| Sf. Gutt

Evrópuvegferð Liverpool byrjaði vel!


Evrópuvegferð Liverpool byrjaði vel þegar liðið lagði LASK 1:3 að velli í Austurríki nú undir kvöldið. Þriðja útileikinn í röð lenti Liverpool undir en sneri taflinu við í síðari hálfleik. 

Liðsuppstilling

Liðinu, sem mætti Wolves um helgina, var gerbreytt. Enginn var í byrjunarliðinu frá þeim leik. Mestur var áhuginn á ungliðanum Ben Doak sem fékk að spreyta sig í byrjunarliðinu. Stefan Bajcetic lék sinn fyrsta leik frá því í mars.

Gangur leiksins

Liverpool var lengst af með undirtökin og sótti miklu meira. Heimamenn voru þó sprækir og komust yfir. Leikmenn Liverpool létu ekki setja sig út af laginu og héldu sínu striki. Liverpool hefði átt að jafna fyrir hlé en markmaður LASK varði tvívegis vel. En í síðari hálfleik kom þetta allt!

Mörkin

1:0. 14. mínúta. Heimamenn fengu horn frá vinstri. Boltinn var sendur út á Florian Flecker. Hann tók boltann niður og hamraði hann svo neðst í vinstra hornið. Caoimhin Kelleher átti ekki nokkra möguleika á að verja. Florian tók mikið stökk eftir markið sem var stórglæsilegt og áhorfendur fögnuðu gríðarlega.  

1:1. 56. mínúta. Liverpool fékk víti eftir að brotið var á Luis Díaz. Darwin Núnez tók vítið og skoraði með föstu og óverjandi skoti. 

1:2. 63. mínúta. Ryan Gravenberch sendi fyrir frá hægri á Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn tók gott hlaup inn í vítateiginn og smellti boltanum í markið rétt utan markteigs.

1:3. 88. mínúta. Darwin Núnez sendi frá hægri inn í vítateiginn á varamanninn Mohamed Salah. Hann tók við boltanum og stakk sér milli tveggja varnarmanna áður en hann læddi boltanum neðst út í hornið fjær frá markteigshorninu. Glæsilega gert hjá Mohamed! 

Plús

Sigurinn sjálfur og að liðið sýndi styrk með því að snúa tapstöðu í sigur. Ungu piltarnir stóðu sig vel. Margir af lykilmönnum fengu góða hvíld. 

Mínus

Að lenda enn einu sinni undir í leik.


LASK: Lawal, Ziereis, Andrade, Luckeneder (Darboe 80. mín.), Flecker (Ba 89. mín.), Jovicic, Horvath, Renner (Bello 88. mín.), Ljubicic (Koné 69. mín.), Zulj og Havel (Mustapha 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Talovierov, Balic, Usor, Ljubic, Stojkovic, Goiginger og Siebenhandl.

Gul spjöld: Havel, Zulj og Ziereis.

Liverpool:
 Kelleher, Bajcetic (Gomez 61. mín), van Dijk, Konaté (Matip 82. mín.), Tsimikas, Elliott, Gravenberch (Salah 74. mín.), Endo (Mac Allister 61. mín.), Doak ( Szoboszlai 61. mín.), Núñez og Díaz. Ónotaðir varamenn: Alisson, Jaros, Jones, Gakpo, Jota, Robertson og Quansah.

Gul spjöld: Ibrahima Konate og Stefan Bajcetic.

Maður leiksins: Darwin Núnez. Urúgvæjinn var að allan tímann og barðist eins og ljón. Hann skoraði örugglega úr vítaspyrnunni. 

Áhorfendur á Raiffeisen Arena: Ekki vitað. 

Fróðleikur

- Þetta er 48. leiktíð Liverpool í Evrópukeppnum. 

- LASK er 135. liðið sem Liverpool mætir í Evrópukeppni. 

- Þeir Darwin Núnez, Luis Díaz og Mohamed Salah skoruðu allir í þriðja sinn á keppnistímabilinu.

- Jürgen Klopp stýrði Liverpool til sigurs í 50. sinn í Evrópuleik. 

- Þetta er nýtt félagsmet. Rafael Benítez átti gamla metið sem var 49 leikir. 

- Liverpool lék í fyrsta sinn í fjólubláu varabúningunum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan