| Grétar Magnússon

Erum á miklu skriði

Eftir góðan sigur á West Ham í gærkvöldi sagði Rafael Benítez að liðið væri á miklu skriði og hafa alla möguleika á því að minnka bilið á tvö efstu liðin, ef heldur fram sem horfir.

Tvö frábær mörk frá Dirk Kuyt og Peter Crouch í byrjun seinni hálfleiks tryggðu Liverpool 2-1 sigur á Upton Park í gærkveldi.  Liðið hefur nú unnið 9 af síðustu 10 leikjum í deildinni.  Með sigrinum komst Liverpool nær Chelsea en nú munar aðeins tveim stigum á liðunum.  Chelsea eiga þó leik til góða en þeir spila á heimavelli við Blackburn í kvöld.

Benítez sagði eftir leikinn í gær:  ,,Við erum að vinna marga leiki í röð, höldum okkar striki og það er lykillinn að því að halda okkur í baráttunni allt til loka tímabilsins."

,,Ég vil frekar vera undir svona pressu.  Það er augljóst að við getum ekki hugsað um kapphlaupið að titlinum í hverri viku og ég hef margoft sagt að eftir næstu þrjár vikur verðum við að sjá hvar við stöndum.  Ef við erum nær toppnum þá getum við farið að tala um að minnka bilið í efstu tvö liðin."

Benítez varaði leikmenn sína við því að sóa ekki sigrinum á Chelsea með því að tapa gegn West Ham.  Spánverjinn telur að nálægðin við Chelsea sé mjög hvetjandi fyrir leikmennina.

,,Það að vera svona nálægt Chelsea hjálpar leikmönnunum að einbeita sér að verkefninu.  Áður en við spiluðum við Chelsea var fólk að tala um að við gætum ekki unnið stóru liðin.  Nú höfum við unnið góðan sigur á toppliði, við vorum betri en þeir og við höfum haldið sigurgöngunni áfram.  Við höfum gæðin til að nálgast.  Ef leikmennirnir spila vel þá erum við með mjög gott lið."

Benítez sagði að fyrsta mark leiksins, sem kom eftir aðeins 12 sekúndur í seinni hálfleik, hafi verið vendipunktur leiksins.

Mark Kuyt gerði gæfumuninn, það að skora fyrst," sagði hann.  ,,Það gaf okkur meira sjálfstraust og West Ham þurftu að skora, við urðum aðeins stressaðir þegar West Ham skoruðu en tímasetningin á fyrsta marki okkar var frábær fyrir okkur.  Við skoruðum tvö góð mörk úr opnu spili.  Mér fannst seinna markið mjög gott, við náðum boltanum aftarlega á vellinum, færðum okkur fram, spiluðum á milli og Crouch kláraði færið mjög vel."

Peter Crouch fullkomnaði þar með afmælisdaginn sinn en hann varð 26 ára í gær, Benítez sagðist hinsvegar ekki hafa vitað að Crouch ætti afmæli og sagði:  ,,Þar sem það er aðeins einn dagur eftir af félagaskiptaglugganum þá hef ég verið að einbeita mér að öðrum hlutum !"

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan