| Sf. Gutt

Dietmar slapp vel

Eitt aðalumræðuefnið eftir Englandsorrustuna í gærkvöldi var hin hrottalega tækling Michael Essien á Dietmar Hamann. Það er langt síðan önnur eins tækling hefur sést. Þjóðverjinn lá eftir og það þarf mikið til að Didi standi ekki strax upp. Það voru ekki margir, sem til sáu, sem töldu að Keisarinn gæti haldið áfram. Sjálfur óttaðist hann fyrst að hann hefði fótbrotnað.

"Ég var að reyna að ná boltanum. Ég held að hann hafi misst af boltanum og lent á mér rétt neðan hnésins. Dómarinn sá ekki atvikið og það þýðir ekki að fást um það. Ég óttaðist virkilega að ég hefði fótbrotnað. Sem betur fer slapp ég með slæmt mar. Þegar svona gerist þá verður maður að halda einbeitingu sinni. Við vorum að leika vel og höfðum stjórn á leiknum. Við náðum svo þeim úrslitum sem til þurfti til að vinna riðilinn og það var mikilvægt. Maður má ekki láta svona á sig fá. Það þýðir ekkert annað en að fara að huga að næsta leik og sjá svo um að gott gengi liðsins haldi áfram. Þetta var versta tækling sem ég hef orðið fyrir og hann baðst ekki einu sinni afsökunnar eftir leikinn."

Rafel Benítez varð mjög reiður þegar hann sá þessa tæklingu. "Ég sá þessa tæklingu. Hún átti sér stað fyrir framan varamannabekkinn. Ég sá líka fótinn á Didi Hamann. Það geta allir séð hvað gerðist á myndbandi. Kannski var Dietmar Hamann heppinn að geta haldið áfram að taka þátt í leiknum. Mín skoðun fer ekki á milli mála en ég vel að tjá mig ekki meira um þetta. Mér finnst Jose tala býsna mikið. Hann sagði hvað honum fannst en ég vil ekki ræða þetta. Það þarf ekki að ræða fram og aftur um augljósa hluti."

Jose Mourinho á það reyndar sameiginlegt með dómara leiksins og aðstoðarmönnum hans að hann sá ekki umrædda tæklingu! Samt hlýtur Jose að hafa verið staðsettur á svipuðum slóðum við hliðarlínuna og Rafael Benítez! Hvað um það. Fyrir mestu var að Dietmar Hamann skyldi ekki stórslasast.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan