| Sf. Gutt

Þrjú stig í höfn

Það gleðilegasta við sigurinn á Sunderland í gær voru stigin þrjú sem unnust. Liverpool vann öruggan sigur en munurinn gat ekki verið minni. Byrjun leiksins tafðist um stundarfjórðung. Ástæðan var sú að ársmiðahafar Liverpool fóru í fyrsta sinn í gegnum nýtt kerfi. Í því kerfi er lesið vélrænt af sérstökum aðgangskortum. Eitthvað tók það lengri tíma en reiknað hafði verið með. Það kom ekki að sök því áhorfendur nutu veðurblíðunnar á meðan beðið var eftir að leikurinn hæfist. Leikvanguinn var troðfullur þegar leikurinn hófst.

Liverpool tók leikinn strax í sínar hendur og sóknin að marki Svörtu kattanna var linnulítil. Gestirnir höfðu greinilega hleypt hörku í sig, eftir slæmt tap í fyrstu umferðinni á heimavelli gegn Charlton, og börðust vel. Steven Gerrard átti fyrirgjöf sem hafnaði í stönginni og þeir Fernando Morientes og Djibril Cisse fengu góð færi að koma Liverpool yfir en þeim tókst ekki að skora. Xabi Alonso kom Liverpool yfir á 24. mínútu þegar hann skoraði með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Boltinn hafnaði alveg út við stöng. Líklega áttu flestir stuðningsmenn Liverpool von á að þetta yrði fyrsta markið af mörgum. En svo varð ekki.

Yfirburðir Liverpool héldu áfram eftir leikhlé. Eina áhyggjuefni Liverpool var að Steven Gerrard varð að yfirgefa leikvöllinn vegna meiðsla eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. Þrátt fyrir stöðuga sókn gekk leikmönnum Liverpool illa að skapa sér opin marktækifæri til að gera út um leikinn. Markvörður gestanna hafði í raun lítið að gera. Bestu marktilraunir Liverpool, frá þeim Djibril Cisse, John Arne Riise og Luis Garcia, fóru yfir markið. Djibril Cisse var þó óheppinn þegar löglegt mark var dæmt af honum vegna rangstæðu. Liverpool gekk ekkert betur að opna vörn Sunderland eftir að Andy Welsh var rekinn út af stundarfjórðungi fyrir leikslok. Var sá dómur full strangur að mínu mati. Eitt mark er alltaf lítil forysta og þótt leikmenn Sunderland ógnuðu marki Liverpool ekki þá var sigurinn ekki öruggur fyrr en flautað var til leiksloka. Þrjú stig í höfn og fyrsti deildarsigur leiktíðarinnar staðreynd. Það var það besta við leikinn. 

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock, Sissoko, Alonso, Gerrard (Garcia 55. mín.), Zenden (Riise 63. mín.), Morientes og Cisse (Baros 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.

Gul spjöld: Steven Gerrard og Mohamed Sissoko.

Markið: Xabi Alonso (24. mín.). 

Sunderland: Davis, Nosworthy, Breen, Stubbs, Arca, Lawrence (Elliott 66. mín.), Miller, Whitehead, Robinson (Woods 81. mín.), Welsh og Gray (Brown 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Caldwell og Joe Murphy.

Rautt spjald: Andy Welsh (74).

Gul spjöld: Breen, Robinson og Nosworthy.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.913.

Rafael Benitez var nokkuð ánægður eftir leikinn: ,,Ég er ánægður með úrslitin því þau gáfu þrjú stig. Við byrjuðum vel, sköpuðum mörg færi og Xabi skoraði frábært mark úr aukaspyrnu. Við þurftum að skora annað mark en náðum því ekki. Það gaf Sunderland meira sjálfstraust og þeir settu svolitla pressu á okkur án þess að skapa sér opin færi. Við lékum ekki eins liðlega og ég hefði viljað en ég er ekki mjög áhyggjufullur út af færunum sem sóknarmmennirnir misnotuðu. Við hefðum getað skorað þrjú eða fjögur mörk en þetta gerist stundum." 
 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan