| SSteinn

Djibril Cissé þaggaði niður í sumum

Djibril Cissé var Liverpool liðinu heldur betur mikilvægur í gær, þegar hann tryggði liðinu þrjú stig í leiknum gegn Blackburn.  Hann var afar sáttur með það og var ennþá sáttari að geta þaggað niður í stuðningsmönnum Blackburn.  Það vakti líka mikla athygli að hann skyldi hlaupa rakleitt til Rafa Benítez og taka í hendina á honum, þakkaði formlega traustið.

Djibril Cissé:  "Ég hljóp yfir völlinn til að taka í hendina á stjóranum til að senda ákveðin skilaboð og sýna öllum að það sé ekkert vandamál á milli mín og framkvæmdastjórans.  Ég vildi sýna stuðningsmönnunum að samband okkar er eðlilegt.  Það mikilvægasta var að ná í þrjú stig, því  við erum ekki í nógu góðri stöðu.  Ég vil bara fyrst og fremst að þessar vangaveltur hætti, sem snúa að vandamálum sem eiga að vera á milli mín og stjórans og á milli mín og félagsins.  Ég er ánægður hérna og af hverju í ósköpunum ætti ég að vilja fara?

Það sást hvernig stuðningsmennirnir brugðust við mér.  Þú finnur ekki svona stuðningsmenn annars staðar í heiminum, þannig að ég veit ekki af hverju fólk er að tala um það að ég vilji fara héðan.  Ég vil að þetta hætti núna og vil fara að einbeita mér að því að vinna fyrir félagið.  Besta leiðin er að halda áfram að skora mörk, ég hef átt ágætt tímabil hingað til þegar kemur að mörkum, en við þurfum fleiri stig því við viljum ekki vera í 12 eða 13 sæti.  Þegar ég kom aftur frá Frakklandi þá töluðum við bara saman á venjulegan hátt sem leikmaður og framkvæmdastjóri og við töluðum ekkert um það sem hafði áður verið sagt.  Það eru aðrir og mikilvægari hlutir sem menn tala um.

Stuðningsmenn Blackburn voru að syngja "Cissé glerfótur".  Ég var mjög reiður eftir það og vildi bara skora vegna þessara heimsku stuðningsmanna.  Og ég vildi líka þakka stuðningsmönnum Liverpool stuðninginn við mig eftir þetta.  Markið var mjög mikilvægt fyrir mig vegna þess að ég brotnaði illa gegn Blackburn á síðasta tímabili.  Ég er mjög ánægður með mörkin sem ég hef verið að skora og ég á ekki í neinum vandamálum tengdum stjóranum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan