| HI

Aftur niður á við

Vonirnar sem vöknuðu við sigurinn á Fulham um helgina slokknuðu snarlega þegar Liverpool lá verðskuldað fyrir grönnunum í Everton í gærkvöld, 2-0.

Það má segja að viðvörunarbjöllur hafi farið að hringja strax í upphafi leik. Fyrst komst Doucoure í góða stöðu eftir fyrirgjöf en misreiknaði sig og sendi boltann yfir, og síðan var dæmd vítaspyrna á Alisson fyrir að vella Calvert-Lewin sem var svo dregin til baka í VAR vegna rangstöðu í aðdragandanum.

Leikmenn Liverpool hresstust við þetta og Salah var hér um bil búinn að senda Nunez á auðan sjó með fyrirgjöf en Ben Godfrey komst inn í sendinguna á síðustu stundu. Alisson varði svo einu sinni vel skalla frá Calvert-Lewin áður en Everton tók forystuna á 27. mínútu. Branthwaite var þar að verki eftir mikið klafs í teignum, Alisson var í boltanum en hann fór af honum í stöngina og inn.

Everton var áfram betri aðilinn í leiknum eftir merki þó að Nunez hafi komist í gott færi en látið Pickford verja frá sér. Besti kafli Liverpool kom svo rétt fyrir leikhlé. Diaz og Salah komust þá báðir í fín færi en ekkert mark varð úr því og áfram reyndist okkur erfitt að klára færin sem við fengum.

Það er skemmst frá því að segja að Everton-menn voru sterkari megnið af seinni hálfleiknum og juku forystuna verðskulda með skalla frá Calvert-Lewin eftir hornspyrnu. Klopp gerði skiptingu skömmu síðar en var engan veginn sóknarsinnuð heldur gerði vörnina aðeins varnarsinnaðri með tilkomu Endo. Everton var nálægt því að skoða þriðja markið og tvö færi Liverpool í lokin breyttu engu um svekkjandi tap.

Everton: Pickford, Godfrey, Tarkowski, Branthwaite, Mykolenko (Young 46), Harrisson, Garner, Gueye (Onana 75), McNeil, Doucouré, Calvert-Lewin (Chermiti 90) 

Mörk Everton: Jarrad Barnthwaite (27.), Dominic Calvert-Lewin (58.)

Liverpool: Alisson, Van Dijk, Konate (Quansah, 63), Diaz, Szoboszlai (Endo, 63), Nunez, Mac Allister, Salah, Jones (Elliott, 63), Robertson (Tsimikas, 83), Alexander-Arnold (Gomez, 83).

Gul spjöld: Virgi van Dijk, Luiz Diaz, Alexis Mac Allister. 

Áhorfendur á Goodison Park: 38.222 

Maður leiksins: Afar erfitt að velja þar sem liðið í heild var slakt en líklega var Luiz Diaz sá sem mest ógn stafaði af.


Jürgen Klopp: „Ég er mjö vonsvikinn. Við leyfðum leiknum að spilast nákvæmlega eins og Everton vildi. Tvö mörk úr föstum leikatriðum. Þeir eru mjög sterkir í þeim. Við sköpuðum mikið en skoruðum ekki. Við vorum að flýta okkur of mikið. Þeir skoruðu seinna markið með aðferð sem þeir hafa notað allt tímabili. Þeir fengu endalaust af aukaspyrnum en við vorum ekki nógu góðir."


Fróðleikur


- Leikurinn var 244. grannaslagurinn milli liðanna frá Liverpool. 

- Þetta var fyrsta tap Liverpool á Goodison Park frá árinu 2010. Jafnteflin hafa reyndar verið ansi mörg. 

- Klopp gerði sex breytingar á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Fulham. 

- Þetta var annað tap Liverpool í þremur leikjum. Liðið hafði fyrir það tapað tvisvar í 42 leikjum í deildinni.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan