| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Síðast var það Englandsrimma nú er það bara venjulegur deildarleikur. Það eru að minnsta kosti bara þrjú stig í boði fyrir sigur á morgun eins og alla aðra deildarleiki. En vísast er meira undir. Í annað skipti á fimm dögum hlaupa leikmenn Liverpool og Chelsea til leiks á Anfield Road. Það sem meira er þetta er sjötta viðureign liðanna á árinu. Það hefur vart mátt á milli sjá það sem af er og ekki þarf að búast við öðru en jöfnum leik á morgun.

Liverpool var nær sigri í Englandsrimmunni á miðvikudagskvöldið. Sigur hefði fengist á stigum ef um hefði verið að ræða hnefaleikakeppni. En þó einn leikmanna Chelsea hafi notað aðra hendina þá var þetta knattspyrna en ekki hnefaleikar. Jafnteflið fyrr í vikunni markaði fyrsta leik leiktíðarinnar sem Chelsea nær ekki að vinna. Eins var þetta fyrsti leikurinn sem liðið nær ekki að skora í. Á morgun fær Liverpool tækifæri á að vera fyrsta liðið á leiktíðinni til að leggja ensku meistarana að velli. Það er verðugt viðfangsefni. Auðvitað verður það erfitt en Liverpool verður að leika til sigurs eins og liðið gerði á miðvikudagskvöldið. Þegar þetta er skrifað er Liverpool í þrettánda sæti deildarinnar og það er ljóst að úr þeirri stöðu þarf að bæta. Vissulega myndi staðan batna mikið við sigur á morgun. Ég held að það myndi hjálpa mikið til að tefla tveimur sóknarmönnum fram og þá meina ég í sókninni!

Báðir framkvæmdastjórarnir eiga að hafa sína bestu menn leikfæra á morgun. Mohamed Sissoko verður líklega tilbúinn til leiks eftir að hafa misst af tveimur síðustu leikjum. Að auki eru taldar líkur á að Fernando Morientes verði búinn að ná sér af meiðslum sem hafa hrjáð hann síðustu vikurnar. Það þarf ef til vill ekki að búast við miklu af honum því hann er ekki í neinni leikæfingu. Eins er Harry Kewell á batavegi og hann spilaði með varaliðinu í vikunni. Spurningin er einungis sú hvaða breytingar Rafael Benítez gerir á liðinu frá því á miðvikudagskvöldið.

Mark Lawrenson er búinn að spá oft rétt um leiki Liverpool á leiktíðinni. Ástæðan er fyrst og fremmst sú að hann er oft búinn að spá Liverpool jafntefli. Sem stendur eru Liverpool og Chelsea einu liðin í Úrvalsdeildinni sem ekki hafa tapað leik. Við vonum að Mark hafi ekki rétt fyrir sér með spá sína og Liverpool verði eina taplausa liðið í deildinni þegar flautað verður til leiksloka á Anfield Road síðdegis á morgun.

Liverpool v Chelsea

Ég held að þessum leik muni ljúka með jafntefli eins og flestum leikjum þessara liða. Ég held að leiknum muni ljúka 1:1 því liðin þekkja hvort annað svo vel. Leikir milli liðanna eru oftast ekki mjög skemmtilegir því venjulega fá leikmenn lítið pláss og lítinn frið inni á vellinum. Þó svo að nokkrir nýir leikmenn hafi gengið til liðs við liðin þá hef ég ekki trú á að það beri mikið á milli liðanna.

Úrskurður: 1-1.

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan