| Sf. Gutt

Grátlegt jafntefli

Það gekk hvorki né rak hjá Liverpool á Anfield Road gegn Portsmouth í kvöld. Algerir yfirburðir Liverpool dugðu ekki til að að knýja fram sigur í einum daufasta leik leiktíðarinnar. Liverpool náði ekki að færa sér ófarir liðanna fyrir ofan í nyt. Liðið færðist upp um tvö sæti og er í það nú í sjöunda sæti. Sigur hefði skilað liðinu upp í þriðja sæti og það var grátlegt að það skyldi ekki takast að ná því. Liverpool fór þó upp yfir Everton!

Leikurinn byrjaði nokkuð vel. Liverpool tók strax öll völd og gestirnir lögðust í vörn. Þeir hugsuðu sér greinilega að reyna að ná einu stigi. Jamie Carragher, sem lék á miðjunni með Steven Gerrard, kom sér í góða skotstöðu og átti gott skot framhjá á annarri mínútu. Um tíu mínútum seinna flaug fallegt skot frá Sami Hyypia rétt yfir mark Portsmouth. Enn liðu um tíu mínútur og þá skaut Steven rétt yfir úr aukaspyrnu. Hann skaut svo rétt framhjá á 35. mínútu. Besta færi Liverpool kom svo þegar líða tók að leikhléi. Steve Finnan sendi fyrir og Luis Garcia átti góðan skalla sem fór í hliðarnetið. Jose Reina hefði getað verið heima hjá sér í fyrri hálfleik.

Liverpool lék á köflum vel í fyrri hálfleik en því miður þá lék liðið ekki eins vel í síðari hálfleik. Snemma í hálfleiknum var þó mikill atgangur inni á teig eftir að fyrirgjöf Steven Gerrard skapaði usla. David James sló boltann frá og varði svo vel þegar Luis Garcia reyndi að koma frákastinu í markið. Leikmenn Portsmouth léku vörnina vel, töfðu eins og þeir gátu og á sama tíma gekk ekkert hjá Liverpool. Robbie Fowler kom inn og svo Marokkómaðurinn Nabil El-Zhar, sem lék sinn fyrsta leik, en þeir náðu ekki að ógna markinu frekar en aðrir. Látlaus sókn Liverpool dugði ekki og það sem verra var leikmenn liðsins náðu ekki að skapa sér nein góð færi. Það olli líka vonbrigðum að leikmenn Liverpool skyldu ekki setja meiri pressu á markið fyrr en undir lokin. Steven var þó nærri því að ná sigurmarkinu í blálokin þegar hann henti sér fram og skallaði að marki en boltinn fór í hliðarnetið. Sókn Liverpool var þung undir lokin en allt kom fyrir ekki.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Riise, Pennant (Guthrie 84. mín.), Gerrard, Carragher, Garcia (El Zhar 72. mín.), Crouch (Fowler 61. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek og Paletta.

Gul spjöld: Jamie Carragher og Jermaine Pennant.

Portsmouth: James, Pamarot, Primus, Campbell, Taylor, Thompson, Pedro Mendes (Fernandes 69. mín.), O´Neil, Hughes, Kranjcar (O´Brien 90. mín.) og Mwaruwari (Kanu 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Ashdown og Koroman.

Gul spjöld: Richard Hughes, David Thompson og Noe Pamarot.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.467.

Maður leiksins: Jamie Carragher. Harðjaxlinn var settur inn á miðjuna og stóð sig vel. Það er langt um liðið frá því Jamie hefur leikið þar en hann skilaði sínu vel.  

Rafael Benítez var auðvitað vonsvikinn eftir leikinn. "Maður er auðvitað vonsvikinn þegar menn leggja svona hart að sér án þess að ná að skora. Það er ekki hægt að gagnrýna leikmennina því þeir reyndu hvað þeir gátu. Við reyndum að fara rétt að en það var oft erfitt því þeir töfðu leikinn og það er erfitt að fást við það þegar dómarinn gerir ekkert í því."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan