| Sf. Gutt

Mikið undir í kvöld

Hvað svo sem menn segja um mikilvægi Deildarbikarsins þá er þetta þriðja mikilvægasta keppnin í ensku knattspyrnunni. Í kvöld leikur Liverpool við Arsenal á Anfield Road í átta liða úrslitum Deildarbikarsins og það er undanúrslitasæti í veði. Rafael Benítez ætlar sér að stilla upp sterku liði gegn Skyttunum.

"Við vitum að Arsenal hefur mjög góðu liði á að skipa sem spilar góða knattspyrnu. Þetta verður örugglega erfiður leikur en við erum að spila vel um þessar mundir og ég hef trú á liðinu. Kannski getum við haft einhverja unga leikmenn í liðshópnum en af því að þeir eru með gott lið þá ætla ég að tefla fram reyndu liði og við þurfum að fara varlega. Það má vera að Deildarbikarinn sé talinn í fjórða sæti hvað mikilvægi varðar af þeim keppnum sem við tökum þátt í en við viljum samt vinna hann."

Liverpool hefur oftast allra liða unnið Deildarbikarinn eða sjö sinnum og á glæsta sögu að baki í keppninni. Sem fyrr segir þá er sæti í undanúrslitum keppninnar í húfi í kvöld. Það verður leikið til þrautar og gripið til framlengingar og vítaspyrnukeppni ef á þarf að halda. Í undanúrslitum er svo leikið í tveimur leikjum heima og að heiman. Liðið sem vinnur Deildarbikarinn fær sæti í Evrópukeppni félagsliða.

Liðin hafa nokkrum sinnum leitt saman hesta sína í þessari keppni. Síðast mættust þau á þessu stigi keppninnar leiktíðina 1994/95. Liverpool vann þá 1:0 á Anfield Road með marki Ian Rush. Liðið fór alla leið í úrslit og vann keppnina eftir 2:1 sigur á Bolton Wanderes.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan