Mohamed tryggði sigur!
Það er ekkert alveg nýtt að Mohamed Salah tryggi Liverpool sigur. Það gerði hann með tveimur mörkum þegar Liverpool vann Southampton 2:3 á útivelli í fjörugum leik.
Síðasta landsleikjahléi ársins lauk um miðja vikuna. Liverpool mætti til leiks í Southampton í strekkingi og rigningu. Liðsuppstillingin kom ekkert sérstaklega á óvart. Suður Ameríkumennirnir voru báðir varamenn. Það var ekki óvænt því Luis Díaz og Alexis Mac Allister voru að koma úr löngu ferðalagi. Gleðilegt var að sjá Harvey Elliott meðal varamanna en hann er búinn að vera frá vegna fótbrots frá því snemma í haust.
Liverpool fékk fyrsta færið eftir rúmlega fimm mínútur. Mohamed Salah átti skot eftir hraða sókn en Alex McCarthy varði í horn. Á 21. mínútu átti Liverpool aftur gott færi. Cody Gakpo gaf fyrir frá vinstri. Varnarmenn misstu boltann yfir sig og Mohamed fékk hann við fjærstöng en aftur varði Alex. Rétt á eftir braut Adam Lallana illa af sér og hefði í raun átt að fá rautt en hann slapp með gult. Á 26. mínútu náði Liverpool enn hröðu upphlaupi. Cody endaði sóknina með skoti sem Alex varði vel neðst í vinstra horninu.
Liverpool komst svo yfir eftir sléttan hálftíma. Alex lék boltanum frá marki sínu eftir markspyrnu. Allt fór í handaskolum í vörninni og varnarmaður gaf beint á Dominik Szoboszlai Ungverjinn þakkaði gott boð og skoraði í vinstri stöngina og inn frá vítateignum. Vel gert hjá Ungverjanum!
Þremur mínútum seinna ógnaði Southampton í fyrsta sinn. Flynn Downes, sem hafði átt sendinguna á Dominik, fékk boltann í vítateignum upp úr horni og náði föstu skoti en henti sér niður og gerði vel í að verja í horn. Heimamenn náðu svo að jafna á 42. mínútu. Virgil van Dijk ætlaði að brjótast fram völlinn en missti boltann. Andrew Robertson felldi leikmann Southampton sem var að sleppa í gegn og dæmt var víti. Ekki varð betur séð en að leikmaðurinn hefði verið utan teigs þegar Andrew felldi hann en dómarinn staðfesti dóminn eftir skoðun í sjónvarpinu. Adam Armstrong tók vítið og þrumaði boltanum en Caoimhin Kelleher varði. Hann náði því miður ekki að halda boltanum og Adam kom frákastinu í markið. Heppnin með Southampton. Bæði að fá vítið og eins að skora. Þar með var jafnt í hálfleik en Liverpool hefði átt að leiða miðað við gang leiksins.
Liverpool missti forystuna rétt fyrir hlé og enn versnaði staðan á 56. mínútu. Heimamenn náðu hraðri sókn og vörn Liverpool var ekki samstíga. Adam fékk boltann og lék framað teignum. Hann renndi boltanum svo fyrir markið á Mateus Fernandes sem skoraði með öruggu skoti neðst í vinstra hornið. Neðsta liðið komið yfir gegn því efsta!
Arne Slot beið ekki boðanna og sendi Suður Ameríkumennina til leiks, á 62. mínútu, í stað Curtis Jones og Cody. Rétt á eftir lék Darwin fram hægri kantinn og gaf fyrir á Luis en hann náði ekki til boltans á markteignum. En á 65. mínútu hafnaði boltinn í marki Southampton upp úr þurru. Ryan Gravenberch fékk boltann á sínum vallarhelmingi. Hann lék fram undir miðjuna, leit upp og sendi svo langa sendingu fram í vítateig Southampton. Alex kom út úr markinu en misreiknaði sig hroðalega. Hann komst aldrei í boltann en það gerði Mohamed sem renndi boltanum í autt markið! Hrikaleg mistök hjá Alex í markinu en Mohamed sýndi enn snilli sína með því að vera réttur maður á réttum stað!
Þremur mínútum seinna átti Luis góðan skalla eftir horn en Alex sló boltann yfir. Eftir hornið var mikill barningur. Ryan fékk boltann uppi við markið en náði ekki að stýra honum í markið.
Liveprool sótti linnulaust en heimamenn vörðust af öllu afli. En sjö mínútum fyrir leikslok fékk Liverpool víti eftir að varnarmaður hendlék boltann. Enginn vafi um vítið. Mohamed tók það og skoraði með föstu skoti yfir Alex sem henti sér til vinstri. Liverpool komið yfir!
Liverpool náði skyndisókn rétt á eftir. Mohamed komst inn í vítateiginn en skaut yfir. Hann hefði líka getað gefið því tveir félagar hans fylgdu honum. Mohamed ógnaði aftur þegar tvær mínútur voru eftir. Boltinn féll fyrir fætur hans í markteignum. Hann skaut að marki en boltinn small í innanverðri stönginni og fór þvert fyrir markið við marklínuna.
Þó Mohamed hafi ekki tekist að innsigla sigurinn í þessi tvö skipti landaði Liverpool sigrinum. Um tíma leit út fyrir að neðsta liðið myndi skáka því efsta en svo varð ekki!
Liverpool spilaði vissulega ekki sérstaklega vel. En liðið lék samt vel og hafði yfirburði í leiknum. Það var líka mjög sterkt að snúa tapstöðu í sigur!
Southampton: McCarthy, Stephens, Downes, Harwood-Bellis, Fraser (Sugawara 77. mín.), Walker-Peters, Armstrong (Archer 77. mín.), Lallana (Aribo 37. mín.), Fernandes, Dibling og Onuachu (Ugochukwu 52. mín.). Ónotaðir varamenn: Bree, Brereton, Lumley, Manning og Sulemana.
Mörk Southampton: Adam Armstrong (42. mín.) og Mateus Fernandes (56. mín.).
Gul spjöld: Adam Lallana, Adam Armstrong og Jack Stevens.
Liverpool: C. Kelleher, Robertson, van Dijk, Konaté, Bradley, Jones (Mac Allister 62. mín.), Gravenberch, Gakpo (Díaz 62. mín.), Szoboszlai, Salah og Núnez (Endo 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Jaros, Davies, Elliott, Gomez, Morton og Quansah.
Mörk Liverpool: Dominik Szoboszlai (30. mín.) og Mohamed Salah (65. og 83. mín. ,víti,).
Gul spjöld: Conor Bradley, Ibrahima Konaté, Cody Gakpo og Mohamed Salah.
Áhorfendur á St Mary´s: 31.278.
Maður leiksins: Mohamed Salah fór á kostum eina ferðina enn. Hann tryggði Liverpool sigur eftir að Liverpool lenti undir með tveimur mörkum. Maðurinn er einstakur í sinni röð!
Arne Slot: ,,Það er of mikið að segja að við séum í skýjunum en við erum mjög ánægðir. Sérstaklega af því við lentum tvö eitt undir."
Fróðleikur
- Dominik Szoboszlai skoraði í annað sinn á keppnistímabilinu.
- Mohamed Salah er nú kominn með 12 mörk á sparktíðinni.
- Þetta var 100. markið sem Moahmed skorar fyrir Liverpool á útivelli.
- Aðeins Ian Rush og Roger Hunt hafa skoraði meira en 100 útimörk í sögu Liverpool.
- Þetta var 50. deildarsigur Liverpool á Southampton í sögunni.
-
| Sf. Gutt
Af samningamálum Mohamed Salah -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Grannarimmunni frestað! -
| Sf. Gutt
Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park! -
| Sf. Gutt
Jafntefli í ótrúlegum leik! -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Nýt hverrar mínútu hérna! -
| Sf. Gutt
Darwin tryggði sigur í blálokin! -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Uppskrift að Evrópukvöldi!