| Sf. Gutt

Fyrsta deildarmark Carra á 21. öldinni!

Það rigndi mikið í Liverpool í gær og mörkunum rigndi gegn Fulham þegar Liverpool vann 4:0. Meira að segja Jamie Carragher, sem skorar ekki mörg mörk fyrir Liverpool, skoraði! Í gær skoraði hann fjórða mark sitt fyrir Liverpool. Það sem meira var þetta var fyrsta deildarmark hans á 21. öldinni!

"Þetta er fyrsta markið mitt í Úrvalsdeildinni á þessari öld. Ef satt skal segja þá er það nú svolítið vandræðalegt að segja frá því! Ég vona að ég þurfi ekki að bíða svona lengi eftir því næsta! Það mikilvægasta í dag var að vinna leikinn. Það var rjóminn ofan á kökuna að það skyldi takast og að mér skyldi takast að skora. Ég fer oftar fram þegar við fáum hornspyrnur nú til dags og vonandi næ ég að koma boltanum oftar í markið í framtíðinni."

Jamie Carragher lék í gær sinn 441. leik með Liverpool og þetta var fjórða mark hans fyrir félagið. Sem fyrr segir var þetta fyrsta deildarmark hans á 21. öldinni. Síðasta deildarmark hans kom þann 16. janúar 1999 þegar Liverpool vann Southampton 7:1 á Anfield Road. Jamie er nú reyndar að fara fram í markaskorun því hann skoraði líka á síðustu leiktíð! Það gerði hann gegn Kaunas í forkeppni Meistaradeildarinnar þegar Liverpool vann 3:1 sigur í Litháen. Þá hafði hann reyndar ekki skorað frá því á síðustu öld gegn Southampton!

Jamie byrjaði vel í markaskorun því hann skoraði í fyrsta byrjunarliðsleik sínum þegar Liverpool vann Aston Villa 3:0 þann 18. janúar 1997. Jamie skoraði þá með skalla fyrir framan The Kop. Það var þriðji leikur hans með Liverpool. Jamie var þá sem sagt búinn að skora eitt mark í þremur leikjum!

 TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan