Öruggur sigur Evrópumeistaranna á Newcastle
Evrópumeistararnir unnu öruggan og sannfærandi sigur norður í Newcastle í dag. Liverpool vann 3:1 á St James Park og hefði sigurinn auðveldlega getað verið stærri. Liverpool er í þriðja sæti deildarinnar og heldur áfram í humátt á eftir Manchester United í von um að Rauðu djöflarnir misstigi sig. Sigur Liverpool var líka mjög mikilvægur vegna þess að liðin fyrir neðan unnu sína leiki um helgina.
Liverpool byrjaði leikinn af krafti og eftir tíu mínútur lá boltinn í marki heimamanna. Steven Gerrard sendi boltann út á hægri kant á Jan Kromkamp. Hollendingurinn sendi frábæra sendingu fyrir markið á Peter Crouch sem skallaði boltann framhjá Shay Given. Þetta var annað mark hans í jafn mörgum leikjum. Liverpool var miklu sterkara liðið á upphafskafla leiksins og sóknir liðsins voru gjarnan hraðar og hættulegar. Um miðjan hálfleikinn fóru heimamenn að færa sig upp á skaftið. Alan Shearer átti skot framhjá og Jose Reina varði frá Charles N´Zogbia. En það var Liverpool sem skoraði næsta mark. Það kom á 35. mínútu eftir frábæra sókn. Djibril Cissé sendi fyrir frá hægri á Steven Gerrard sem skallaði boltann á Peter Crouch. Peter renndi boltanum aftur út í teiginn á Steven sem skoraði með föstu skoti neðst í markhornið. Frábært mark og vel að því staðið. En Skjórarnir náðu að minnka muninn á 41. mínútu. Scott Parker sendi góða sendingu fyrir markið. Shola Ameobi stalst inn fyrir vörnina og skallaði boltann yfir Jose Reina og í markið. Það leit því allt út fyrir að síðari hálfleikur gæti orðið erfiður.
Úrslit leiksins réðust svo gott sem eftir sjö mínútur í seinni hálfleik. Jean-Alain Boumsong, miðvörður Newcastle, hitti þá ekki boltann og missti Peter Crouch inn fyrir sig. Hann braut svo á Peter inni í vítateignum. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu og rak Frakkann af leikvelli. Djibril Cissé tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi. Þetta var fyrsta mark hans á þessu ári og það var ekki að undra þótt hann fagnaði því innilega. Eftir þetta var sigur Liverpool aldrei í hættu og liðið hefði getað bætt við mörkum. En leikmenn voru heldur kærulausir á köflum. Djibril Cissé skaut framhjá úr góðu færi eftir. Hann hefði þá betur sent boltann á Harry Kewell sem var dauðafrír inni á vítateignum. Undir lok leiksins varði Shay Given frábærlega góð tvö góð langskot. Fyrst frá Xabi Alonso og svo frá Jan Kromkamp. Sigur Liverpool var öruggur og sanngjarn. Eftir markatregðu hafa leikmenn Liverpool nú skorað átta mörk í tveimur leikjum. Það virðist að Evrópumeistararnir séu nú komnir á gott skrið og er það hið besta mál.
Newcastle United: Given, Babayaro, Elliott, Boumsong, Ramage, N´Zogbia, , Parker, Solano, Shearer, Ameobi. Varamenn: Dyer, Bowyer, Harper, Moore og Clark
Mark Newcaste United: Shola Ameobi.
Liverpool: Reina, Warnock, Hyypia, Agger, Carragher, Kewell, Gerrard, Hamann, Kromkamp, Crouch, Cisse. Varamenn: Dudek, Garcia, Alonso, Fowler og Traore.
Mörk Liverpool: Peter Crouch, Steven Gerrard og Djibril Cissé, víti.
Áhorfendur á St James Park: 52.302.
Rafael Benítez var auðvitað ánægður með strákana sína eftir leikinn. ,,Ég er mjög ánægður því við lékum vel, skoruðum mörk og þegar upp var staðið þá hefðum við getað unnið með meiri mun en 3:1. Við lékum með þrjá miðverði í dag og létum þá Stephen Warnock og Jan Kromkamp spila úti á vængjunum. Það gekk mjög vel. Hreyfanleiki Harry Kewell olli Newcastle vandræðum og við hófum leikinn mjög vel. Það er mjög mikilvægt fyrir liðið að sóknarmennirnir séu farnir að skora og það hefur komið mér í skemmtilegan vanda með hvernig ég eigi að stilla upp liðinu í næsta leik. Peter Crouch sýndi í dag hvers vegna við keyptum hann. Hann skoraði gott mark, hélt boltanum vel og vann skallaeinvígi."
Úrvalsmyndir úr leiknum.
-
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Sf. Gutt
Darwin í banni með Úrúgvæ -
| Sf. Gutt
Vil vinna allt! -
| Sf. Gutt
Craig Bellamy tekur við Wales -
| Sf. Gutt
Mikill fjöldi landsliðsmanna -
| Sf. Gutt
Af mikilvægi andlegrar heilsu -
| Sf. Gutt
Til hamingju! -
| Sf. Gutt
Alisson gæti verið frá í rúman mánuð!