| Sf. Gutt

Af kvennaliðinu


Hér eru nýjustu fréttir af kvennaliði Liverpool. Liðið komst áfram í FA bikarnum um helgina með 0:2 sigri á London City Lionesses sem spilar í næst efstu deild. Í næstu umferð á undan um miðjan janúar vann liðið líka útisigur 0:1 á Bristol City. Næst eru átta liða úrslit og mætir Liverpool Leicester City. Liverpool fékk loksins heimaleik. 

Riðlakeppni Deildarbikarsins lauk í desember. Liverpool vann Everton 1:2 í síðasta leik og var það eini sigur liðsins. Áður hafði Liverpool tapað fyrir báðum Manchester liðunum, sem fóru áfram, og Leicester City. Liverpool endaði í næst neðsta sæti síns riðils. 

Liverpool spilaði tvo deildarleiki í desember fyrir vetrarhlé. Fyrst gerði liðið 1:1 jafntefli við Bristol City á heimavelli. Liverpool endaði svo árið á góðum útisigri 1:2 á Manchester United. 


Liverpool hefur leikið þrjá deildarleiki það sem af er nýja árinu. Fyrstu tveir töpuðust. Fyrst kom stórtap 5:1 í Manchester fyrir City og svo 0:2 tap heima gegn Arsenal. Bæði töpin fyrir liðum sem eru í toppbaráttunni. Síðasti deildarleikur fór 1:1 við Tottenham. Litlu munaði að Liverpool tapaði leiknum en Marie Therese Höbinger jafnaði í viðbótartíma. Leikurinn var á heimavelli Liverpool Prenton Park sem er alla jafna heimavöllur Tranmere Rovers.

Sem stendur er Liverpool í fimmta sæti með 19 stig eftir 13 leiki. Chelsea leiðir deildina með 34 stig. Bristol City er neðst með sex stig. Liverpool siglir því lygnan sjó um miðja deild.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan