| Sf. Gutt

Besti leikur leiktíðarinnar og sannfærandi sigur!

Bikarmeistararnir léku sinn besta leik á leiktíðinni og unnu öruggan sigur á áður ósigruðu liði Aston Villa á Anfield Road í dag. Frábær leikkafli Liverpool í fyrri hálfleik gerði útslagið og á þeim tíma gerði liðið út um leikinn. Liverpool lék á köflum frábærlega og liðið svaraði sannarlega þeirri gagrýni sem hefur dunið á því að undanförnu. Það voru töluverð batamerki á liðinu og vonandi haldast þau. Annað dugar ekki!

Rafael Benítez hefur mátt þola gagnrýni úr ýmsum áttum í vikunni. En stuðningsmenn Liverpool sýndu að þeir standa þétt að baki hans fyrir leikinn. Spánverjanum var gríðarlega vel fagnað þegar hann tók sæti sitt á varamannabekknum. Leikmenn Liverpool tóku strax frumkvæðið í leiknum en það mátti þó greina taugaóstyrk á mönnum. Dirk Kuyt fékk fyrsta hættulega færið en skot hans var misheppnað. John Arne Riise ógnaði næst tvívegis með föstum langskotum sem fóru yfir. Það seinna sem var eftir aukaspyrnu var mun nærri lagi en hið fyrra. Yfirburðir Liverpool jukust jafnt og þétt og á 31. mínútu skiluðu þeir marki. Jamie Carragher sendi langa sendingu fram á vítateig Aston Villa. Þar var staddur Sami Hyypia sem skallaði boltann niður frá hægri beint til Dirk Kuyt. Hollendingurinn lagði boltann vel fyrir sig og sendi hann svo með nákvæmu skoti neðst í hornð fjær. Dirk fagnaði markinu innilega og það hafði mikla þýðingu fyrir hann því faðir hans var staddur í fyrsta sinn á Anfield Road til að horfa á son sinn. Hann er nýbúinn að ganga í gegnum mikla krabbameinsaðgerð. Sjö mínútum seinna lá boltinn aftur í marki Villa. Steve Finnan tók góða rispu fram hægri kantinn og sendi fyrir markið. Peter Crouch tók við fyrirgjöfinni og sendi boltann viðstöðulaust í mark alveg út við stöng óverjandi fyrir Danann Thomas Sörensen. Þetta var mjög vel gert hjá Peter sem var aðþrengdur og það var sannarlega ekki auðvelt á ná þessu skoti. Mínútu fyrir leikhlé kom þriðja markið og það var stórglæsilegt. Leikmenn Liverpool léku saman upp völlinn og boltinn gekk manna á milli til vinstri fyrir utan vítateignn. Peter átti síðustu sendinguna inn á Luis Garcia sem slapp inn á teiginn og skoraði örugglega með nákvæmu skoti. Frábær endir á hálfleiknum.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af sama krafti. Það skall hurð nærri hælum við mark Villa nokkrum sinnum en þó aldrei eins og þegar Steven Gerrard fékk boltann á fjærstöng eftir þunga sókn en skot hans úr þröngri stöðu fór í stöng og framhjá. Gestirnir höfðu greinilega fengið yfirhalningu í leikhléinu og hófu nú að láta á sér kræla. Báðum sóknarmönnunum þeim Juan Pablo Angel og afmælisbarninu Milan Baros var skipt út af í leikhléi. Þeir félagar sáust ekki í fyrri hálfleik. Chris Sutton, annar varamaðurinn sem kom til leiks, lagði upp mark á 56. mínútu. Hann sendi þá góða senginu inn fyrir vörn Liverpool á hinn unga og efnilega Gabriel Agbonlahor sem slapp í gegn og skoraði með öruggu skoti framhjá Jose Reina. Liverpool svaraði með kröftugum sóknum og Luis Garcia hefði átt að skora þegar hann slapp inn á teiginn vinstra megin. Hann tók frábærlega við boltanum en skot hans fór framhjá. Leikmenn Aston Villa börðust nú vel og tuttugu mínútum fyrir leikslok mátti litlu muna að þeir minnkuðu muninn en meir. Jose var hins vegar vel á verði og varði fastan skalla Chris Sutton í horn. Sigri Liverpool var ekki frekar ógnað. Robbie Fowler hefði getað skorað undir lokin en skot hans af stuttu færi strauk stöngina og fór framhjá. En þetta var sigur sem var sannarlega kærkominn!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard (Fowler 81. mín.), Alonso, Sissoko, Garcia (Zenden 77. mín.), Kuyt og Crouch (Pennant 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin og Agger.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (31. mín.), Peter Crouch (38. mín.) og Sanz Luis Garcia (44. mín.).

Aston Villa: Sorensen, Hughes, Mellberg, Ridgewell, Bouma, Agbonlahor, Petrov, Osbourne (Davis 74. mín.), Barry, Angel (Sutton 46. mín.) og Baros (Agathe 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Taylor og Laursen.

Mark Aston Villa: Gabriel Agbonlahor (56. mín.).

Gult spjald: Olav Mellberg.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.117. 

Maður leiksins: Steven Gerrard. Það hefur mikið legið á fyrirliðanum að undanförnu en hann lék sinn besta leik í langan tíma. Hann fór um víðan völl og tók kraftmiklar rispur. Það mátti sjá mikil batamerki á Steven og hann fékk mikinn stuðnings frá áhorfendum. 

Rafael Benítez var hæstánægður með sína menn eftir þennan góða sigur. "Eftir tapið í síðustu viku vildu leikmennirnir sýna fólki hversu góðir þeir eru og að þeir geta spilað góða knattspyrnu. Þetta gerðu þeir í dag. Það var frábært að sjá okkur spila góða knattspyrnu og skora þrjú falleg mörk. Við spiluðum mjög hratt frá upphafi. Það var gott jafnvægi í liðinu og við héldum áfram að sækja allan leikinn og skapa okkur marktækifæri."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan