| Sf. Gutt

Jólatörnin tekur á

Jólatörnin tekur á og leikmenn ensku liðanna fá lítinn tíma til hvíldar yfir jól og áramót. Eins eru tækifæri þeirra til jólahalds með fjölskyldum sínum ekki eins mikil eins og hjá fólki almennt. Atvinnuknattspyrnumönnum á Englandi dugar sannarlega ekki að troða sig út af mat og drykk og liggja svo á meltunni. Stephen Warnock segir hér frá knattspyrnujólum enskra.

"Þessi tími er mjög mikilvægur og þess vegna verða leikmenn að passa sig mjög vel yfir jólin. Auðvitað er mikil freisting að gera vel við sig í mat og drykk og láta allt eftir sér yfir hátíðirnar. En við erum allir búnir að vera nógu lengi knattspyrnumenn til að vita að það er mjög mikilvægt að færa fórnir á þessum árstíma. Við getum notið jólanna og eytt tíma með fjölskyldum okkar. En við verðum að fara varlega hvað varðar mat og drykk. Þetta er bara eitt af því sem maður þarf að læra á. Við vitum að það eru milljónir manna sem vildu vera í okkar sporum og þess vegna er raunverulega lítil fór að halda í sig yfir hátíðirnar.

Ég er viss um að það verður æfing að morgni jóladags. En seinni partinn höfum við tækifæri á að vera með fjölskyldu og vinum. Ég ætla að eyða síðdeginu með konunni minni, mömmu, pabba, bróður mínum og öðrum úr fjölskyldunni. En ég verð að fara snemma í háttinn til að hvíla mig fyrir leikinn gegn Newcastle sem verður daginn eftir. Það er mjög mikilvægt að hvíla sig og slaka á yfir jólin því það eru bara nokkrir dagar milli leikja. Maður verður að gefa líkamanum færi á að hvílast og safna kröftum."

Þá vitum við það. Það dugar ekki að troða sig út af krásum og þamba góða drykki ef maður er atvinnuknattspyrnumaður á Englandi yfir jól og áramót. Jólatörnin hófst á öðrum degi jóla og henni lýkur nú í vikunni. Liðin hafa fjóra leiki á sjö til átta dögum eftir því hvernig dagsskráin hefur raðast upp. Liverpool leikur sína fjóra leiki til dæmis á átta dögum. En svona eru jólin bara hjá knattspyrnumönnum á Englandi. Löng hefð er fyrir strangri jólatörn og sú hefð er sterk og mikil.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan