| Sf. Gutt

Ólán í síðustu heimsókn Liverpool til Highbury

Lánið fylgdi ekki Liverpool í norðurhuta Lundúna í gær. Eftir að hafa náð að jafna leikinn þá missti Liverpool Xabi Alonso af velli með rautt spjald. Til að bæta gráu ofan á svart þá færði Steven Gerrard heimamönnum sigurmarkið á silfurfati kveðjuleik Liverpool á Highbury. Þótt heimamenn hefðu átt betri færi og verið sterkari þá þurfti þessi leikur ekki að tapast. En hann tapaðist samt.

Heimamenn byrjuðu betur og þeir Thierry Henry og Emmanuel Adebayor fengu góð færi. Jose Reina varði frá Thierry en Emmanuel skaut yfir. Skytturnar komust svo yfir á 21. mínútu. Cesc Fabregas sendi þá frábæra sendingu út á vinstri kantinn. Bæði Steve Finnan og Jamie Carragher misstu af boltanum. Thierry Henry slapp einn inn á teiginn og skoraði með fallegu skoti í hornið fjár gersamlega óverjandi fyrir Jose. Liverpool sótti í sig veðrið undir lok hálfleiksins. Þeir Xabi Alonso og Steven Gerrard áttu góð langskot sem rétt misstu marks. Peter Crouch átti þó besta færið en hann skallaði framhjá úr mjög góðu færi eftir fyrirgjöf Steve Finnan.

Skytturnar byrjðu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri með harðri sókn. Thierry Henry skaut framhjá úr opnu færi. Ekki löngu seinna fékk hann aftur gott færi en Jose Reina varði. Liverpool náði að rétta úr kútnum eftir því sem leið á hálfleikinn. Stundarfjórðungi fyrir leikslok náðu Evrópumeistararnir að jafna. Steven Gerrard átti þá bylmingsskot af löngu færi. Jens Lehmann varði með því að slá boltann út í teiginn. Luis Garcia var vel vakandi og náði að skalla boltann í markið. Á næstu mínútum virtust heimamenn slegnir út af laginu. En allt fór á versta veg á tveggja mínútna kafla. Níu mínútum fyrir leikslok var Xabi Alonso rekinn af velli. Dómarinn taldi að Xabi hefði brotið á Mathieu Flamini en Spánverjinn og félagar hans töldu að hann hefði óvart lent á leikmanninum sem átti í hlut. En dómarinn var viss í sinni sök. Tveimur mínútum eftir þetta kom svo rothöggið. Steven Gerrard sendi þá boltann til baka að eigin marki. Þar var fyrir Thierry Henry sem þakkaði gott boð, lék á Jose Reina og skoraði í autt markið. Þessi ákvörðun Steven, að gefa aftur, var alveg óskiljanleg því það var ekkert sem þröngvaði honum til spila boltanum aftur á völlinn. Héðan varð ekki aftur snúið og heimamenn hefðu getað bætt við marki þegar Robert Pires skaut í stöng eftir sendingu frá Thierry. Síðasti leikur Liverpool á Highbury endaði því með tapi. Úr því sem komið var, þegar Luis jafnaði, hefði Liverpool ekki þurft að tapa þessum leiks en tap varð samt staðreynd.

Arsenal: Lehmann, Eboue, Toure, Senderos, Flamini, Hleb, Fabregas, Silva, Ljungberg (Pires 15. mín.), Adebayor (Bergkamp 67. mín.) og Henry. Ónotaðir varamenn: Almunia, Song og Djourou.

Mörk Arsenal: Thierry Henry (21. og 83. mín.) 

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock, Kromkamp (Kewell 45. mín.), Hamann (Fowler 73. mín.), Alonso, Garcia, Gerrard og Crouch. Ónotaðir varamenn: Dudek, Morientes og Traore.

Rautt spjald: Xabi Alonso (81. mín.).

Gul spjöld: Xabi Alonso og Luis Garcia.

Mark Liverpool: Luis Garcia (76. mín.). 

Áhorfendur á Highbury: 38.221.

Rafael Benítez var þungur á brún eftir leikinn. ,,Við lékum ekki eins og við vildum í fyrri hálfleik. Við gerðum mistök og lentum 1:0 undir. Eftir leikhlé náðum við að koma okkur inn í leikinn. Við náðum stjórn á leiknum, sköpuðum okkur fleiri færi og og töldum okkur geta unnið leikinn. En svona mistök eru bara óheppni. Slæm ákvörðun er tekin á augnabliki. Þetta eru slæm úrslit fyrir okkur en við verðum að halda okkar striki."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan