| Sf. Gutt

Spennan magnast

 
Í fyrramálið, að íslenskum tíma, gefst Liverpool tækifæri á að vinna Heimsmeistarakeppni félagsliða. Þennan titil vantar á afrekaskrá félagsins. Nú er komið að þriðju tilraun Liverpool til að vinna þennan titil. Stuðningsmenn Liverpool vonast til þess að allt verði þegar þrennt er og titillinn vinnist í þriðju tilraun! Þessi titill yrði sannarlega jólagjöfin í ár til stuðningsmanna Liverpool til sjávar jafnt til sveita!
 
 
Til að titilinn náist þarf Liverpool að leggja Suður Ameríkumeistara Sao Paulo að velli. Brasilíska liðið er talið mjög sterkt og það verður sannarlega ekki auðvelt að vinna það. Sao Paulo , sem hefur unnið þessa keppni í tvígang, tekur þessa keppni mjög alvarlega og liðið kom til Japans nokkrum dögum á undan Liverpool. Liðsmenn eru því löngu búnir að jafna sig eftir langt ferðalag og liðið hefur að auki haft einum degi meira til að undirbúa sig fyrir leikinn. Sao Paulo lék sinn undanúrslitaleik á miðvikudaginn. Í honum lagði það suadíska liðið  Al Ittihan 3:2. Evrópumeistararnir unnu Deportivo Saprissa frá Kosta Ríka 3:0 á fimmtudaginn. Leikmenn Liverpool eru allir heilir og þeir eru ekki síður ákveðnir í að vinna en mótherjar þeirra.
 
 
Rafael Benítez er ákveðinn í að stýra sínum mönnum til sigurs. Á meðan hann undirbýr lið sitt þarf hann að takast á við föðurmissi en Spánverjinn hefur sýnt mikinn styrk síðustu dagana. Hann sagði þetta fyrir leikinn. "Ég er stoltur af að vera hérna. Tækifæri á að vinna þennan bikar býðst eingöngu ef maður nær að vinna Meistaradeildina. Sao Paulo hafa mjög góðu og reyndu liði á að skipa. Þeir eru með stóra miðverði sem eiga eftir að gera Peter Crouch erfiðara fyrir en varnarmenn Saprissa gerðu. En ég verð mjög, mjög hamingjusamur ef mér tekst að leiða félagið mitt til annars titils."
 
 
Liverpool vann sér þátttökurétt í þessari keppni með því að vinna Evrópubikarinn í fimmta sinn í Istanbúlí vor. Frá þeim sigri hefur Stórbikar Evrópu verið bætt í bikaraherbergið á Anfield Road. Í fyrramálið gefst gullið tækifæri á að bæta enn við afrekaskrá félagsins. Rafael Benítez hefur lagt áherslu á það að Liverpool ætli sér sigur í leiknum. Forráðamenn brasilíska liðsins ætla sér auðvitað líka að vinna leikinn. Það er því ljóst að framundan er hörkuleikur þar sem ekkert verður gefið eftir. Við vonum að leikmenn Liverpool standi undir nafni og nái að bæta fyrsta heimsmeistaratitli félagsins í safnið! Veitum nú okkar mönnum allan þann stuðning sem við getum. Upp með trefla og fána. You´ll Never Walk Alone!

 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan