| Sf. Gutt

Tap í Madríd


Liverpool er úr Meistaradeildinni eftir 1:0 tap í Madríd. Úrslitin í viðureigninni réðust þó ekki þar heldur í síðari hálfleik liðanna á Anfield Road í síðasta mánuði. 

Helstu fréttir fyrir leik varðandi uppstillingu voru þau að Jordan Henderson var ekki tiltækur vegna veikinda. Stefan Bajcetic gat heldur ekki spilað en hann er meiddur. James Milner kom inn í liðið.

Liverpool fékk fyrsta færið á 7. mínútu. Mohamed Salah sendi þá fram á Darwin Núnez en Thibaut Courtois varði skot hans. Leikuinn var hraður í byrjun og liðin sóttu á báða bóga. Á 14. mínútu fékk Vinícius Júnior dauðafæri rétti uppi við mark Liverpool en Alisson Becker varði ótrúlega með upphandleggnum. Aftur ógnaði Real á 20. mínútu þegar  Eduardo Camavinga  átti bylmingsskot utan vítateigs sem Alisson varði í slána og yfir. Aftur frábær markvarsla. 

Á 32. mínútu átti Darwin skot vinstra megin í teignum en Thibaut varði. Rétt á eftir náði Cody Gakpo föstu skoti en Belginn varði aftur og enn. Markalaust var í hálfleik. 

Síðari hálfleikur var heldur tíðindalítill. Alisson hélt Liverpool inni í leiknum á 53. mínútu þegar hann varði frá Federico Valverde sem komst í færi eftir mistök Andrew Robertson. Það var farið að líta út fyrir markalausan leik þegar Real skoraði á 78. mínútu. Vinícius virtist hafa verið stöðvaður en hann náði liggjandi að stýra boltanum fyrir fætur Karim Benzema. Frakkinn skoraði örugglega í opið markið. Liverpool átti ekki svör þar eftir. Real vann og komast áfram samtals 6:2 sem er hroðaleg niðurstaða!

Leikur Liverpool var ekki sem verstur og liðið hefði vel getað skorað. En Real hefði líka getað skorað fleiri mörk. En eftir stendur að Liverpool tapaði þessari viðureign í seinni hálfleiknum á Anfield þegar allt fór á annan endann í leik liðsins. Nú á Liverpool bara deildarleiki eftir og vonandi næst það út úr þeim að hægt verði að spila í Meistaradeildinni á næsta keppnistímabili.     

Real Madrid: Courtois, Carvajal, (Vázquez 86. mín.), Militão, Rüdiger, Nacho, Modric (Ceballos 82. mín.), Camavinga, Kroos (Tchouaméni 84. mín.), Valverde, Benzema (Rodrygo 82. mín.), Vinícius Júnior (Asensio 84. mín.) Ónotaðir varamenn: Vallejo, Hazard, Lunin, Mendy, Mariano og Rodríguez.

Mark Real Madrid: Karim Benzema (78. mín.).

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Robertson (Tsimikas 90. mín.), Gakpo (Carvalho 90. mín.), Fabinho, Milner (Oxlade-Chamberlain 73. mín.), Salah, Jota (Elliott 57. mín.) og Núnez (Firmino 57. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Keita, Adrián, Jones, Matip og Williams.

Gult spjald: Kostas Tsimikas.

Áhorfendur á Santiago Bernabeu: 63.127.

Maður leiksins: Alisson Becker. Enn og aftur sýndi Brasilíumaðurinn hversu frábær markmaður hann er. 

Jürgen Klopp: ,,Við komum hingað með þriggja marka tap á bakinu. Við þurftum að spila einstaklega vel til að komast áfram. En við náðum ekki að spila einstaklega vel í kvöld." 

Fróðleikur

- Real Madrid sló Liverpool út úr Meistaradeildinni í annað sinn á þremur keppnistímabilum. 

- Real vann svo Liverpool í úrslitaleikjum um Evrópubikarinn 2018 og 2022. 

- Liverpool hafði skorað í öllum sjö Evrópuleikjum sínum fram að þessum á leiktíðinni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan