| Sf. Gutt

Jafnt í Manchester


Liverpool náði ekki sigri í Manchester gegn Þrennumeisturum Manchester City. En jafntefli var sannarlega betra en ekkert. Liverpool jafnaði 1:1 eftir að hafa lent undir og verður það að teljast góð niðurstaða miðað við gang mála. 

Leikar hófust í ensku knattspyrnunni eftir síðasta landsleikjahlé ársins. Ekkert kom sérstaklega á óvart í uppstillingu Liverpool. Kannski helst að Curtis Jones var í byrjunarliðinu. Hann var þó sannarlega óþreyttur eftir að hafa fengið frí í landsleikjum vegna meiðsla. 

Heimamenn byrjuðu skiljanlega af krafti. Fyrsta færið kom á 11. mínútu eftir mistök Alisson Becker. Hann ætlaði að spila frá markinu eins og hann gerir jafnan en sending hans fór beint á Phil Foden. Enski landsliðsmaðurinn kom strax skoti á markið en það var laust og Alisson varði án erfiðleika og bætti þar með úr mistökum sínum. Á 20. mínútu var svipað í gangi. Spil hjá öftustu mönnum var á tæpasta vaði. Curtis Jones lenti í vandræðum og Alisson kom boltanum naumlega frá. 


Sex mínútum seinna komust heimamenn yfir. Alisson náði boltanum og hugðist senda langt fram á Mohamed Salah. Spyrna hans var alltof stutt. Nathan Aké náði boltanum á miðjum vallarhelmingi Liverpool, lék á tvo og sendi svo fram á Erling  Haaland. Norðmaðurinn lék aðeins áfram og skaut svo boltanum út í hægra hornið óverjandi fyrir Alisson. Segja má að þarna hafi þriðju slæmu mistökum Liverpool í öftustu vörn verið refsað. Vissulega var Alisson að reyna að hefja skyndisókn en spyrna hans var einfaldlega misheppnuð. Meistararnir nýttu sér mistökin fullkomlega.

Stuttu fyrir hálfleik átti Phil gott skot utan vítateigs en Alisson varði vel vakandi í þetta sinn og varði vel neðst í vinstra horni sínu. Ekkert var meira skorað í hálfleiknum.

Liverpool spilaði betur í síðari hálfleik. Það var þó erfitt að búa til opin færi en góðar stöður sköpuðust. Manchester City fékk líka góðar stöður. Þegar tíu mínútur voru eftir jafnaði Liverpool. Allt byrjaði með því að Erling átti skot af stuttu færi sem Alisson varði vel. Í framhaldinu fór Liverpool í sókn. Mohamed lagði boltann fyrir Trent Alexander-Arnold sem tók eitt skref inn í vítateiginn hægra megin áður en hann skaut góðu skoti neðst út í hornið fjær. Staðan orðin jöfn!

Átta mínútum var bætt við venjulegan leiktíma sem var undarlegt því ekkert var um tafir. Manchester City gerði til dæmis enga skiptingu. City sótti af krafti og Erling skallaði boltann aftur fyrir sig upp úr horni en boltinn fór hárfínt framhjá. Liverpool fór fram í sókn og sending frá vinstri hitti beint á Luis Díaz en hann náði ekki að skalla boltann að marki í góðri stöðu. Leiknum lauk því með jafntefli. Býsna sanngjörn úrslit. 


Liverpool spilaði ekki eins og liðið getur best. En liðið sýndi seiglu og náði að jafna eftir að hafa lent undir. Þetta jafntefli þýðir að í fyrsta sinn á þessu ári náði Manchester City ekki að vinna leik á heimavelli sínum. Það er því alls ekki sem verst að fara með eitt stig frá Manchester. 

Manchester City: Ederson, Walker, Aké, R. Dias, Akanji, Rodri, Álvarez, B. Silva, Foden, Haaland og Doku. Ónotaðir varamenn: Ortega, Carson, Phillips, Stones, Gómez, Gvardiol, Bobb og Lewis.

Mark Manchester City: Erling Haaland (27. mín.). 

Gult spjald: Bernardo Silva.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Tsimikas, Szoboszlai (Gakpo 73. mín.), Mac Allister (Endo 85. mín.), Jones (Gravenberch 54. mín.), Salah, Núnez (Elliott 85'min.) og Jota (Díaz 54. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Konaté og Quansah.

Mark Liverpool: Trent Alexander-Arnold (80. mín.).

Gul spjöld: Darwin Núnez, Joel Matip og Wataru Endo.

Áhorfendur á Etihad leikvanginum: 53.289.

Maður leiksins: Joel Matip. Hann stóð vaktina í vörninni með sóma. Að auki tók hann góðar ripsur fram völlinn. Joel er búinn að vera stórgóður á leiktíðinni. 

Fróðleikur

- Trent Alexander-Arnold skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Joel Matip spilaði sinn 200. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 11 mörk og lagt upp sex.

- Liverpool hefur ekki unnið deildarleik á Etihad leikvanginum frá því á leiktíðinni 2015/16. 

- Liverpool hefur lent undir í sex síðustu deildarleikjum sínum. 

- Fyrir þennan leik hafði Manchester City unnið alla heimaleiki sína á árinu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan