| Sf. Gutt

Stórsigur í Leeds!


Þó á ýmsu hafi gengið á leiktíðinni hefur Liverpool unnið nokkra stórsigra. Einn bættist í safnið í kvöld þegar Liverpool vann stórsigur 1:6 í Leeds.

Það gerist ekki oft í nútímanum að liðum er ekki breytt milli leikja. En nú bar svo við að sama lið var valið og á móti Arsenal á páskunum. Fyrir utan helminginn af fyrri hálfleik eða svo spilaði Liverpool stórvel á móti toppliðinu. Sömu menn fengu traustið á Elland Road. Gleðilegt var að Luis Díaz var orðinn leikfær og var Kólumbíumaðurinn meðal varamanna. Hann spilaði síðast í október.

Nesti heimamanna fyrir þennan leik var ekki burðugt því þeir töpuðu 1:5 heima fyrir Crystal Palace í síðustu umferð. Það kom því ekki á óvart að Liverpool skyldi strax taka öll völd á vellinum. Ekkert að heita var um færi. Eiginlega ekki fyrr en Liverpool komst yfir á 35. mínútu. Trent-Alexander Arnold braust fram og sendi á Mohamed Salah sem gaf aftur á Trent. Hann komst inn í vítateignn og sendi fyrir markið á Cody Gakpo sem skoraði auðveldlega á fjærstöng. Heimamenn mótmæltu því boltinn fór í hendina á Trent áður en hann gaf á Mohamed. Markið hefði því ekki átt að standa. En öllum þeim sem dæmdu leikinn fannst greinilega í lagi að boltinn færi í hendina. Enn einu sinni sem sjónvarpsdómgæslan virkar ekki. 

Liverpool bætti svo í fjórum mínútum seinna. Diogo Jota lék fram og sendi inn í vítateiginn á Mohamed sem þrumaði boltanum í netið. Vel afgreitt hjá Egyptanum. Staðan góð í hálfleik. 

En eins og svo oft áður á leiktíðinni komust mótherjarnir á blað eftir slæm mistök í vörninni. Eftir tvær mínútur í síðari hálfleik náði Luis Sinisterra boltanum af Ibrahima Konaté. Hann lék nær markinu og lyfti boltanum í markið. Vel gert hjá Leeds en vörn Liverpool illa á verði. Rauði herinn lét þetta ekki á sig fá og á 53. mínútu kom enn ein sóknin. Nú var það Curtis Jones sem lék fram. Hann sendi svo inn fyrir á Diogo sem skoraði með góðu skoti rétt við vítateigslínuna. Fyrsta mark Portúgalans fyrir Liverpool í rúmt ár og félagar hans fögnuðu honum vel!

Heimamenn voru varla með en á 58. mínútu átti Brenden Aaronson skot við vítateiginn sem strauk vinkilinn framhjá. Annars voru yfirburðir Liverpool algjörir. Á 64. mínútu kom næsta mark. Liverpool náði hraðri sókn frá sínum eigin vítateig. Sóknin endaði með því að Andrew Robertson sendi inn í vítateiginn  til Cody frá vinstri. Hann lét boltann ganga áfram til hægri á Mohamed sem skoraði örugglega út í vinstra hornið rétt utan markteigs. 

Nú liðu níu mínútur. Jordan Henderson gaf frá hægri út á Diogo. Hann tók boltann viðstöðulaust og skoraði stöng og inn vinstra megin. Hann skaut svo til af sama stað og hann skoraði fyrra markið frá!

Þegar níu mínútur voru eftir var fjórum varamönnum skipt inn. Luis Díaz var einn þeirra og hann fékk sannarlega hlýjar móttökur hjá stuðningsmönnum Liverpool. Darwin Núnez var einn varamannanna. Hann innsiglaði stórsigur Liverpool á 90. mínútu. Trent lék fram miðjuna áður en hann sendi inn í vítateiginn á Darwin sem lagði boltann fyrir sig áður en hann skoraði auðveldlega. Trent spilaði mikið inn á miðjuna eins og á móti Arsenal og það kom mjög vel út. Sex mörk og stórsigur!

Liverpool lék vissulega stórvel en heimamenn voru aldrei með nema í nokkrar mínútur þegar þeir minnkuðu muninn í eitt mark rétt eftir hlé. Yfirburðir Liverpool voru algjörir og eftir fimm leiki án sigurs kom loksins sigur. Vonandi nær Liverpool að fylgja þessum stórsigri eftir! 

Leeds United: Meslier, Kristensen, Koch, Struijk, Firpo, McKennie, Roca, Harrison (Gnonto 77. mín.), Aaronson (Rutter 66. mín.), Sinisterra (Forshaw 77.) og Rodrigo (Summerville 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Robles, Ayling, Cooper, Wöber og Greenwood.

Mark Leeds United: Luis Sinisterra (47. mín.).

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Robertson, Henderson (Milner 82. mín.), Fabinho (Thiago 85. mín.), Jones, Salah (Núnez 81. mín.), Gakpo (Díaz 81. mín.) og Jota (Firmino 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Elliott, Tsimikas og Matip.

Mörk Liverpool: Coady Gakpo (35. mín.), Mohamed Salah (39. og 64. mín.), Diogo Jota (52. og 73. mín.) og Darwin Núnez (90. mín.).

Gult spjald: Fabinho Tavarez. 

Áhorfendur á Elland Road: 36.657.

Maður leiksins: Diogo Jota. Hugsanlega voru einhverjir betri en Portúgalinn skoraði loksins eftir eins árs og nokkurra daga markaþurrð. Hann skoraði meira að segja tvö og svo átti hann stoðsendingu!

Jürgen Klopp: „Fyrir margra hluta sakir finnst mér þetta hafa verið besti leikur okkar á leiktíðinni. Ég veit ekki hvað við skoruðum mörg mörk í kvöld eftir að hafa unnið boltann af þeim. Það gerir gæfumuninn.“

Fróðleikur

- Cody Kakpo skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah er búinn að skora 26 mörk á keppnistímabilinu. 

- Hann hefur nú skorað níu sinnum á móti Leeds. 

- Diogo Jota skoraði í fyrsta skipti fyrir Liverpool frá því í apríl í fyrra. Rúmt ár leið á milli marka!

- Darwin Núnez skoraði 15. mark sitt á sparktíðinni. 

- Þrátt fyrir brösótt gengi á köflum á leiktíðinni var þetta í fjórða sinn sem Liverpool skorar sex mörk eða fleiri í sama leiknum. 

- Þetta var útisigur númer 250 hjá Liverpool í Úrvalsdeildinni eftir að hún var stofnuð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan