| Sf. Gutt

Hroðalegt tap

Liverpool mátti þola hroðalegt tap 1:4 fyrir Chelsea á Anfield Road í dag. Reyndar var tapið allt of stórt miðað við gang leiksins en það er engu að síður sár staðreynd.

Leikmenn voru varkárir lengi framan af leik. Ef eitthvað var þá var Liverpool sterkari aðilinn en marktækifæri voru vart til að tala um. En á 27. mínútu náði Chelsea forystunni upp úr þurru. Djimi Traore missti þá Didier Drogba inn fyrir sig og braut svo klaufalega á honum inni í teig. Frank Lampard skoraði úr vítaspyrnunni en Jose Reina var mjög nærri því að verja spyrnuna. Liverpool gaf ekkert eftir og níu mínútum seinna náði Steven Gerrard að jafna metin. John Arne Rise tók hornspyrnu. Jamie Carragher skallaði boltann lengra fyrir þar sem Steven tók hann viðstöðulaust og hamraði hann í markið.  Þá leit allt vel út og jafnvel var útlit á að Liverpool næði yfirhöndinni. En slæm mistök tveimur mínútum fyrir leikhlé settu strik í þann reikning. Didier Drogba lék þá á Sami Hyypia og kom boltanum á Damien Duff sem skoraði úr þröngri stöðu. Það var verulega vont að fá þetta mark í andlitið rétt fyrir hálfleik.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti en sem fyrr gekk lítið að opna vörn gestanna. Róðurinn varð verulega þungur þegar gestirnir komust í 1:3 á 63. mínútu. Enn var Didier Drogba til vandræða. Hann komst upp að markinu og kom boltanum fyrir markið þar sem Joe Cole skoraði af öryggi fyrir opnu marki. Þeir John Arne Riise og Peter Crouch komust næst því að skora en góð skot þeirra fóru rétt yfir. Þeim Mohamed Sissoko og Florent Sinama Pongolle var skipt inn á en það var óskiljanlegt að Djibril Cissé skyldi ekki vera settur fyrr inn á völlinn. Hann er næst markahæsti maður liðsins og Liverpool var 3:1 undir á heimavelli. Samt liðu næstum tuttugu mínútur, eftir þriðja mark Chelsea, áður en Frakkinn kom loksins til leiks þegar níu mínútu voru eftir. Mínútu síðar var leikurinn endanlega tapaður þegar Geremi skoraði óvaldaður á fjærstöng.

Stórt tap var staðreynd. Þrátt fyrir að þetta fyrsta tap í deildinni, á þessari leiktíð, væri of stórt þá var þetta mjög slæmt tap. Það furðulega var að lengi vel lék Liverpool vel og í raun komu öll mörkin eftir mjög klaufaleg varnarmistök. Þrjú mörk komu til dæmis eftir skyndisóknir. Vörnin sem er búin að vera svo góð á leiktíðinni brást illilega. Eins veldur það áhyggjum að sóknarmenn liðsins komast varla í marktækifæri. En Chelsea sýndi styrk sinn svo ekki verður um villst. Liverpool er nú í þrettánda sæti og þetta mun vera versta byrjun liðsins í deildinni í þrettán leiktíðir. Það dugar ekki annað en að setja þunga í málið þegar deildin hefst á nýjan leik eftir landsleikjahrotuna sem framundan er.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia (Pongolle 71. mín.), Traore (Cisse 81. mín.), Hamann (Sissoko 68. mín.), Garcia, Gerrard, Alonso, Riise og Crouch. Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.

Markið: Steven Gerrard (36. mín.).

Gult spjald: Jamie Carragher.

Chelsea: Cech, Carvalho, Terry, Gallas, Del Horno (Huth 83. mín.), Makelele, Joe Cole (Robben 67. mín.), Lampard, Essien, Duff (Geremi 76. mín.) og  Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini og Crespo.

Mörkin: Frank Lampard, víti, (27. mín.), Damien Duff (43. mín.), Joe Cole (63. mín.) og Geremi (82. mín). 

Gul spjöld: Joe Cole, Frank Lampard og Didier Drogba.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.235.

Rafael Benítes skildi ekkert í því hvernig liðið hans fór að tapa svona stórt. "Það er ótrúlegt að við höfum tapað þessum leik 4-1. VIð stjórnuðum fyrstu 25 mínútunum og áttum góða leikkafla. Ég var ánægður með þann hluta leiksins. Mín skoðun er sú að þetta sé bara einn tapleikur og allir skynsamir menn hljóta að líta þannig á það. Markatalan skiptir ekki máli. Þetta er bara einn leikur. og nú þurfum við að horfa fram á við. Þessi leikur er búinn og við þurfum að huga að næsta leik."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan