| Sf. Gutt

Góður sigur gegn Hömrunum

Íslenskir stuðningsmenn Liverpool sáu ljós í myrkrinu, sem fylgdi tapi handboltalandsliðsins gegn Dönum, þegar Liverpool vann góðan sigur á West Ham United. Liverpool vann 2:1 sigur og afmælisbarnið skoraði sigurmarkið. Bikarmeistararnir þokuðust enn nær tveimur efstu liðunum.

Rafael Benítez stillti upp þremur mönnum í sókn og þriggja manna vörn eins í siðasta útileik gegn Watford. Leikmenn Liverpool byrjuðu leikinn vel og heimamenn komust ekkert áleiðis. Það var þó fátt um færi. Jamie Carragher komst líklega næst marki heimamanna með skoti snemma leiks. Þegar leið á hálfleikinn fóru leikmenn West Ham láta til sín taka. Eftir um hálftíma leik átti Marlon Harewood gott langskot sem fór rétt framhjá. Undir lok hálfleiksins var Jose Reina vel á verði þegar hann varði frá Yossi Benayoun.

Það var greinilega mikill kraftur í hálfleikshressingunni sem leikmenn Liverpool fengu því þeir náðu forystunni eftir aðeins tíu sekúndur í síðari hálfleik. Xabi Alonso fékk boltann eftir miðjuna og sendi hann upp að vítateignum á Peter Crouch. Peter lagði boltann fyrir Dirk Kuyt sem hamraði hann í þverslána og inn af hátt í þrjátíu metra færi. Stórkostlegt mark og sannkölluð óskabyrjun á hálfleiknum.

Ekki minnkaði gleði stuðningsmanna Liverpool sjö mínútum síðar. Liverpool átti þá frábæra sókn upp vinstri kantinn. Craig Bellamy sendi á John Arne Riise sem lagði boltann út á Peter. Afmælisbarnið hikaði hvergi og smellti boltanum upp í hægra hornið. Roy Carroll átti ekki minnstu möguleika frekar en í fyrra sinnið. Mögnuð byrjun á hálfleiknum og næstu mínútur réðu leikmenn Liverpool lögum og lofum. Bæði Steven Gerrard og Craig Bellamy áttu skot rétt framhjá. Á 63. mínútu varði svo Roy vel frá Dirk sem var kominn í gott færi inn á teiginn.

Heimamenn hresstust aðeins síðustu tuttugu mínúturnar og náðu að minnka muninn þrettán mínútum fyrir leikslok. Varamaðurinn Kepa Blanco skoraði þá úr teignum með sinni fyrstu snertingu eftir fyrirgjöf frá vinstri. Síðustu mínúturnar voru þrungnar spennu þegar heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin. Vörn Liverpool stóðst þó áhlaupin og mikilvægum sigri var landað. Liverpool er nú aðeins tveimur stigum á eftir ensku meisturunum. Sigurinn var því gríðarlega mikilvægur. 

West Ham United: Carroll, Spector, Dailly, Davenport, McCartney, Benayoun, Reo-Coker, Quashie, Boa Morte, Cole (Zamora 73. mín.) og Harewood (Kepa 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Green, Pantsil og Mullins.

Mark West Ham United: Kepa Blanco (77. mín.). 

Gult spjald: Nigel Reo-Coker.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Carragher, Bellamy (Gonzalez 85. mín.), Gerrard, Alonso, Riise, Kuyt (Fowler 90. mín.), Crouch (Pennant 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Zenden.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (46. mín.) og Peter Crouch (53. mín.).

Gult spjald: Xabi Alonso.

Áhorfendur á Upton Park:  34.966.

Maður leiksins: Peter Crouch. Peter hefur oft leikið betur en hann skoraði sigurmarkið í leiknum með glæsilegum hætti. Frábær afmælisgjöf sem hann verðskuldaði að fá. Að auki lagði hann boltann fyrir Dirk Kuyt þegar Hollendingurinn skoraði fyrra markið.

Rafael Benítez var mjög ánægður með þennan mikilvæga sigur. "Þetta var frábær sigur. Við náðum að halda sigurgöngunni áfram. Við verðum að halda okkar striki. Við skoruðum tvö glæsileg mörk og það seinna kom eftir virkilega góðan samleik. Það var mikilvægt að við skyldum skora fyrsta markið því við urðum svolítið taugaóstyrkir þegar þeir náðu að skora. Það er ekkert hægt að vera að tala um titilinn. Við þurfum að halda áfram að vinna. Ef við náum að halda sigurgöngunni áfram verður kannski hægt að velta einhverjum möguleikum fyrir sér eftir þrjár eða fjórar vikur. Við erum á góðu skriði og njótum þess."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan