| Sf. Gutt

Allar flóðgáttir opnuðust og mörkunum rigndi!

Afmælisgjöf í lagi! Það gat ekki öðruvísi farið! Auðvitað braut Robbie ísinn gegn Fulham! Allar flóðgáttir opnuðust og Tony Warner fyrrum uppeldissonur Liverpool mátti sækja boltann fimm sinnum í netið! Evrópumeistararnir tóku Fulham í gegn 5:1 og unnu sinn stærsta sigur sinn á leiktíðinni! Ekki nóg með það heldur komu þrír af sóknarmönnunum komu boltanum í markið og sigurinn hefði getað orðið miklu stærri.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og Luis Garcia skoraði af stuttu færi eftir aðeins tvær mínútur. Hann var þó rangstæður og markið var dæmt af. Sókn Liverpool var linnulaus á upphafskafla leiksins. Fernando Morientes komst í gott færi eftir frábæra sendingu frá Robbie en skot hans var laust og Tony Warner varði. En sókn Liverpool gat ekki endað með öðru en marki og það mark kom á 16. mínútu. Harry Kewell tók hornspyrnu. Luis Garcia framlengdi boltann yfir á fjærstöng og þar kom Robbie Fowler og skallaði í mark af markteignum við gífurlegan fögnuð áhorfenda. Þetta var langþráð mark og það er nokkuð langt um liðið frá því marki hefur verið fagnað jafn innilega á Anfield Road. Robbie átti algeran stórleik í fyrri hálfleik og var allt í öllu í sóknarleik Liverpool. Hann lagði upp færi fyrir Fernando en hann skaut í hliðarnetið. Áfram var sótt en gestirnir náðu að jafna á 25. mínútu þvert á gang leiksins. Collins John slapp þá einn í gegn upp hægra megin enda var Djimi Traore víðs fjarri á sínu svæði. Hann lék inn í teiginn og skoraði af miklu öryggi framhjá Jose Reina. Markið kom eins og köld vatnsgusa framan í leikmenn Liverpool og þeir voru nokkra stund að jafna sig. En Liverpool komst aftur yfir á 34. mínútu. Robbie lagði boltann á Harry, sem var kominn út á hægri vænginn. Ástralinn sendi fyrir markið og rétt við marklínuna sendi Michael Brown boltann í eigið mark. Fernando var rétt fyrir aftan hann og hefði skorað en Michael sá um það. Steed Malbranque átti síðasta færi hálfleiksins en hann skaut rétt framhjá. Liverpool hafði því forystu  þegar flautað var til leikhlés.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og strax í byrjun hálfleiksins átti Luis Garcia frábært skot utan vítateigs sem hafnaði í þverslánni. Leikurinn var nú tíðindalítill um skeið. Fulham náði næstum að jafna eftir klukkutíma leik þegar miðvörðurinn Zat Knight átti skalla í stöng. En þetta reyndist síðasta færi Fulham. Djibril Cissé leysti Robbie af hólmi á 68. mínútu við litla hrifningu áhorfenda sem vildu njóta snilli Guðs lengur en hann hlaut mikið klapp þegar hann fór af velli. Frakkinn lét strax til sín taka. Á 71. mínútu sendi Steven Gerrard boltann fyrir eftir að hafa leikið snilldarlega á varnarmann. Djibril skallaði að marki. Tony varði en hélt ekki boltanum sem barst til Fernando Morientes sem þrumaði boltanum upp í þaknetið frá markteig. Þessu fyrsta marki Spánverjans frá því á miðri aðventu var vel fagnað jafnt innan vallar sem utan. Það var greinilegt að Fernando var létt og það var gaman að sjá hversu vel félagar hans fögnuðu honum. Sigur Liverpool var þarna svo gott sem í höfn en það var ekki allt búið enn. Peter Crouch kom til leiks á 81. mínútu og hann skoraði átta mínútum síðar. Steven Gerrard ruddist þá inn í vítateiginn vinstra megin. Hann skaut að marki. Boltinn hefði líklega ekki farið inn en Peter sá um að svo varð með því að stýra boltanum í markið af markteig. Enn var vel fagnað enda var þriðji sóknarmaður Liverpool að enda við að skora! Stephen Warnock tók að sjálfsögðu þátt í fagnðarlátunum en kom inn mínútu áður en Peter skoraði. Hann fagnaði þó miklu meira mínútu síðar. Steve Finnan braust þá inn í vítateiginn og skaut að marki. Tony gerði vel í að verja en boltinn hrökk út í vítateiginn þar sem Stephen Warnock kom aðvífandi og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool! Það sem meira var hann skoraði með hægri fæti! Þetta var sannarlega mögnuð stund fyrir Stephen! Markð fullkomnaði stærsta sigur Liverpool á leiktíðinni og hann gat varla komið á betri tíma!  

Þetta var sannarlega gleðilegur sigur. Þetta var stærsti sigur Liverpool á leiktíðinni og þrír af sóknarmönnum Liverpool náðu að skora. Robbie skoraði sitt fyrsta mark eftir endurkomuna. Fernando skoraði sitt fyrsta mark frá því um miðjan desember. Peter skoraði fyrsta deildarmark sitt frá því á gamlársdag. Djibril átti mjög góða innkomu. Svo fullkomnaði Stephen Warnock sigurinn með sínu fyrsta marki fyrir Liverpool. En hápunktur leiksins var auðvitað markið hans Robbie Fowler. Hann braut ísinn og lék frábærlega. Stuðningsmenn Liverpool gátu því gengið glaðir til náða!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Traore, Luis Garcia, Gerrard, Hamann, Kewell (Warnock 88. mín.), Fowler (Cissé 68. mín.), Morientes (Crouch 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Mörk Liverpool: Robbie Fowler (16. mín.), Michael Brown sm. (34. mín.), Fernando Morientes (71. mín.), Peter Crouch (89. mín.) og Stephen Warnock (90. mín.). 

Fulham: Warner, Rosenior, Knight (Christanval 69. mín.), Pearce, Bridge, Radzinski (McBride 78. mín.), Malbranque, Brown, Pembridge, Boa Morte, John. Ónotaðir varammenn: Crossley, Helguson og Niclas Jensen.

Gul spjöld: Michael Brown og Wayne Bridge.

Mark Fulham: Collins John (25. mín.) 

Áhorfendur á Anfield Road: 42.293.

Rafael Benítez var skiljanlega hæstánægður eftir leikinn. ,,Þetta var frábært leikur fyrir sóknarmennina og liðið í heild. Það var mjög mikilvægt að þeir skyldu skora. Það var gott að sjá þá Robbie Fowler, Fernando Morientes og Peter Crouch alla skora. Eins var gott að sjá Djibril Cissé leggja upp mörk. Þetta var mikilvægt fyrir sjálfstraust þeirra. Við erum öll búin að bíða eftir að Robbie myndi skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool eftir endurkomuna. Hann uppskar markið eftir að hafa lagt hart að sér. Það var gott fyrir stuðningsmennina, liðið og Robbie að hann skyldi skora."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan