| Sf. Gutt

Sigur í afmælisveislunni!

Leikmenn Liverpool fögnuðu aldarafmæli The Kop með tilhlýðilegum hætti í dag. Það gerðu þeir með því að leggja West Ham United 2:1 að velli um hádegisbilið. Gestirnir komust yfir bikarmeistararnir náðu að snúa leiknum sér í hag með tveimur mörkum á þremur mínútum. Í tilefni dagsins voru bæði mörk Liverpool að sjálfsögðu skoruð fyrir framan The Kop!

Fyrirliði West Ham United vann hlutkestið og lét leikmenn Liverpool sækja í átt að The Kop í fyrri hálfleik. Að sjálfsögðu var því mótmælt af The Kop með viðeigandi hætti!. Liverpool byrjaði leikinnn af krafti og Peter Crouch vildi fá vítaspyrnu þegar rifið var í hann inni í vítateig. Rétt á eftir komst Luis Garcia í gott færi en hann hitti boltann ekki vel og skot hans fór framhjá. Enn slapp mark Hamrana þegar Fabio Aurelio tók aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Paul Konchesky bjargaði málunum með því að skalla boltann frá á marklínu. En það voru Hamrarnir sem komust yfir þvert á gang leiksins. Bobby Zamora fékk þá boltann úti á vinstri kanti á móts við vítateig Liverpool. Hann hugðist senda boltann fyrir markið en sendingin endaði í marki Liverpool. Jose Reina reiknaði greinilega með fyrirgjöf og var kominn svolítið út í teiginn. Hann náði að vísu að snerta boltann en ekki nema til að hjálpa honum í markið. Markið minnti nokkuð á hið ótrúlega mark sem Paul Konchesky skoraði gegn Liverpool í bikarúrslitaleiknum í Cardiff í vor. Mínútu seinna komst Marlon Harewood í opið færi inni í teignum en skaut framhjá. Gestirnir höfðu nú byr í seglin eftir markið og fóru líklega að gæla við að ná hefnd gegn Liverpool fyrir tapið í bikarúrslitunum. En líkt og í Cardiff í vor þá sneri Liverpool leiknum sér í hag. Það var þó ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem Liverpool fór að þyngja sóknina. Mörg falleg mörk hafa verið skoruð fyrir framan The Kop á þeirri öld sem þessi frægu áhorfendastæði hafa alið aldur sinn. Eitt bættist í hóp þeirra fallegustu á 42. mínútu. Daninn Daniel Agger fékk þá boltanum rétt inni á vallarhelmingi West Ham. Hann tók á rás með boltann og þegar hann var hátt í 30 metra frá marki hamraði hann boltann að markinu með vinstri fæti. Boltinn þeyttist að markinu og tæpu augnabliki síðar hafnaði hann í netinu úti við stöng rétt fyrir neðan vinkilinn. Allt sprakk af fögnuði! Þvílíkt mark! Þetta er einfaldlega eitt fallegasta mark sem hefur verið skorað í sögu Anfield Road! Flóknara er það nú ekki! Upprifnir eftir þetta stórkostlega mark tóku leikmenn Liverpool að þjarma að gestunum. Það bar þann árangur að þremur mínútum seinna lá boltinn aftur í marki þeirra. Luis Garcia fékk þá boltann rétt utan teigs frá Steven Gerrard. Hann lék meðfram teignum og þræddi svo hnitmiðaða sendingu inn á teiginn. Peter Crouch fékk sendinguna. Hann náði að leika framhjá Roy Carroll og koma boltanum framhjá tveimur varnarmönnum úr þröngri stöðu. Frábær afgreiðsla hjá risanum og markinu var vel fagnað innan vallar sem innan. Litlu síðar var flautað til hálfleiks og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu snöggum viðsnúningi sinna manna!

Liverpool var sterkari aðilinn framan af síðari hálfleik. Ekki minnkaði fjör heimamanna þegar Hollendingurinn Dirk Kuyt skipti við risann á 52. mínútu. Frumraun hans lofar sannarlega góðu. Hann skaut að marki, utan teigs, strax í annari snertingu sinni eftir að hafa lagt boltann fyrir sig í þeirri fyrstu. Skot hans fór rétt framhjá. Það sem eftir lifði leiks stafaði sífelld ógn af honum. Á 67. mínútu skoraði Craig Bellamy eftir að hafa sloppið í gegnum vörnina. Markið var dæmt af vegna rangstöðu og var það rangur dómur af mínu mati. Tólf mínútum fyrir leikslok varði Roy naumlega skot frá Dirk sem aftur reyndi fyrir sér utan vítateigs. Leikurinn var mjög hraður og bæði lið notuðu hvert tækifæri til að bæta við mörkum. Gestirnir gáfust þó aldrei upp og tíu mínútum fyrir leikslok fékk Lee Bowyer dauðafæri. Boltinn barst til hans þvert fyrir markið en skot hans hans úr upplögðu færi strauk stöngina framhjá. Aftur fengu gestirnir færi en Jose lokaði á vel á Carlton Cole og varði. En afmælissigurinn var sanngjarn og honum var vel fagnað í leikslok! Aftur máttu leikmenn West Ham þola að Liverpool sneri leik gegn þeim sér í hag. Það var ekki bikar í verðlaun í dag eins og í vor en stigin þrjú voru vel þegin!

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Aurelio, Pennant (Zenden 82. mín.), Alonso, Gerrard, Garcia (Gonzalez 60. mín.), Bellamy og Crouch (Kuyt 52. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Kromkamp.

Mörk Liverpool: Daniel Agger (42. mín.) og Peter Crouch (45. mín.).

Gult spjald: Fabio Aurelio.

West Ham United: Carroll, Paintsil, Ferdinand, Gabbidon, Konchesky (Mears 81. mín.), Bowyer, Mullins, Reo-Coker (Sheringham 82. mín.), Benayoun, Zamora og Harewood (Cole 73. mín). Ónotaðir varamenn: Walker og Collins.

Mark West Ham United: Bobby Zamora (12. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 43.965.

Maður leiksins: Daniel Agger. Daninn lék sinn besta leik með Liverpool. Hann var sterkur í vörninni og skoraði svo eitt fallegasta mark sem hefur verið skorað á Anfield Road. Markið var það fallegt að það hefði verið hægt að velja hann besta manninn á vellinum fyrir það eitt og sér! 

Rafael Benítez var auðvitað ánægður með afmælisgjöfina sem The Kop fékk. ,,Mér fannst leikurinn reynast okkur erfiður en við erum ánægðir með stigin þrjú. Við skoruðum tvö frábær mörk en í síðari hálfleik vorum við svolítið óstyrkir því við náðum ekki að nýta færin okkar til að klára leikinn. Mér fannst við byrja vel en svo vorum við allt í einu marki undir. En við sýndum góðan skapstyrk með því að komast 2:1 yfir."

Sem fyrr segir var haldið upp á aldarafmæli The Kop í dag. Afmælisbarnið minnti á aldur sinn fyrir leik með afmæliskorti sem það myndaði sjálft. Forskriftin gekk þó ekki eftir þegar fyrirliði West Ham lét leikmenn Liverpool sækja í átt að The Kop í fyrri hálfleik. Það kom þó ekki í veg fyrir að Liverpool næði sigri. Það var sérlega vel viðeigandi að mörkin tvö sem færðu Liverpool sigur skyldu vera skoruð fyrir framan sjálft afmælisbarnið!

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan