| Grétar Magnússon

Mikil vonbrigði

Vonsvikinn Rafael Benitez skorar á leikmenn félagsins að sýna smá karakter eftir að hann viðurkenndi að Liverpool hefðu ekki verið nægjanlega góðir eftir niðurlægjandi 3-0 tap gegn Arsenal á sunnudaginn.

Mörk frá Mathieu Flamini, Kolo Toure og William Gallas leiddu til fimmta ósigurs Liverpool á útivelli og liðið er nú 14 stigum á eftir Manchester United sem sitja á toppnum.

Tapið stöðvaði fimm leikja sigurgöngu og liðið hefur ekki skorað í 486 mínútur á útivelli í deildinni eftir að Robbie Fowler skoraði úr vítaspyrnu gegn Sheffield United á fyrsta degi tímabilsins.

Benitez hafði þetta að segja um útivallarformið:  ,,Það er nokkuð ljóst að þetta er ekki nógu gott.  Við vitum að við þurfum að bæta okkur.  Við verðum að sýna karakter og sýna hversu góðir við erum."

,,Ég er með nokkrar hugmyndir en ég þarf að vinna með leikmönnunum fyrir næsta leik.  Ég sá tvo mismunandi leiki á sunnudaginn.  Í fyrri hálfleik var liðið gott og við sköpuðum færi, við vorum inní leiknum og vorum að vinna boltann, taktíkin var í lagi."

,,Við fengum á okkur mark í lok fyrri hálfleiks og snemma í síðari hálfleik og það skipti sköpum.  Við lékum ekki vel í seinni hálfleik.  Við fengum á okkur mörk vegna mistaka sem maður gerir ekki venjulega."

,,Ég er ekki að leita að afsökunum.  Það er greinilegt að við þurfum að bæta okkur, og við þurfum að finna fljótt lausn á því hvernig við gerum það.  Ég er ekki að tala um einstaka leikmenn, við þurfum að bæta okkur sem lið á útivelli."

Aðeins einn sigur hefur náðst gegn Arsenal í síðustu 10 leikjum og Benitez trúir því að mark Kolo Toure hafi skipt sköpum í leiknum.

,,Annað markið var lykilmark.  Það voru vonbrigði að fá á sig fyrsta markið og við gátum talað saman í hálfleik en við fengum á okkur mark snemma í síðari hálfleik.  Við töpuðum sjálfstraustinu gegn mjög góðu liði með marga góða leikmenn og ef maður skilur eftir pláss þá sækja þeir á mann með skyndisóknum."

Eftir að hafa tapað fyrir Everton, Manchester United, Bolton, Chelsea og núna Arsenal er Benitez vongóður um að erfiðustu leikirnir séu að baki.

,,Núna förum við kannski að spila gegn liðum sem eru ekki í sama gæðaflokki."  Við þurfum að fara að vinna leiki til að finna rétta taktinn og sjá hvort við förum ekki að bæta okkur.  Við höfum spilað mjög góða leiki á heimavelli á þessu tímabili en við erum ekki að spila eins og við getum best á útivöllum."

,,Við verðum að skora fyrst en við erum að fá á okkur mark fyrst og þá getum við ekki skorað mörk til að vinna leikina.  Við verðum að fara að spila eins á útivöllum og við gerum á heimavelli, ef okkur tekst það þá fáum við meira sjálfstraust."

,,Við verðum hinsvegar að hætta að tala um hlutina og fara að láta þá gerast í staðinn."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan