| Sf. Gutt

Robbie vonast eftir mörkum gegn Fulham eins og um árið

Robbie lætur engan bilbug á sér finna og telur að það styttist í fyrsta mark sitt eftir endurkomuna. Hann vonar að lánið verði með sér í kvöld þegar Liverpool tekur á móti Fulham. Hann á nefnilega góðar minningar úr leikjum sínum, með Liverpool, gegn Fulham. Robbie telur að lánið fari fljótlega að vera með Liverpool. Það gæti hjálpað til ef góður félagi Robbie gangi illa í kvöld!

,,Það er auðvelt að tína til tölfræði sem segir til um hversu langt er um liðið frá því menn skoruðu. En mikilvægasta staðreyndin er sú að liðið er að skapa sér marktækifæri. Auðvitað hefur margt gengið okkur í móti en það fer að lagast. Við værum í miklu betri stöðu núna ef línuverðirnir hefðu dæmt tvö mörk, sem ég tel að hafi verið lögleg, góð og gild. Ég get ekki talað fyrir aðra en ég finn ekki fyrir neinni pressu og ég mun ekki skorast undan ábyrgð ef ég fæ tækifæri. Ég veit að ég get skorað mörk. Ég hef trú á mér og mér finnst að ég muni skora ef ég kemst í góð færi til þess. Það er að segja ef línuverðirnir standa sig almennilega! Ég er kominn í góða þjálfun og mér líður vel."

Robbie hefur tvívegis leikið með Liverpool gegn Fulham og í þessum tveimur leikjum hefur hann skorað sex mörk! Hann skoraði sitt fyrsta mark í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool þegar liðið vann 3:1 útisigur gegn Fulham í Deildarbikarnum haustið 1993. Í seinni leiknum skoraði hann svo öll mörk Liverpool þegar Rauði herinn vann 5:0 á Anfield Road. Hann varð þar með fjórði leikmaðurinn í sögu Liverpool til að skora fimm mörk í sama leiknum!

,,Heimsókn Fulham á eftir að rifja upp ótrúlegar minningar sem ég á. Ég er nú ekki mikið fyrir það að horfa til fortíðar. En ég veit að margir munu rifja upp mörkin sem ég skoraði gegn þeim. Þetta var ótrúlegt kvöld. Það gerist bara í teiknimyndasögum að maður skori fimm mörk í sínum fyrsta heimaleik. Það fyndna var að ég hefði getað skorað fleiri mörk þetta kvöld. Ég man að þegar ég kom aftur inn í búningsherbergið eftir leikinn þá sagði Ronnie Moran, þjálfarinn okkar, að ég hefði átt að geta skorað átta mörk ef ég hefði verið aðeins beinskeyttari! Þetta var fullkomin byrjun hjá mér og margir stuðningsmenn Liverpool vilja enn spjalla við mig um þetta.

Ég býst við að þetta verði rifjað upp núna fyrst Fulham er að koma í heimsókn. En mér finnst að það sem á eftir að gerast sé mikilvægast en ekki það sem er löngu liðið. Ég vona bara að Tony Warner spili með. Við ólumst upp saman á Anfield og erum enn miklir félagar. Ég vona bara að honum finnist það ekki miður þó ég vonist til að hann eigi ömurlegan leik!"

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan