| Sf. Gutt

Sigur á Þorlák

Liverpool lagði Watford á Þorlák og situr í þriðja sæti þegar jólin ganga í garð. Sigurinn var nokkuð harðsóttur en öruggur. Stuðningsmenn Liverpool geta því hlakkað til jóla eftir að hafa séð sína menn innbyrða þrjú stig.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Bestu marktilraun Liverpool átti Xabi Alonso en Ben Foster varði langskot hans í horn. Reyndar fékk Watford besta færi hálfleiksins. Jose Reina náði ekki að slá fyrirgjöf frá hægri almennilega frá markinu. Boltinn fór til Al Bangura en hann skaut yfir úr upplögðu færi. Jose sem enn hélt hreinu slapp þarna með skrekkinn.

Liverpool fékk óskabyrjun í síðari hálfleik þegar Craig Bellamy kom liðinu yfir eftir frábæra sendingu frá Steven Gerrard. Veilsverjinn skoraði af öryggi eftir að hann komst inn á teig fyrir miðju marki. Þrátt fyrir yfirburði Liverpool gáfust leikmenn Watford aldrei upp og þeir ógnuðu marki Liverpool nokkrum sinnum. Liverpool átti þó betri færi. Til dæmis varði Ben Foster hvað eftir annað vel. Aldrei þó eins vel og þegar hann sló fast skot frá Jamie Carragher, efftir hornspyrnu, yfir. Peter Crouch átti svo skot í stöng stuttu eftir að hann kom inn sem varamaður. Það var ekki fyrr en tveimur mínútum fyrir leikslok að Liverpool gulltryggði sigurinn. Xabi Alonso skoraði þá með glæsilegu skoti utan vítateigs eftir að Dirk Kuyt hafði lagt boltann fyrir hann. Stuðningsmenn Liverpool gátu því farið ánægðir heim að leggja lokahönd á jólaundirbúninginn.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant (Gonzalez 65. mín.), Gerrard, Alonso, Garcia, Bellamy (Crouch 82. mín.) og Kuyt (Aurelio 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Mörk Liverpool: Craig Bellamy (47. mín.) og Xabi Alonso (88. mín.).

Watford: Foster, Mariappa, DeMerit, Shittu, Stewart, Smith, Mahon, Bouazza, Bangura (Francis 82. mín.), Young og Henderson (McNamee 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Lee, Doyley og Priskin.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.807.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn var á ferðinni frá því leikurinn hófst og þar til hann fór af leikvelli. Yfirferð hans var með ólíkindum. Hann skoraði ekki en átti þátt í báðum mörkunum.

Rafael Benítez var ánægður með sigurinn og getur farið að hlakka til jólanna. "Við verðskulduðum að vinna en þetta var erfiður leikur. Við þurftum nauðsynlega á því að halda að skora annað mark til að tryggja stigin en það tók langan tíma að ná markinu."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan