| Sf. Gutt

Öruggur útisigur


Liverpool vann í kvöld öruggan útisigur í Leicester. Liverpool skoraði öll þrjú mörk leiksins. Liðið heldur áfram á sigurbraut og þegar tvær umferðir eru eftir er enn svolítill möguleiki á að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar. 

Það var mikið undir í Leicester þegar heimamenn tóku á móti Liverpool. Refirnir eru í fallsæti og Liverpool reynir að ná Evrópusæti. Það var því rafmagnað andrúmsloft þegar flautað var til leiks. Helstu tíðindi í sambandi við uppstillingu voru þau að Darwin Núnez var meiddur á tá og gat ekki spilað. 

Heimamenn voru grimmir í byrjun og á 12. mínútu komst Jamie Vardy í færi við markteiginn vinstra megin en Alisson Becker lokaði á hann. Liverpool náði fljótlega yfirhödinni og á 29. mínútu komst Luis Díaz inn í vítateiginn frá vinstri en slakt skot hans fór í hliðarnetið. Hann hefði líka getað gefið á félaga sína sem höfðu fylgt honum og voru í betri stöðum.

Fjórum mínútum seinna kom fyrsta mark leiksins. Alisson sparkaði langt fram. Luis vann skallaeinvígi og eftir það gekk boltinn manna á milli þar til Mohamed Salah fékk hann hægra megin. Hann gaf hárnákvæma sendingu yfir á fjærstöng þar sem Curtis Jones var. Hann skoraði viðstöðulaust af öryggi. Ekki ósvipað mark og hann skoraði á móti Tottenham fyrir nokkrum vikum. Þremur mínútum seinna endaði góður samleikur Liverpool með því að Mohamed fékk boltann á svipuðum slóðum. Aftur gaf hann á Curtis sem var utarlega í vítateignum til hægri. Hann tók við boltanum, sneri sér stöggt við og skoraði með góðu skoti óverjandi fyrir Daniel Iversen. Frábærlega gert hjá Curtis sem hefur verið stórgóður síðustu vikurnar. Leicester tók miðju. Liverpool vann boltann strax og Mohamed sendi fram á Cody Gakpo. Hann var í stórgóðu færi í vítateignum en Daniel varði vel með úthlaupi. Liverpool hafði nú öll völd í hendi sér og staðan í hálfleik góð. 

Líkt og í fyrri hálfleik fékk Leicester færi snemma í síðari hálfleik. Harvey Barnes átti gott bogaskot utan teigs, á 52. mínútu, en Alisson henti sér til hægri og varði í horn. Þetta var eina færi Leicester til leiksloka. Liverpool hélt boltanum oft langtímum saman. Undirspil við yfirburði Liverpool í rúmar tíu mínútur var söngurinn góðkunni um Roberto Firmino. Hann var ekki leikfær en sat við varamannabekkinn með félögum sínum og brosti breitt!

Söngurinn stoppaði eiginlega ekki fyrr en á 71. mínútu þegar Liverpool innsiglaði sigurinn. Liverpool fékk aukaspyrnu utan við vítateiginn. Mohamed rúllaði boltanum aftur fyrir sig til hægri. Trent kom á fullri ferð og negldi boltann upp í hægra hornið. Glæsilegt mark! Þriðja stoðsending Mohamed sem hefði svo átt að skora sjálfur á 79. mínútu. Cody sendi stungusendingu á hann. Mohamed komst einn í gegn og það lá við að stuðningsmenn Liverpool fögnuðu marki þegar hann skaut en öllum að óvörum fór boltinn framhjá. Ótrúlegt! Sigurinn var öruggur þegar upp var staðið og möguleikinn á Evrópusæti er ennþá fyrir hendi!

Liverpool spilaði vel í kvöld og sérstaklega eftir fyrsta markið. Það er allt annað að sjá til liðsins en fyrir nokkrum vikum. Nú eru menn sjálfum sér líkir!

Eftir leikinn var Roberto Firmino hylltur af stuðningsmönnum Liverpool. Sem fyrr segir sungu þeir nafn hans í rúmar tíu mínútur í síðari hálfeik. Söngurinn hélt áfram eftir leik. Hann kom út á völlinn með félögum sínum. Mögnuð stund!

Leicester City: Iversen, Ricardo Pereira (Thomas 67. mín.), Faes, Evans (Souttar 89. mín.), Castagne, Soumaré, Ndidi (Daka 61. mín.), Maddison, Tielemans, Barnes (Tetê 61. mín) og Vardy. Ónotaðir varamenn: Smithies, Kristiansen, Amartey og Mendy 

Gul spjöld: Ricardo Pereira og Luke Thomas.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Robertson, Henderson (Milner 74. mín.), Fabinho, Jones (Carvalho 84. mín.), Salah (Elliott 88. mín.), Gakpo og Díaz (Jota 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Tsimikas, Arthur og Matip.

Mörk Liverpool: Curtis Jones (33. og 36. mín.) og Trent Alexander-Arnold (71. mín.).

Gult spjald:
Ibrahima Konaté.

Áhorfendur á King Power leikvanginum: 32.225.

Maður leiksins:
Curtis Jones. Það voru flestir búnir að afskrifa Curtis sem hefur verið efnilegasti miðjumaður Liverpool síðustu árin. Allt hefur verið honum í mót síðustu tvö árin eða svo en nú hefur blaðið snúist við. Hann hefur haldið sæti sínu eftir að hann fékk tækifæri og hann stendur sannarlega fyrir sínu. 

Jürgen Klopp: Við þurftum að finna svolítið út úr því hvernig við gætum byggt upp spil okkar fyrsta stundarfjórðunginn eða svo. Ég var mjög ánægður með hvernig við spiluðum eftir það. Frábær mörk. Annað markið var í hæsta gæðaflokki. Þetta var næstum fullkominn leikur. 

Fróðleikur

- Curtis Jones er nú kominn með þrjú mörk á leiktíðinni. 

- Trent Alexander-Arnold skoraði fjórða mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Mohamed Salah lagði upp öll þrjú mörkin. 

- Fyrsta markið var númer 450 af útimörkum sem Liverpool hefur skorað á valdatíð Jürgen Klopp.

- Alisson Becker hélt hreinu þriðja leikinn í röð.

- Liverpool vann sinn sjöunda sigur sinn í röð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan