| Sf. Gutt

Liverpool Football Club á afmæli í dag!


Hvernig væri að baka eina rjómatertu og skella 132 afmæliskertum á hana í tilefni dagsins? Það er reyndar kannski svolítið erfitt að koma svo mörgum kertum fyrir á einni tertu. Það verður bara að hafa tertuna mikla og stóra. Liverpool Football Club á nefnilega afmæli í dag!

Everton Football Club, sem var stofnað árið 1878, hafði leikið á Anfield Road frá árinu 1884. Forráðamönnum félagsins þótti leigan, sem þeir borguðu fyrir afnot af vellinum of há, og þann 12. mars 1892 var haldinn fundur um málið.
Forsvarsmenn Everton neituðu að borga uppsetta leigu til vallareigandans og hættu þar með að leika á Anfield Road. Sem betur fer! 

Þann 15. mars var aftur haldinn fundur þar sem eigandi Anfield Road John Houlding ákvað, ásamt nokkrum öðrum stuðningsmönnum sínum, að stofna knattspyrnufélag til að leika á Anfield. Félagið sem John og samstarfsaðilar hans stofnuðu hlaut nafnið Liverpool Association Football Club. Fáir hafa unnið gagnlegri verk hvað knattspyrnu varðar! 

Það var svo föstudaginn 3. júní 1892 sem knattspyrnufélagið Liverpool Football Club var skrásett hjá opinberum yfirvöldum. Þar með var félagið formlega stofnað og gat hafið starfsemi. The Liverpool Football Club and Athletic Grounds Company Limited var nafn félagsins. Það er því svo að 3. júní er opinber afmælisdagur félagsins okkar þó svo að 15. mars sé auðvitað líka lykildagur í sögunni því þá var tekin ákvörðun um stofnun félagsins. 

Í tilefni 130 ára afmæli Liverpool F.C. var birt skemmtilegt afmælismyndband. Það má horfa á myndbandið hér!

Til hamingju með afmælið!

YNWA!








TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan