| Sf. Gutt

Meiðslafréttir


Fyrir um hálfum mánuði voru svo til allir leikmenn aðalliðsins leikfærir. En skjótt skipast veður í lofti. Nú eru alltof margir komnir á meiðslalistann. Jürgen Klopp fór yfir stöðu mála á blaðamannafundi nú eftir hádegið. 

Alisson Becker missti af leik Liverpool og Brentford um helgina. Hann er tognaður aftan í læri. Alisson var reyndar ekki heldur með á móti Burnley en þá var hann veikur. Hann verður frá í næstu leikjum. 


Diogo Jota var borinn af velli á móti Brentford eftir að hafa orðið fyrir meiðslum á hné þegar einn heimamanna lenti illa á honum. Portúgalinn verður ekki með næstu vikurnar. Hermt hefur verið að hann gæti verið frá í allt að tvo mánuði. Það er hið versta mál að Diogo hafi meiðst því hann er búinn að vera frábær á leiktíðinni. 

Curtis Jones meiddist líka á móti Brentford. Hann verður frá í næstu leikjum.

Trent Alexander-Arnold fór af velli í hálfleik á móti Burnley á dögunum. Hnémeiðsli sem hann varð fyrir snemma á árinu tóku sig upp aftur. Ekki er víst hversu lengi hann verður frá en hann missir af næstu leikjum.

Sama má segja um Dominik Szoboszlai. Meiðsli sem hann var búinn að ná sér af tóku sig upp. Hann verður eitthvað frá áfram.

Thiago Alcantara er auðvitað úr leik eftir að hafa meiðst í endurkomuleik sínum gegn Arsenal í byrjun mánaðarins. Hugsanlega spilar hann ekki meira á leiktíðinni.  


Darwin Núnez fór af velli á gegn Brentford um helgina. Það mun hafa verið gert til varúðar. 

Einhver orðrómur var núna eftir helgina um að meiðsli Mohamed Salah hefðu tekið sig upp. Ekkert var minnst á að hann væri meiddur á blaðamannafundinum í dag.

Eins og sjá má á þessari upptalningu að ofan eru alla vega sex leikmenn, sem hafa verið máttarstólpar í liðinu, meiddir. Fyrir liggur að Alisson, Trent, Diogo, Curtis og Thiago geta ekki spilað á móti Chelsea í Deildarbikarúrslitaleiknum næsta sunnudag.  

Að lokum má nefna að þeir Joel Matip, Stefan Bajcetic og Ben Doak hafa ekkert spilað frá því í fyrra. Óvíst er að þeir spili nokkuð það sem eftir er af keppnistímabilinu. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan