| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Ólán á Árbakka. Þetta er leikur Liverpool og Middlesborough í hnotskurn.

- Fyrsti deildarleikur Liverpool á leiktíðinni.

- Liverpool hefur leikið samfellt í efstu deild frá leiktíðinni 1962/63.

- Þeir Jose Reina, Mohamed Sissoko og Boudewijn Zenden léku sína fyrstu deildarleiki með Liverpool.

- Milan Baros lék sinn fyrsta leik á leiktíðinni. En var það hans síðasti leikur með Liverpool?

- Boudewijn Zenden spilaði sinn fyrsta leik með Liverpool á sínum gamla heimavelli. Hann var á mála hjá Middlesbrough í tvær leiktíðir.

- Gömlu stuðningsmenn hans tóku kuldalega á móti honum og lengst af leiksins var baulað á hann í hvert sinn sem hann fékk boltann. Þeir virtust vera búnir að gleyma því að Hollendingurinn tryggði Boro sinn fyrsta titil þegar hann skoraði sigurmarkið í 2:1 sigri á Bolton í Deildarbikarúrslitaleiknum 2004!

- Líkt og leiktíðina 1977/78 var fyrsti deildarleikur leiktíðarinnar hjá Liverpool útileikur við Middlesbrough. Eins og núna þá sótti Liverpool Middlesbrough heim sem Evrópumeistarar. Þá skildu liðin líka jöfn. Kenny Dalglish skoraði þá fyrsta mark sitt fyrir Liverpool í 1:1 jafntefli. Sá leikur var á Ayresome Park gamla heimavelli Middlesbrough.

- Liðin mættust líka í fyrstu umferð leiktíðina 1996/97. Eins og núna skildu liðin líka jöfn. Jafntefli varð 3:3 í mjög skemmtilegum leik.

- Það skal engan undra að Steven Gerrard var valinn í lið helgarinnar á vefsíðu BBC. Annar leikmaður Liverpool var líka í liðinu. Það var Chris Kirkland sem stóð sig með miklum sóma í marki W.B.A. gegn Manchester City. Chris hélt hreinu í markalausu jafntefli.

- Leikmenn Middlesbrough réðu ekkert við Steven Gerrard. Hinn reyndi varnarmaður þeirra Gareth Southgate sagðist á tímabili hafa átt von á því að Steven færi að skalla sínar eigin fyrirgjafir í markið!

Middlesborough: Schwarzer; Reiziger, Ehiogu, Southgate, Queudrue; Mendieta (Nemeth 65. mín.), Boateng, Parlour, Downing; Yakubu (Bates 75. mín.) og Hasselbaink (Viduka 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones og Doriva.

Gul spjöld: Ray Parlour og Franc Queudrue.

Rautt spjald: Ugo Ehiogu.

Liverpool: Reina; Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock; Alonso; Garcia (Cisse 58. mín.), Gerrard, Sissoko, Zenden og Morientes (Baros 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Whitbread og Riise.

Gul spjöld: Xabi Alonso, Luis Garcia og Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á Riverside: 31.908.

Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Steven Gerrard fór hamförum. Hann var mjög óheppinn að bæta ekki við þau sjö mörk sem hann er búinn að skora á leiktíðinni. Eigi sjaldnar en sex sinnum var hann nærri því að skora og varnarmenn heimamanna réðu ekkert við hann. Enn einn stórleikur fyrirliðans á þessu sumri.

Jákvætt :-) Liverpool einokaði síðari hálfleikinn og átti ekkert minna skilið en að vinna leikinn. Steven Gerrard fór hamförum. Mohamed Sissoko lék mjög vel og sýndi að hann á eftir að gagnast liðinu vel á leiktíðinni. 

Neikvætt :-( Ég hélt að það væri nú fullreynt með að láta einn mann spila í sókninni á útivöllum.  Þetta var reynt hvað eftir annað á síðustu leiktíð og gaf lítið af sér. Það hefði átt að bæta manni í sóknina þegar ljóst var að Liverpool hafði öll völd á vellinum. Ólán Steven Gerrard uppi við markið var gremjulegt.

Umsögn Liverpool.is um leikinn:  Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill. Steven Gerrard fékk besta færið en hann skaut rétt yfir eftir að Fernando skallaði boltann til hans. Liverpool tók smá saman völdin á vellinum eftir leikhlé. Yfirburðir þeirra voru algerir á lokakaflanum sérstaklega eftir að Ugo Ehiogu var rekinn út af á 74. mínútu. Hann fékk reisupassann eftir hafa klippt Steven Gerrard niður þegar hann var að sleppa einn í gegn. Steven Gerrard fékk marktækifæri á færibandi. Hann átti fjórar mjög góðar marktilraunir. En lánið lék ekki við fyrirliðann og hann náði ekki að skora. Niðurstaðan varð því markalaust jafntefli og heimamenn gengu sáttari af leikvelli. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan