| Sf. Gutt

Þar komu mörkin

Þar komu mörkin loksins. En það var ekki ánægja með þau öll. Liverpool gerði 2:2 jafntefli við Birmingham á St Andrews en Evrópumeistararnir áttu að vinna leikinn. Eftir að hafa komist yfir gerði liðið tvívegis slæm mistök í vörninni sem kostuðu mörk. Liverpool náði að jafna og undir lokin hefði sigur átt að nást . En það tókst ekki og þriðja jafnteflið í röð, í deildinni, varð staðreynd. Liverpool er því enn fyrir neðan miðja deild. Það er ekki nógu góð staða þó svo liðið eigi tvo leiki til góða. Reyndar er mjög jákvætt að liðið sé ósigrað og skal ekki dregið úr því. 

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Um miðjan hálfleikinn varði Jose Reina þó vel frá Emile Heskey sem komst einn gegn honum. Liverpool svaraði með glæsiskoti fyrirliðans sem hafnaði í stönginni. Boudewijn Zenden átti svo skot rétt framhjá. Liverpool var sterkari aðilinn í hálfleiknum en sóknarleikurinn gekk ekki of vel fyrir sig og Peter Crouch fékk úr litlu að moða einn frammi.

Það færðist mikið fjör í leikinn eftir leikhlé. Heimamenn mættu grimmir til leiks og léku betur en í fyrri hálfleik. En sem fyrr var Liverpool sterkari aðilinn. Steven Gerrard skaut yfir eftir frábæra rispu og svo varði Norður írski landsliðsmarkvörðurinn Maik Taylor skot frá Stephen Warnock eftir góða rispu bakvarðarins. Rafael skipti Luis Garcia inn eftir klukkustundar leik. Spánverjinn launaði fyrir sig með marki átta mínútum síðar. Hann skoraði þá örugglega úr teignum eftir góða sendingu frá Steven Gerrard. Var það fyrsta deildarmark Liverpool frá því í fyrri hálfleik gegn Sunderland þann 20. ágúst. Miðað við gang leiksins hefði mátt álíta að Liverpool hefði nú leikinn í sínum höndum því heimamenn höfðu varla ógnað marki Liverpool. En tvö slæm varnarmistök á þremur mínútum sneri leiknum við. Fyrst varð Stephen Warnock fyrir því óláni að skora sjálfsmark með því að reka höfuðið í boltann eftir fyrirgjöf frá Julian Gray á 72. mínútu. Þremur mínútum seinna varði Jose Reina skalla en missti boltann frá sér. Varamaðurinn Water Pandiani náði frákastinu og kom boltanum í markið af stuttu færi. Reyndar var Steven Gerrard nærri búinn að skora áður en heimamenn komust yfir. En eftir að Birmingham skoraði hóf Liverpool linnulausa sókn að marki Birmingham. Eitthvað hlaut undan að láta. Á 84. mínútu átti Jamie Carragher skalla sem fór í þverslána niður og stefndi í kjölfarið í markið. Neil Kilkenny sló boltann frá á marklínunni og var rekinn út af fyrir bragðið. Djibril Cissé tók vítaspyrnuna sem dæmd var og skoraði af öryggi sitt sjöunda mark á leiktíðinni. Heimamenn voru svo í nauðvörn þar til dómarinn flautaði af. Peter Crouch hefði tvívegis getað tryggt verðskuldaðan sigur. Fyrri skallinn fór yfir en þeim seinna var bjargað á marklínu.

Niðurstaðan var vonbrigði. Mörkin tvö sem Liverpool skoraði voru kærkomin en upp úr þurru fengu heimamenn tvo mörk á silfurfati. Miðað við gang leiksins átti Liverpool sigurinn skilinn en fjórða jafnteflið í fimm leikjum er orðið fullmikið af slíku. Nú þarf að fara breyta jafnteflum í sigur. Næstu tveir leikir eru gegn Englands- og Deildarbikarmeisturum Chelsea. Þá munu engin vettlingatök duga.

Birmingham: Maik Taylor, Melchiot, Cunningham, Upson, Clapham, Pennant, Johnson, Kilkenny, Gray, Forssell (Pandiani 73. mín.), Heskey (Tebily 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Vaesen, Martin Taylor og Lazaridis.

Mörkin: Stephen Warnock sm. (72. mín.) og Walter Pandiani (75. mín.).

Rautt spjald: Neil Kilkenny (84. mín.).

Gul spjöld: Jamie Clapham og Kenny Cunningham.

Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Warnock, Sinama Pongolle (Garcia 60. mín.), Alonso, Hamann (Riise 79. mín.), Gerrard, Zenden (Cisse 68. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Carson og Finnan.

Mörk: Luis Garcia (68. mín.) og Djibril Cisse víti (85. mín.)

Gul spjöld: Florent Sinama Pongolle, Luis Garcia og Stephen Warnock.

Áhorfendur á St Andrews: 27.733.

Rafael Benítez var ekki sáttur með niðurstöðuna. ,,Við töpuðum tveimur stigum hérna þrátt fyrir að stjórna leiknum. Eftir að við jöfnuðum 2:2 úr vítaspyrnunni fengum við þrjú opin færi til að vinna leikinn. Það eru ekki bestu úrslitin að gera jafntefli á útivelli en það eru ekki heldur þau verstu og okkur er að fara fram. Það mikilvægasta er að gera liðið stöðugra.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan