| Sf. Gutt

Mikið undir í kvöld

Hvað svo sem menn segja um mikilvægi Deildarbikarsins þá er þetta þriðja mikilvægasta keppnin í ensku knattspyrnunni. Í kvöld leikur Liverpool við Arsenal á Anfield Road í átta liða úrslitum Deildarbikarsins og það er undanúrslitasæti í veði. Í ljósi úrslita leiks liðanna í F.A. bikarnum á þrettándanum verður að segjast að mikilvægi leiksins í kvöld hafi aukist. Það liggur að minnsta kosti fyrir að það er einni keppninni færra sem Liverpool getur unnið til verðlauna í.

Rafael Benítez segir að hann muni stilla liðinu upp öðruvísi en hann hugðist gera fyrir jólin þegar leik liðanna var frestað vegna þoku. Nú reiknar hann með að nota menn sem hann vildi gjarnan hvíla vegna þess að mikilvægir leikir eru framundan. "Það er áhætta í því fólgin við reiknum með að gera einhverjar breytingar á liðinu sem ég var upphaflega búinn að hugsa mér að nota. Maður verður á meta í hvernig standi menn eru líkamlega og spjalla við þá. Það liggur nú fyrir að það er mikilvægara en áður að við verðum áfram með í Deildarbikarnum."

Liverpool hefur oftast allra liða unnið Deildarbikarinn eða sjö sinnum og á glæsta sögu að baki í keppninni. Sem fyrr segir þá er sæti í undanúrslitum keppninnar í húfi í kvöld. Það verður leikið til þrautar og gripið til framlengingar og vítaspyrnukeppni ef á þarf að halda. Í undanúrslitum er svo leikið í tveimur leikjum heima og að heiman. Liðið sem vinnur Deildarbikarinn fær sæti í Evrópukeppni félagsliða.

Liðin hafa nokkrum sinnum leitt saman hesta sína í þessari keppni. Síðast mættust þau á þessu stigi keppninnar leiktíðina 1994/95. Liverpool vann þá 1:0 á Anfield Road með marki Ian Rush. Liðið fór alla leið í úrslit og vann keppnina eftir 2:1 sigur á Bolton Wanderes.

Eins og allir muna var leik liðanna, sem fara átti fram þriðjudaginn 19. desember frestað á síðustu stundu vegna þoku í Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan