| Sf. Gutt

Landsliðsferli Dietmar Hamann er lokið

Dietmar Hamann hefur ákveðið að hætta að leika með þýska landsliðinu. Hann ákvað þetta í kjölfar þess að hann var ekki valinn í þýska landsliðið fyrir úrslitakeppni Heimsmeistaramótsins sem fram fer í heimalandi hans í sumar. Didi lék eitthvað með landsliðinu á síðasta ári en gaf ekki kost á sér í vináttuleikjum seinni hluta ársins.

,,Það kom mér svo sem ekki mjög á óvart að ég skyldi ekki vera valinn í landsliðshópinn. Ég hef ekki átt tal við landsliðsþjálfarann síðustu þrjá mánuðina svo ég taldi ekki mikla möguleika á að verða valinn. Nú er landsliðsferli mínum lokið. Ég er núna orðinn 32 ára og þetta hefði verið síðasta stórmótið sem ég hefði tekið þátt í. Nú ætla ég bara að horfa á keppnina í sjónvarpinu. En ég fer þó til Munchen til að horfa á fyrsta leikinn í keppninni."

Dietmar lék alls 59 landsleiki og skoraði fimm mörk í þeim. Didi lék á tveimur Heimsmeistaramótum. Hann lék í keppninni í Frakklandi árið 1998 og í Austurlöndum fjær fyrir fjórum árum. Þá varð hann annar leikmaður í sögu Liverpool til að leika í úrslitaleik á heimsmeistaramóti þegar Þjóðverjar töpuðu 2:0 fyrir Brasilíumönnum. Eini leikmaður Liverpool til að verða heimsmeistari í knattspyrnu er Roger Hunt en hann var í sigurliði Englendinga fyrir fjörutíu árum þegar Vestur Þjóðverjar voru lagðir 4:2 að velli á Wembley.

Dietmar getur nú einbeitt sér að ferli sínum hjá Liverpool. Hann sýndi það í bikarúrslitaleiknum gegn West Ham United fyrir viku að hann er ekki dauður úr öllum æðum. Hann kom inn sem varamaður þegar um tuttugu mínútur voru eftir og átti mjög óðan leik. Hann skoraði svo úr fyrstu spyrnu Liverpool í vítaspyrnukeppninni af miklu öryggi. Didi hefur nú leikið 283 leiki með Liverpool og skorað 11 mörk. Bikarmeistaratitilinn fyrir viku var níundi titillinn sem hann vinnur á ferli sínum hjá Liverpool. 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan