt
Alisson meiddur -
| Sf. Gutt
Federico meiddur -
| Sf. Gutt
Arne Slot setur nýtt félagsmet! -
| Sf. Gutt
Hinsta ferð Ron Yeats -
| Sf. Gutt
Er ekkert að spá í stigatöfluna! -
| Sf. Gutt
Arne Slot setur nýtt félagsmet! -
| Sf. Gutt
Stóð sannarlega undir væntingum! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Stórsigur í Deildarbikarnum! -
| Sf. Gutt
Íslenskir heiðursgestir á Anfield!