| Sf. Gutt

Jamie vill að Liverpool hefni fyrir fyrri bikartöp

Jamie Redknapp var tvívegis í tapliði með Liverpool í F.A. bikarnum gegn Manchester United. Hann lék með Liverpool á Wembley í hvítfataúrslitaleiknum 1996 þegar Liverpool náði sér ekki á strik miðað við hvað búist var við af liðinu. Reyndar lék Manchester United ekki vel heldur og leikurinn olli miklum vonbrigðum. En Rauðu djöflarnir höfðu sigur með síðbúnu marki Eric Cantona. Þremur árum síðar lék Jamie með Liverpool á Old Trafford. Michael Owen kom Liverpool yfir með skalla snemma leiks og allt virtist ætla að ganga að óskum þar til heimamenn skoruðu tvívegis undir lok leiksins. Þessi töp svíða enn sárt í huga Jamie og nú vill hann að núverandi leikmenn Rauða hersins nái fram hefndum fyrir þessi tvö sáru töp. Hann telur líka að sigur Liverpool í dag geti skipt máli þegar til lengri tíma er litið.

,,Eins og árið 1996 er ekki mikill styrkleikamunur á liðunum þegar þau eru upp á sitt besta. Liverpool er aftur komið í mjög góða aðstöðu til að veita United keppni og ná að verða betri en þeir. Eins og sannaðist árið 1996 þá getur mikilvægur bikarsigur skipt miklu frá sálfræðilegu sjónarmiði.

Ég hef hrifist mjög mikið af Liverpool undir stjórn Rafael Benítez. Hann hefur náð að láta liðið leika vel saman. Frá því hann tók við hefur mér fundist hann ná að láta þá Jamie Carragher og Steven Gerrard leika enn betur en þeir gerðu áður. Þeir voru mjög góðir þegar ég var hjá félaginu. En nú hefur Rafael tekist að bæta leik þeirra enn meira þannig að þeir eru komnir í heimsklassa.

Ég var auðvitað á leiknum við Arsenal á þriðjudagskvöldið og ég var mjög hrifinn af leik liðsins. Það var alls ekki að sjá að strákarnir væru þreyttir. United er talið líklegast til að ná öðru sæti deildarinnar en ég hef ennþá trú á að Liverpool geti náð þeim. Ég veit að strákarnir munu hlakka mikið til þessa leiks. Aðalmunurinn miðað við síðustu bikarleiki liðanna er að nú verður leikið á Anfield. Við höfðum aldrei þann hag sem það að leika á heimavelli gefur og það á eftir að skipta máli."

Jamie, sem nú vinnur við að lýsa leikjum á sjónvarpsstöðinni Sky, vann aldrei F.A. bikarinn með Liverpool. Hann fékk þó að hjálpa til við að taka við bikarnum þegar Liverpool vann hann síðast árið 2001 í Cardiff. Hann mun líklega ekki fagna mikið minna í dag nái Liverpool að komast áfram í næstu umferð keppninnar.

Víst er að stuðningsmenn Liverpool eru orðnir langþreyttir á missárum töpum fyrir Manchester United í F.A. bikarnum. Líklega eru ekki margir núlífandi stuðningsmenn Liverpool sem voru vitni að síðasta sigri Rauða hersins á Rauðu djöflunum í keppninni. Það eru 85 ár liðin frá þeim sigri. Liverpool hafði betur 2:1 í aukaleik árið 1921 á Old Trafford eftir 1:1 jafntefli á Anfield. Frá þeim sigri hafa sjö töp orðið staðreynd. En nú er vonandi komið að Rauða hernum að fagna sigri. Það er tími tíl kominn og þó fyrr hefði verið!!!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan