| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Evrópumeistararnir gáfu stuðningsmönnum sínum áttunda deildarsigurinn í röð í jólagjöf. Michael fékk engar gjafir. Þetta er leikur Liverpool og Newcastle United í hnotskurn.

- Jólatörn Liverpool hófst með þessum leik.

- Törnin hljóðar upp á fjóra leiki á átta dögum þessi jólin.

- Annar dagur jóla hefur gefist vel til stigasöfnunar hjá Liverpool. Síðustu átján árin hefur Liverpool aðeins tapað einu sinni á öðrum degi jóla. Það gerðist árið 2000 þegar Liverpool tapaði 1:0 á Árbakkavelli fyrir Middlesbrough.

- Michael Owen sneri aftur heim eftir brottför sína til Madrídar í ágúst 2004.

- Michael Owen lék 297 leiki með Liverpool og skoraði 158 mörk. Af mörkunum 158 skoraði Michael fjórtán gegn Skjórunum.

- Síðasta mark Michael Owen fyrir Liverpool var gegn Newcastle. Það kom í síðasta leik Michael fyrir Liverpool í síðustu umferð deildarinnar vorið 2004. Leikurinn var á Anfield Road og lauk með jafntefli 1:1.

- Fyrrnefndur leikur var líka síðasti leikurinn sem Gerard Houllier stýrði Liverpool í.

- Hluti stuðningsmanna Liverpool tók Michael heldur kuldalega með nettu bauli þegar nafn hans var  lesið upp fyrir leikinn.

- En það fór meira fyrir gamansemi áhorfenda á Anfield Road. Þeir spurðu Michael hvar hann hefði verið þegar Liverpool var að leika í Istanbúl!

- Liverpool hefur gríðarlega sterk tök á Newcastle á Anfield Road. Skjórarnir hafa aðeins tvívegis unnið í Liverpool síðustu þrjátíu og fjórum deildarleikjum sínum þar.

- Þetta var fyrsti sigur Liverpool gegn Newcastle á öðrum degi jóla frá árinu 1921.

- Liverpool vann áttunda deildarsigur sinn í röð.

- Í þessum átta sigurleikjum hefur Jose Reina ekki fengið á sig mark.

- Með því að halda markinu hreinu í átta deildarleikjum í röð var félagsmet jafnað. Það met er frá árinu 1923.

- Steven Gerrard skoraði þrettánda mark sitt á leiktíðinni.

- Steven er þá búinn að skora jafn mörg mörk og hann skoraði á síðustu leiktíð. Hann skoraði þréttán mörk í öllum keppnum og var markahæsti maður liðsins ásamt þeim Milan Baros og Luis Garcia.

- Peter Crouch skoraði fimmta mark sitt. Reyndar hafa einhverjir skráð markið sem sjálfsmark Shy Given en þetta var ekki sjálfsmark frear en ég veit ekki hvað.

Liverpool: Reina, Finnan (Josemi 78. mín.), Hyypia, Carragher, Riise, Garcia, Gerrard, Alonso, Kewell (Pongolle 67. mín.), Crouch (Cissé 72. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson og Warnock.

Mörkin: Steven Gerrard (14. mín.) og Peter Crouch (43. mín).

Gult spjald: Peter Crouch.

Newcastle United: Given, Ramage, Boumsong, Taylor (Bramble 28. mín.), Babayaro, Bowyer, Faye, N´Zogbia (Solano 45. mín.), Luque (Ameobi 86. mín), Shearer og Owen. Ónotaðir varamenn: Harper og Elliott.

Rautt spjald: Lee Bowyer (66. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 44.197.

Maður leiksins: Steven Gerrard var í miklum ham. Sérstaklega kvað mikið að honum á upphafskafla leiksins. Miðjumenn Newcastle réðu ekkert við hann og markið sem hann skoraði var frábært. Hann sýndi mikla ákveðni þegar hann braust í gegnum vörn Newcastle.

Jákvætt :-) Liverpool lék einn sinn besta leik sinn á leiktíðinni og áttundi deildarsigurinn í röð jók enn á jólagleði stuðningsmanna Liverpool. Enn sýndi liðið rétta viðhorfið með því að sækja og reyna að bæta við mörkum allt til leiksloka. Vonbrigðin eftir tpið' fyrir Sao Paulo í Japan sátu greinilega ekki í Evrópumeisturunum.

Neikvætt :-(  Áhorfendur hefðu mátt sleppa því að baula á Michael Owen. Annars var ekki yfir neinu að kvarta því sigurinn jók enn á jólagleðina.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og Shay Given náði naumlega að verja frá Fernando Morientes strax í upphafi. Litlu síðar varði Írinn stórkostlega fast skot frá Harry Kewell sem var í góðu færi í teignum. Markið lá í loftinu og það kom á 14. mínútu. Luis Garcia sendi þá boltainn frá hægri kanti. Peter Crouch lagði boltann fyrir Steven Gerrard. Fyrirliðinn tók strikið í átt að markinu. Hann þóttist ætla að skjóta og það kom varnarmönnum Newcastle úr jafnvægi. Hann komst við þetta einn inn á teiginn þaðan sem hann þrumaði boltanum efst í markið úti við stöng. Leikmenn Liverpool og áhorfendur gengu af göflunum af fögnuði. Leikmenn Liverpool voru ekki hættir og hver sóknin rak aðra. Skjórarnir ógnuðu þó aðeins og John Arne Riise bjargaði uppi við eigið mark á síðustu stundu með því að skalla yfir. En það var miklu meira að gerast hinu megin á vellinum og Shay Given, sem var besti maður gestanna, varði vel fasta aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Liverpool skoraði svo aftur á 43. mínútu. Harry Kewell sendi góða sendingu fyrir frá vinstri. Peter Crouch skallaði boltann neðst í hornið fjær. Shay hafði hendur á boltanum en náði ekki að verja og snúningurinn á boltanum kom honum yfir marklínuna. Línuvörðurinn gaf merki um mark og hafði rétt fyrir sér! Þetta mark gerði endanlega út um leikinn. Snemma í síðari hálfleik átti Liverpool að fá vítaspyrnu þegar Nolberto Solano bjargaði skalla Fernando Morientes á línu með hendi. Þeir fjarlægu möguleikar sem Skjórarnir áttu á að ná einhverju út úr leiknum hurfu endanlega þegar Lee Bowyer var rekinn af velli á 66. mínútu eftir harkalegt brot á Xabi Alonso. Nokkrum leikmönnum lenti saman eftir brot Lee og Peter Crouch var bókaður fyrir að hrinda þeim brotlega. Lee kann ekki vel við sig á Anfield Road en hann var líka rekinn út af þar á síðustu leiktíð þegar Liverpool vann 3:1 á aðventu. Nú var hann rekinn út af á jólum. Eftir þetta slökuðu leikmenn Liverpool á klónni. Djibril Cissé, sem leysti Peter af, komst næst því að skora en Shay varði fast skot hans vel undir lok leiksins. Áttundi deildarsigur Liverpool í röð var innbyrtur og stuðningsmenn héldu glaðir heim í jólaafgangana.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan