| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Vörn Evrópubikarsins heldur áfram á nýju ári! Evrópumeistararnir gerðu það sem til þurfti á Stamford Bridge. Þetta er leikur Liverpool og Chelsea í hnotskurn.

- Þetta var 257. Evrópuleikur Liverpool.

- Þetta var 112. Evrópuleikur Chelsea.

- Það var sannkölluð meistararimma. Fimmföld meistaralið gangi á hólm. Evrópu- og Stórbikarmeistararnir tókust á við Englands-, Deildarbikarmeistara og Góðgerðarskjaldarhafana. Það eru sem sagt núna fimm titlar í vörslu þessara tveggja félaga!

- Þegar var sjöunda hólmganga Liverpool og Chelsea á árinu!

- Liðin hafa spilað tvo deildarleiki, fjóra Evrópuleiki og svo léku þau til úrslita um Deildarbikarinn.

- Chelsea hefur unnið þrjá, Liverpool einn og þrívegis hafa liðin skilið jöfn.

- Þrír af fjórum Evrópurimmum liðanna hafa endað án marka!

- Það er bara hið magnaða mark Luis Garcia sem skilur liðin að í Evrópuleikjunum. Það munaði nú um það mark!

-  Þetta var í ellefta skipti sem lið frá sama þjóðlandi mætast í Mestaradeildinni.

- Aldrei fyrr hafa lið frá sama landi leikið saman í riðlakeppninni. Fram til þessa hefur liðum frá sömu þjóðlöndum verið haldið í sundur í riðlakeppninni. En Knattspyrnusamband Evrópu svipti Liverpool þessum rétti í sumar þegar það gaf Evrópumeisturunum færi á að verja titil sinn.

- Sami Hyypia lék sinn 56. Evrópuleik í röð. Hann setti þar með félagsmet. Enginn útileikmaður Liverpool hefur leikið fleiri Evrópuleiki í röð. Gamla metið átti bakvörðurinn Chris Lawler.

- Jafnteflið tryggði Liverpool sigur í riðlinum. Chelsea varð í öðru sæti, Real Betis í þriðja og Anderlecht rak lestina.

- Þetta var í annað sinn sem Liverpool vinnur riðil í Meistaradeildinni. Fyrra skiptið var leiktíðina 2001/2002.

- Jose Reina hélt markinu hreinu níunda leikinn í röð.

- Spánverjinn fékk aðeins eitt mark á sig í riðlakeppninni. Hann er nú búinn að halda markinu hreinu í fimm Evrópuleikjum í röð.

- Stuðningsmenn Liverpool sungu þjóðsönginn síðustu mínútur leiksins. You´ll Never Walk Alone var staðfesting á áframhaldi Evrópumeistaranna!

Chelsea: Cech, Paulo Ferreira (Del Horno 45. mín.), Ricardo Carvalho, Terry, Gallas, Essien, Robben (Carlton Cole 73. mín.), Lampard, Duff (Wright-Phillips 73. mín), Guðjohnsen og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini, Geremi, Diarra og Huth.

Gul spjöld: Frank Lampard og Ricardo Carvalho.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Traore, Gerrard, Hamann, Sissoko, Riise (Kewell 60. mín.), Crouch (Morientes 68. mín.) og Garcia ( Pongolle 80.mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Cisse, Josemi og Warnock.

Gult spjald: Djimi Traore.

Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.598.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn var hreint frábær í hjarta varnarinnar. Það var alveg sama hvað leikmenn Chelsea reyndu. Sami leysti hverja þraut af miklu öryggi og dæmigerðri yfirvegun. 

Jákvætt :-) Liverpool vann riðilinn í Meistaradeildinni. Enn náði liðið að hafa betur gegn Chelsea í Evrópuleik. Liðsheildin var hreint frábær. Allir leikmenn Evrópumeistaranna börðust eins og ljón og þeir héldu líka yfirvegun sinni frá upphafi til enda leiksins. Vörn Evrópubikarsins heldur áfram á næsta ári!

Neikvætt :-(  Tækling Michael Essien á Dietmar Hamann er ein sú versta sem maður hefur séð lengi. Það var með ólíkindum að dómarinn eða aðstoðarmenn hans skyldu ekki sjá hana. Það var í raun ótrúlegt að Dietmar skyldi geta gengið, hvað þá spilað allan leikinn, eftir þessa tæklingu.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Heimamenn byrjuðu þennan meistaraslag af meiri krafti og Jose Reina varði frábærlega gott langskot frá Frank Lampard snemma leiks. Eftir því sem leið á hálfleikinn náðu Evrópumeistararnir betri tökum á leiknum og Steven Gerrard átti skot sem fór rétt framhjá. Um miðjan hálfleikinn hitnaði í kolunum þegar Michael Essien braut á Dietmar Hamann. Þjóðverjinn var heppinn að slasast ekki alvarlega þegar skósóli Michael hafnaði á hnéi hans. Það vakti undrun og reiði manna í herbúðum Liverpool að Michael skyldi ekki vera refsað fyrir þetta hroðalega brot. Í raun hefði átt að reka hann af velli án frekari málalenginga. Leikurinn harnaði eftir þetta og nokkrar harðar tæklingar komu í kjölfarið. John Arne Riise fékk gullið færi eftir um hálftíma leik. Steven Gerrard gaf á hann. Norðmaðurinn komst í gegn og í gott skotfæri en Petr Cech varði með góðu úthlaupi. Arjen Robben átti skot í hliðarnetið snemma í síðari hálfleik. Eftir þetta gaf hvorugt lið færi á sér. Englands- og Deildarbikarmeistararnir reyndu að herja á Evrópu- og Stórbikarmeistarana en þeir léku af skynsemi og öryggi. Þeir Sami Hyypia og Jamie Carragher voru frábærir í hjarta varnarinnar og liðsheildin var gríðarlega sterk. Í markinu stóð Jose Reina vaktina og hélt markinu hreinu níunda leikinn í röð. Það þurfti því ekki að koma á óvart að hvorugt liðið hafði náð marki þegar flautað var til leiksloka. Það voru úrslit sem dugðu til að halda efsta sæti riðilsins!TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan