| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Nákvæmlega þremur mánuðum eftir að Liverpool vann F.A. bikarinn í Cardiff sneri liðið aftur til höfuðborgar Wales. Þaðan var haldið heim með sigurlaun í sjötta sinn í átta heimsóknum. Liverpool vann yfirráðarétt yfir Góðgerðarskildinum í fimmtánda sinn!

+ Fyrst var keppt um Góðgerðarskjöldinn árið 1908.

+ Þetta var 83. leikurinn um Skjöldinn ef ég hef rétt talið.

+ Mismunandi reglur voru framan af árum um hvaða lið fengu þátttökurétt í leiknum. Til dæmis léku lið atvinnumanna gegn áhugamönnum í nokkur ár. Áhugamönnum vegnaði ekki vel í þessum leikjum! Oftast voru þó Englandsmeistarar hvers árs annað liðið sem boðið var þátttaka.

+ Síðasta aldarfjórðunginn og rúmlega það hafa Englandsmeistarar og F.A. bikarmeistararnir jafnan leikið saman. Undantekning á þessu er þegar lið vinnur tvöfalt. Þegar svo ber undir leika tvöfaldir meistarar jafnan gegn því liði sem hafnaði í öðru sæti í deildinni.

+ Liverpool lék fyrst um Góðgerðarskjöldinn árið 1922.

+ Bruce Grobbelaar hefur leikið flesta leiki um Góðgerðarskjöldinn af leikmönnum Liverpool eða átta talsins.

+ Þeir Ian Rush og Terry McDermott hafa skorað flest mörk Liverpool í leikjum um Góðgerðarskjöldinn þrjú talsins.

+ Liverpool vann Skjaldarleik í tíunda sinn og náði yfirráðarétti yfir Skildinum í fimmtánda sinn.

+ Liverpool hefur unnið Skjöldinn árin 1966, 1974, 1976, 1979, 1980, 1982, 1988, 1989, 2001 og 2006. Félagið vistaði svo gripinn í hálf ár árin 1964, 1965, 1977, 1986 og 1990 eftir jafntefli.

+ Liverpool hefur tapað leik um Skjöldinn sex sinnum, 1922, 1971, 1983, 1984, 1992 og 2002.

+ Þetta var fyrsti leikur Liverpool og Chelsea um Skjöldinn.

+ Chelsea lék sinn sjötta leik um Skjöldinn. Þrisvar sinnum, 1955, 2000 og 2005, hefur liðið unnið sér yfirráðarétt yfir gripnum og þrívegis, 1970, 1997 og 2006, hefur það tapað.

+ Þetta var áttundi leikur Liverpool á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff á og hefur leikvangurinn reynst ákaflega vel. Liverpool hefur unnið F.A. bikarinn, 2001 og 2006, Deildarbikarinn, 2001 og 2003 og svo auðvitað Samfélagsskjöldinn 2001 og 2006.

+ Þetta var ellefta rimma Liverpool og Chelsea á síðustu þremur leiktíðum. Liðin hafa, í þessum rimmum, leikið saman í öllum keppnum á Englandi auk leikja í Meistaradeildinni.

+ Alls borguðu 56.275 áhorfendur sig inn á Árþúsundaleikvanginn í Cardiff. Leikvangurinn tekur Áhorfendur. Liverpool seldi alla þá 24.000 miða sem félagið fékk úthlutað en Chelsea seldi ekki nema 16.000. Það er næsta víst að Liverpool hefði getað selt alla þá miða sem Chelsea sledi ekki. Reyndar sá ég nokkra stuðningsmenn Liverpool fagna í stæðunum þar sem stuðningsmenn Chelsea áttu að vera. Það er ekki að spyrja að stuðningsmönnum Liverpool!

+ Lokamínúturnar voru frábærar. Sólin braust fram úr skýjunum og stuðningsmenn Liverpool sungu sigursöngva sína fullum hálsi!

+ Þeir Jamie Carragher og John Arne Riise urðu Skaldarhafar í annað sinn en þeir voru í sigurliði Liverpool árið 2001. Það var Sami Hyypia líka en hann lék ekki gegn Chelsea. Hann sat á bekknum en fékk samt verðlaunapening.

+ Jermaine Pennant varð líka Skjaldarhafi í annað sinn en hann vann Skjöldinn með Arsenal árið 2004.

+ Níu af leikmenn Liverpool urðu bikarmeistarar í vor.

+ Þeir Jermaine Pennant, Mark Gonzalez, Craig Bellamy, Daniel Agger og Fabio Aurelio unnu sína fyrstu verðlaunapeninga hjá Liverpool.

+ Fabio náði því að vinna verðlaunapening í sínum fyrsta leik með Liverpool!

+ Hann varð líka fyrstur Brasilíumanna til að leika fyrir hönd Liverpool.

+ Jamie Carragher vann sinn tíunda titil á ferli sínum með Liverpool!

+ Jamie Carragher leiddi Liverpool í annað sinn í úrslitaleik. Hann var fyrirliði Liverpool í leiknum um Stórbikar Evrópu í fyrra og tók við bikarnum eftir 3:1 sigur Liverpool á CSKA Moskva. Þeir fóstbræður Jamie og Steven Gerrard tóku við Skildinum eftir leikinn.

Liverpool: Reina, Finnan, Agger, Carragher, Riise, Pennant (Gerrard 60. mín.), Sissoko, Zenden (Alonso 60. mín.), Gonzalez (Aurelio 56. mín.), Crouch (Pongolle 89. mín.) og Garcia (Bellamy 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Mörk Liverpool: John Arne Riise (9. mín.) og Peter Crouch (80. mín.).

Gult spjald: Xabi Alonso.

Chelsea: Cudicini, Ferreira (Mikel 81. mín.), Terry, Carvalho, Essien, Geremi (Bridge 53. mín.), Ballack (Kalou 26. mín.), Lampard, Shevchenko, Drogba (Wright-Phillips 71. mín.) og Robben (Diarra 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Hilario og Mancienne.

Mark Chelsea: Andriy Shevchenko (43. mín.). 

Gul spjöld: Ballack, Lampard og Diarra.

Áhorfendur á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff: 56.275.

Maður leiksins: Mohamed Sissoko fór hamförum á miðjunni hjá Liverpool. Hann var allan tímann á fulli úti um allan völl og átti fjölmargar magnaðar tæklingar. Hinir sterku miðjumenn Chelsea réðu á köflum ekkert við hann. Þessi efnilegi strákur frá Malí sýndi, eins og svo oft áður, að hann er einn efnilegasti miðjumaður í heimi.

Jákvætt: Það var frábært að leggja Chelsea að velli og vinna titil í kaupbæti. Sumir stuðningsmenn Liverpool höfðu efasemdir þegar þeir sáu að þeir Steven Gerrard, Xabi Alonso, Sami Hyypi og Craig Bellamy voru á bekknum þegar leikurinn hófst. En allir leikmenn Liverpool lögðu sig fram og sigurinn sýndi þá auknu breidd sem er kominn í leikmannahópinn hjá Liverpool. Allir leikmenn Liverpool léku vel og lögðu sitt af mörkum. John Arne Riise skoraði eitt fallegasta mark sem hefur verið skorað í Skjaldarleik. Leikmenn Liverpool gáfust ekki upp þótt Chelsea næði að jafna og Peter tryggði sigurinn. Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir og sýndu stuðning sinn í verki með því að kaupa alla þá miða sem félagið fékk. Það er annað en hægt er að segja um stuðningsmenn Chelsea. Cardiff, frábær sigur, frábærir stuðningsmenn og frábær dagur!

Neikvætt: Ekki nokkur hlutur. Hvernig ætti það að vera? Enn einu sinni frábær dagur í Cardiff!

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikmenn Liverpool hófu leikinn mun betur en Chelsea og bikarmeistararnir náðu forystu á 9. mínútu. Upphafið var að Chelsea fékk hornspyrnu. Frank Lampard sendi fyrir markið frá vinstri. Steve Finnan skallaði frá og boltinn barst út fyrir vítateiginn hægra megin. Þar náði John Arne Riise boltanum og tók á rás. Hann lék sem leið lá upp að vítateig Chelsea. Hann skaut svo snöggu og föstu skorti að marki af um 25 metra færi og boltinn lá í netinu. Carlo Cudicini hafði hendur á boltanum og hefði átt að verja. En leikmenn og stuðningsmönnum Liverpool var rétt sama því þetta glæsilega mark færði Liverpool undirtökin. Mótlætið fór í skapið á leikmönnum Chelsea og þeir Michael Ballack og Frank Lampard voru bókaðir fyrir slæmar tæklingar. Reyndar var Þjóðverjinn bókaður áður en Liverpool komst yfir. Hann meiddist svo um miðjan hálfleikinn og varð að fara af leikvelli. Þótt Liverpool hefði undirtökin þá var Andriy Shevchenko alltaf ógnandi í framlínu Chelsea og Jose Reina mátti hafa sig allan við að verja skot hans utan vítateigs. Hann hélt ekki boltanum en náði honum aftur. Stuttu fyrir hálfleik átti Luis Garcia skot af stuttu færi eftir snarpa sókn sem Carlo Cudicini, aðþrengdur af Peter Crouch náði að slá yfir. Chlesea færði sér þetta í nyt mínútu síðar á 43. mínútu. Frank Lampard sendi þá frábæra sendingu á Andriy. Varnarmenn Liverpool höfðu gleymt honum og Úkraínumaðurinn slapp einn upp að teignum. Hann skoraði af miklu öryggi framhjá Jose sem kom út á móti honum. Markið kom frekar gegn gangi leiksins en Andriy sýndi þarna hversu magnaður hann er. Það var því jafnt er liðin gegnu til leikhlés.

Englandsmeistararnir byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og léku töluvert betur en fyrir leikhlé. Jose Reina varð tvívegis að taka á honum stóra sínum með stuttu millibili. Fyrst sló hann boltann yfir markið eftir skot frá Ditier Drogba. Eftir hornspyrnuna sem fylgdi í kjölfarið varði hann skalla frá Andriy í horn. Rafael Benítez hafði greinilega áhyggjur af gangi mála og skipti þeim Steven og Xabi inn á eftir klukkutíma leik. Þetta voru vel heppnaðar skipingar því bikarmeistararnir náðu aftur yfirhöndinni í kjölfar þeirra. Það var mikill barátta á lokakafla leiksins. Enn batnaði leikur Liverpool þegar Craig Bellamy kom til leiks. Hann naut sín vel á Árþúsundaleikvanginum þar sem hann hefur svo oft leikið með landsliði Wales. Tíu mínútum fyrir leikslok slapp hann einn upp vinstri kantinn. Hann lék upp að endamörkum og sendi hárnákvæma sendingu yfir á fjærstöngina. Þar kom Peter Crouch og skallaði boltann óáreittur í markið. Stuðningsmenn Liverpool fyrir aftan markið trylltust af fögnuði og ekki fögnuðu leikmenn Liverpool minna. Englandsmeistararnir reyndu að jafna en varð ekki ágengt. Carlo bjargaði Chelsea meira að segja frá stærra tapi þar hann varði vel skot frá Fabio Aurelio. Leikmenn Liverpool spiluðu síðustu mínúturnar undir söng stuðningsmanna sinna sem sungu þjóðsönginn og aðra góða söngva hástöfum.

 




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan