| Sf. Gutt

Allt í góðu!

Michael Owen segist ekki bera neinn kala til stuðningsmanna Liverpool eftir heldur kuldalegar kveðjur sem hann fékk frá sumum þeirra á endurkomu sinni á sinn gamla heimavöll á öðrum degi jóla. Fyrir leikinn baulaði hluti stuðningsmanna Liverpool þegar nafn hans var lesið upp og eins var baulað þegar hann snerti boltann í fysta sinn. En Michael er sem betur fer ekki sár út í stuðningsmenn Liverpool.

"Það var skrýtið að koma aftur til baka á öðrum degi jóla. Ég hafði vissulega ekki gaman af öllu sem gerðist á endurkomunni. Sumir hafa viljað kalla þetta óvinsamlegar móttökur en ég myndi frekar segja að áhorfendur hafi verið að stríða mér. Móttökurnar voru ekki kvikindislegar og ég móðgaðist ekki. Þetta var meira grín. Fjölskyldan mín er frá Liverpool svo ég veit alveg hvers konar kímnigáfa er ríkjandi þar um slóðir.
 
Ég vissi svo sem ekki hverju ég átti von á fyrir leikinn. Ég býst við að ég hafi átt von á því að fá eitthvað klapp fyrir leikinn og svo tæki harður leikur við. Eins átti ég von á því að ég fengi einhver gamansöm skot og söngva á mig á meðan á leiknum stæði. Þetta gekk allt eftir nema þá klappið fyrir leikinn!
 
Samt virði ég Liverpool og ég er enn virtur hjá Liverpool. Jafnvel núna þá fæ ég vingjarnleg bréf frá stuðningsmönnum Liverpool á hverjum degi. Það gleður mig að sjá liðinu ganga vel."
 
Svo mörg voru þau orð og það er sannarlega gott að Michael Owen sárnaði ekki þær móttökur sem hann fékk frá hluta stuðningsmanna Liverpool. Hann ætti því þess vegna að geta komið heim aftur! Ýmsum í Liverpool líkaði ekki þær móttökur sem Michael fékk og töldu þær geta spillt því að Michael myndi hugsanlega einhvern tíma ganga aftur til liðs við Liverpool. Ian Rsuh fjallaði til dæmis um þetta í einum pistla sinna.
 
Heilagur Mikjáll var enn í fréttum í vikunni þegar Sven Göran landsliðsþjálfari sagði, í viðtalinu sem hann var plataður í, að Michael væri ekki ánægður hjá Newcastle. En Michael bar þetta allt saman til baka nokkrum dögum seinna og sagðist vera sáttur hjá nýja félaginu sínu.
 
Michael er  nú á batavegi eftir að hafa ristarbrotnað í leik gegn Tottenham Hotspur á White Hart Lane á gamlársdag. Hann fór í aðgerð þar sem reynt var að ganga eins vel frá brotinu og hægt var með tilliti til þess að Michael yrði sem fyrst leikfær á nýjan leik. Hann segist ánægður með framfarir sínar hingað til en trúlega verður hann ekki leikfær fyrr en eftir tvo mánuði eða svo.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan