| Sf. Gutt

Tommy Smith talar út

Tommy Smith fyrrum leikmaður Liverpool hefur aldrei legið á skoðunum sínum. Eftir martröðina gegn Arsenal settist hann niður og setti hugleiðingar sínar niður á blað fyrir staðarblaðið Echo. Hér er brot úr grein hans sem birtist í Echo í gær.

"Það hefur auðvitað valdið Rafael Benítez gremju að hann skuli ekki hafa haft úr meiri peningum að spila til að reyna að kaupa dýra leikmenn. En þetta skiptikerfi hans er bara rugl. Hann hefði átt að stilla upp sínu sterkasta liði því það lá fyrir að Skytturnar myndu stilla upp veikara liði. Þannig hefði Liverpool getað haldið sér inni í keppni sem liðið hefði getað unnið. Nú er bara Meistaradeildin eftir og það verður ekkert áhlaupaverk að fást við Barcelona.

Maður stendur og fellur með mistökum sínum og stjórinn á Anfield verður að axla ábyrgð fyrir útreiðinni sem liðið hans fékk. Jerzy Dudek, sem átti sök á tveimur mörkum á laugardaginn, átti aftur sök á minnsta kosti tveimur í gærkvöldi. Af hverju spilaði hann þennan leik? Það er ekki nógu góð afsökun að segja að hann hafi lofað markverðinum að spila í bikarleikjunum. Það bætti lítið úr skák þótt hann næði að vera vítaspyrnu. Aðrir leikmenn, eins og Gabriel Paletta, virtust ekki ráða við neitt því Skytturnar voru líklegar til að skora í hverri sókn. En þetta snerist ekki bara um úrslitin í leiknum. Þetta snerist líka um hvernig liðið tapaði.

Þetta var mjög skemmtilegur leikur. Frekar hefði ég vilja að hann hefði verið leiðinlegur og endað 0:0 og við hefðum svo unnið í vítaspyrnukeppni! Varalið Arsenal tók þá Rauðu í kennslustund í að spila boltanum, hreyfingu um völlinn og boltatækni. Strákarnir þeirra virtust miklu betri en okkar menn. Það hefur oft vakið gremju mína, í gegnum árin, að sjá menn eins og Luis Garcia missa boltann alltof auðveldlega. Hann var oft sekur um þetta áður en hann meiddist. Hann var þó ekki einn um þetta. Fjölmargar sendingar leikmanna Liverpool fóru út í loftið og það voru ekki bara ungu leikmennirnir sem voru sekir um slakar sendingar.

Það verður þó að hæla Steven Gerrard fyrir að leggja sig allan fram við að reyna að bjarga stoltinu þegar allt stefndi í tap. Hann fórnaði sér algerlega, hljóp út um allt, reyndi alltaf að senda hættulegar sendingar og skoraði glæsilegt mark. Því miður kom fátt annað jákvætt út úr leiknum í gærkvöldi. Meiðslin stráðu svo salti í sárin! Arsenal lék frábærlega. Liverpool var varla með. Það verður svo að vera ef þessi leikur markar vatnaskil fyrir suma leikmenn liðsins og þá hugmyndafræði sem Rafael hefur haft að leiðarljósi við að velja liðið. Eina leiðin til einhverrar velgengni felst nú í Meistaradeildinni. En hvaða áhrif munu atburðir síðustu fjögurra daga hafa á sjálfstraustið þegar til lengri tíma er litið?"

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan