| Sf. Gutt

Fyrsta mark Sami á leiktíðinni gaf sigur í Wigan

Fyrsti deildarsigurinn á Þorranum með fyrsta marki finnska risans á leiktíðinni í fyrstu heimsókn Liverpool til Wigan. Langþráður deildarsigur eftir fjóra deildarleiki án sigurs vannst í Wigan upp úr hádeginu í dag. Líkt og í síðustu leikjum tókst sóknarmönnum Liverpool ekki að skora en Sami Hyypia kom til bjargar með marki eftir sendingu frá Jamie Carragher! Sigurinn var harðsóttur og naumur en vonandi kemur hann Evrópumeisturunum á rétta braut.

Steven Gerrard var orðinn leikfær og tók stöðu sína í liðinu. Robbie Fowler hóf sinn fyrsta leik eftir endurkomuna frá Manchester. Leikurinn var harður og ekkert var gefið eftir frá upphafsflauti. Ekki dró það úr hamaganginum að völlurinn var mjög ósléttur eftir að ruðningskappar borgarinnar höfðu leikið listir sínar þar í gærkvöldi. Boltinn fór því alls ekki alltaf þangað sem leikmenn vildu. Það kom því ekki á óvart að liðunum gekk ekki vel að byggja upp góðar sóknir. Evrópumeistararnir voru þó hættulegri. Sóknarleikurinn var betri en í síðustu leikjum og var það Robbie Fowler að þakka. Hann var líflegur í sókninni og reyndi alltaf að skapa eitthvað. Hann fékk fyrsta færið en skalli hans fór beint á Mike Pollitt í marki Wigan. Eftir hálftíma náðu Evrópumeistararnir forystu. Steven Gerrard sendi þá aukaspyrnu fyrir markið. Heimamönnum tókst ekki að koma boltanum langt frá. Jamie Carragher sendi boltann aftur fyrir sig inn á teiginn. Boltinn rataði beint til Sami Hyypia, félaga hans í vörninni, sem var fremmsti maður. Sami lét fyrrum félaga sinn Stephane Henchoz ekki stöðva sig og skaut að marki. Skotið var ekki vel heppnað en boltinn fór í markið þrátt fyrir að Mike hefði hendur á boltanum. Markinu var fagnað innilega af leikmönnum Liverpool. Ekki kom á óvart að Robbie Fowler var fyrstur til að fagna Sami. Rétt undir lok hálfleiksins sendi Robbie frábæra sendingu inn fyrir á Fernando Morientes en Mike varði frábærlega frá honum. Markvarslan var frábær en Spánverjinn átti að skora. Fyrrum leikmenn Liverpool hjá Wigan þeir David Thompson og Stephane Henchoz voru báðir bókaðir fyrir leikhlé. Það var greinilegt að þeir ætluðu ekki að gefa sínum fyrri félögum eitt né neitt!

Heimamenn komu grimmir til leikst eftir leikhlé. Reyndar var enginn sóknarmaður í liði Wigan en sem fyrr á leiktíðinni reyndu leikmenn liðsins sitt besta. Nú kom loks til kasta Jerzy Dudek og Pólverjinn stóð fyrir sínu. Hann varði frábærlega skalla frá Andreas Johansson með því að slá boltann yfir. Hinum megin varði Mike Pollitt vel þrumuskot frá Steven Gerrard sem komst í gott færi eftir góðan undirbúning Robbie og Fernando. Jerzy varði svo mjög vel frá félaga sínum Sami Hyypia sem sendi boltann að eigin marki þegar hann var að koma fyrirgjöf heimamanna frá. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu en leikmenn Liverpool börðust eins og ljón. Arjan De Zeeuw fyrirliði Wigan átti tvo skalla yfir úr góðum færum en nær komst heimamenn ekki. Djibril Cissé kom skoti á markið undir lokin sem Mike varði. En langþráður sigur Liverpool náðist. Liðið lék ekkert sérlega vel en í þetta sinn skipti það ekki máli.

Wigan: Pollitt, Jackson, Henchoz, De Zeeuw, Ziegler, Teale, Bullard, Kavanagh, Thompson, Scharner og Johansson (Baines 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Filan, Mahon, Francis og Joyce.

Gul spjöld: David Thompson og Stephane Henchoz.

Liverpool: Dudek, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso, Hamann, Kewell, Morientes (Cissé 70. mín.) og Fowler (Kromkamp 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Traore og Sissoko.

Mark Liverpool: Sami Hyypia (30. mín.).

Áhorfendur á JJB leikvanginum: 25.023.

Rafael Benítez var ánægður með sigurinn. ,,Við lögðum mjög hart að okkur og við sýndum að við búum yfir skapstyrk. Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur því úrslit síðustu leikja hafa ekki verið góð."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan