| Sf. Gutt

Aldarfjórðungur frá frumraun Steven Gerrard

Í dag, 29. nóvember, er aldarfjórðungur liðinn frá því Steven Gerrard lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool. Á lokamínútu leiks Liverpool og Blackburn Roverskom Steven inn á sem varamaður fyrir Norðmanninn Vegard Heggem. Líklega datt engum í hug að þarna kæmi inn á leikmaður sem margir telja þann besta í allri sögu Liverpool Football Club!

Steven segir að enn þann dag í dag sé sú stund þegar hann kom inn á ein sú stærsta á ferlinum. Látum Steven hafa orðið en hann rifjaði fyrsta leik sinn upp í viðtali við Liverpool Echo.

,,Ég gat ekki beðið eftir að koma inn á. Öll fjölskyldan mín var uppi í stúku. Fyrir leikinn tókst mér að útvega um 25 miða því ég taldi að ég ætti svolitla möguleika á að koma inn á í leik með Liverpool í fyrsta skipti. En þegar leið að leikslokum hugsaði ég með mér að ég þyrfti að bíða lengur og vera svolítið þolinmóðari." 

,,Ég var að hita upp og sneri í átt að The Kop þegar Phil Thompson kallaði á mig. Tilfinningin sem ég fékk var ein sú besta sem ég hef upplifað á öllum knattspyrnuferli mínum. Tilfinningin var blanda af mestu vellíðan sem hægt er að hugsa sér og mikilli hræðslu. Ég varð allt í einu mjög taugaóstyrkur og þegar manni líður svoleiðis fær maður þörf fyrir að fara á klósettið. Þetta var einhvern veginn svoleiðis tilfinning sem kom yfir mig. Þetta var mjög ruglingslegt því um leið fann ég fyrir þessari miklu vellíðan. Þetta var alveg ólýsanlegt og ég á aldrei nokkurn tíma eftir að gleyma þessu."
 
,,Ég náði að spila síðustu tvær mínúturnar í venjulegum leiktíma og svo meiðslatímann. Ég náði að snerta boltann fimm eða sex sinnum. Ein snertingin var innkast og svo átti ég fyrirgjafir sem voru of langar. Ég óskaði þess allra helst að leikurinn myndi ekki enda." 

,,Þegar ég settist niður í búningsherberginu eftir leikinn hugsaði ég með mér að draumur minn hafði orðið að veruleika. Mér hafði tekist að ná nákvæmlega þangað sem ég ætlaði mér. Ég hafði lagt gríðarlega hart að mér til að ná þessu takmarki allt frá því ég var átta ára gamall. Það gat ekki nokkur maður tekið það af mér að mér hafði tekist að spila fyrir félagið sem ég hafði haldið með frá barnæsku."

Já, það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því Steven Gerrard lék sinn fyrsta leik með Liverpool. Vorið 2015 lék hann síðasta leik sinn með Liverpool og hélt á braut til Ameríku þar sem hann spilaði með Los Angeles Galaxy.



Eftir að hann lagði skóna á hilluna 2016 hóf Steven þjálfaraferil sinn. Fyrst þjálfaði hann yngri leikmenn Liverpool. Hann tók svo við stöðu framkvæmdastjóra Glasgow Rangers vorið 2018. Hann gerði Rangers að Skotlandsmeisturum á leiktíðinni 2020/21 og það með glæsibrag því liðið tapaði ekki leik í deildinni. 

Steven yfirgaf Rangers í nóvember 2021 og tók við Aston Villa. Hann náði liðinu ekki nógu vel á flug og í október 2022 var hann leystur frá störfum. Í júlí á liðnu sumri tók Steven við framkvæmdastjórn hjá  Al-Ettifaq sem leikur í efstu deild í Sádi Arabíu.  


Steven Gerrard lék 710 leiki með Liverpool og skoraði 186 mörk. Hann vann níu titla með Liverpool og var fyrirliði lengur en nokkur annar í sögu félagsins. Með Los Angeles Galaxy lék hann 38 leiki og skoraði átta mörk. Steven lék 114 landsleiki og skoraði 21 mark.


Hvort Steven er besti leikmaður í sögu Liverpool skal ósagt látið en flestir telja hann eða Kenny Dalglish þann besta. Steven átti í það minnsta einstakan feril með Liverpool og er bestur þeirra leikmanna sem eru aldir upp hjá félaginu. Um það verður ekki deilt!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan